Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Karl Ágúst kveður Unni móður sína með undurfallegri kveðju:„Mikið hefur lífið verið gott við okkur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Karl Ágúst Úlfsson, leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og leikskáld, minnist móður sinnar, Unnar Karlsdóttir, sem lést í gær, 19. apríl, með einstaklega fallegri og hugheilli færslu á Facebook í dag. Unnur var áttræð þegar hún féll frá.
Færslan hefur hreyft við fjölda fólks sem hefur fært Karli Ágústi innilegustu samúðaróskir. 

 

Kveðja leikarans þjóðþekkta til móður sinnar er svohljóðandi:

Þar sem hún liggur í rúminu
og heyrir grátstafinn í kverkum elsta sonarins
segir hún við mig svo varla heyrist:
Mikið hefur lífið verið gott við okkur.
Um leið óska ég þess að ég geti sjálfur
sagt eitthvað þessu líkt að leiðarlokum
af sömu sannfæringu.

Við vitum það bæði að ófreskjan hefur sigrað.
Sú sem hún glímdi við árum saman
og hélt um tíma að væri dauð og grafin –
hún átti samt ennþá tromp uppi í erminni, ókindin,
og þegar ekkert okkar átti ills von
gerði hún nýja árás og kom okkur öllum í opna skjöldu.

Ég hlusta á þessi skelfilegu sögulok:
Það er ekki hetjan mín sem á endanum stendur uppi sem sigurvegari,
heldur ófreskjan,
sú sem enginn hefur nokkru sinni haldið með svo vitað sé.

Og nóttin kemur
og ég halla mér aftur á bak í hægindastól við hlið hennar.
Ég veit ég á ekki eftir að sofna, heldur hlusta á hana anda.
Það hryglir í henni,
en ég veit að það er þetta sem ég þarf að heyra,
einmitt þetta, einmitt þessa nótt.
Eins og hún hlustaði á mig anda
þegar ég var lítill drengur.

- Auglýsing -

Þá heyri ég andvarp.
Það er svo hreint og svo ungt,
svo laust við sársauka,
svo laust við ásökun – minnir á engan hátt á dauða,
á allan hátt á líf.

Ég við hlið hennar og nóttin svört,
en myrkrið svo milt.
Og ég heyri að þetta er ekki andvarp gamallar deyjandi konu,
heldur ungrar stúlku.

Þetta er hún,
stúlkan sem fæddi mig sautján ára gömul.
Sú sem gaf mér líf,
gaf mér endalausan hlátur, söng,
allar sögurnar,
ástina, faðmlögin, kossana
þegar ég var lítill drengur.
Hún sem gaf mér líf,
gaf mér æsku og unglingsár,
var mér alltaf stoð og stytta.
Trúði alltaf á það sem mér datt í hug,
hversu fráleitt sem það var.

- Auglýsing -

Nóttin er svört, uns dagsbirtan læðist að
fyrir utan spítalagluggann.
Og um leið veit ég að þrátt fyrir allt hefur ófreskjan látið í minni pokann.
Hún heldur sig fagna sigri hér og nú
en bjartar og glaðværar minningar
munu samt alltaf slá hana flata,
gera hana hlægilega,
hafa hana að háði og spotti.

Hér hvílum við saman hlið við hlið í nóttinni
og andvörp hennar svona full af létti, af framtíð –
ég veit að þessi unga stúlka á framundan líf
sem hún þakkar fyrir áratugum seinna af heilum hug.

Og ég á henni allt að þakka.
Ég og allir aðrir afkomendur hennar sem muna –
og þrátt fyrir allt hefur hetjan mín sigrað.

Samt liggur hún hér,
þessi veikburða líkami svo grátt leikinn
að hann getur ekki meir.
Og ég halla mér að henni og segi
mamma, elsku mamma mín,
ég gæti aldrei talið upp allt það sem ég vildi þakka þér.
En takk fyrir lífið, fyrir hláturinn,
ástina, sönginn og sögurnar.
Nú er kominn tími til að ganga burt frá þessum bardaga,
lyfta fótum frá jörðu og svífa út í frelsið.

Og hún svífur, hún flýgur. Hún fer,
hún mamma mín.
Og ég er lítill drengur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -