Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, segist hafa mölbrotið tveggja metra regluna þegar hún hjálpaði drukknum manni á Rauðarárstíg síðdegis í gær. Henni líður vel eftir að hafa sýnt samkennd í verki og segir að samfélagið verði að gera allt sem hægt er til að draga þá viðkvæmu í skjól í Covid-faraldrinum.
Söguna segir Katrín í færslu sinni á Facebook. „Þegar ég kom út úr plötubúð á Rauðarárstíg klukkan sirka 17 í dag sá ég mann liggjandi á miðri bílagötu á móti. Ég skellti á Kristínu, sem ég var að tala við í símanum, og hljóp til hans en í sömu andrá bar að tvö pör úr sitt hvorri áttinni. Við vorum eins og járnagnir að segli, þrjár einingar sem skutust úr sitt hvorri átt að manninum sem lá svartklæddur á bakinu eins og afvelta járnsmiður, með hendur og fætur upp í loft. Við reyndum að reisa hann við en hann var afar þungur og valtur á fæti. Þegar hann var spurður hvort hann væri drukkinn svaraði hann: „Heldur betur!,“ segir Katrín.
Þegar hér er komið við sögu ná Katrín og aðstoðarmenn hennar að draga hinn drukkna af umferðargötunni og fá upp úr honum hvar hann byggi. „Ég og maður sem ég komst seinna að að héti Hörður drógum hann áfram. Eldri hjónin sem höfðu komið síðust að sáu um að bera níðþunga íþróttatöskuna hans. Konan hans Harðar hélt á plötunni minni. Það var eins og við hefðum ákveðið þessa verkaskiptingu á klukkutímalöngum skipulagsfundi, svo fumlaus var hún. Okkar maður var einkennilega fattur, starði beint upp í himininn á meðan við drösluðum honum áfram, og var fyrir vikið alltaf við það að detta aftur fyrir sig. En okkur tókst þó að tosa hann alla leið í bælið að lokum,“ segir Katrín og bætir við:
„Hann þakkaði okkur ítrekað fyrir á meðan við roguðumst með hann heim, sagðist vera múrari og alveg getað borið sína 20 kílóa tösku sjálfur. Stoltur íslenskur steggur. En ég segi íslenskur því hann sagði eitt sem situr í mér þegar hann var að þakka okkur fyrir að aðstoða sig hann sagði: „Svona er fólk á Íslandi“. Eftir að við höfðum komið honum í skjól sagði Hörður mér að hann hefði horft á breskan þátt þar sem leikarar þóttust hafa hnigið niður út á götu og það tók víst ár og aldir þar til einhver vegfarandi skipti sér af þessu fólki.“
„Á sama tíma vitum við öll að stórir hópar fólks búa við viðvarandi fátækt og erfiðar aðstæður. Við getum ekki stormað að þeim og dregið þau í skjól, eins og hægt var að gera í dag, en ég held að okkur langi það þó langflestum“
Katrín vonar að svoleiðis verði það aldrei hér að við höldum áfram þegar við sjáum einhvern í vanda. Hún hefur áhyggjur af því að hinn drukkni múrari hafi vaknað í morgun með höfuðverk. „Og vonandi sefur múrarinn vel í nótt. Mér leið vel eftir þetta. Samkennd í verki sýnir nefnilega að við erum öll í þessu saman – sem er gott. Svo fannst mér fallegt hvað maðurinn sjálfur var meðvitaður um ástand sitt í öllu þessu rugli, sem mig grunar að sé með einhverjum hætti rekjanlegt til Kófsins. Álagið sem er á fólki út af þessu ástandi verður seint mælt. Það er sjálfsagt mál fyrir okkur svo mörg að hjálpa fólki sem liggur hjálparvana út á götu af því það er einfalt. Á sama tíma vitum við öll að stórir hópar fólks búa við viðvarandi fátækt og erfiðar aðstæður á grundvelli þess að vera t.d. öryrkjar, aðfluttir eða aldraðir. Við getum ekki stormað að þeim og dregið þau í skjól, eins og hægt var að gera í dag, en ég held að okkur langi það þó langflestum. Við verðum að finna leiðir fyrir segulkraftinn til að virka inn í okkar sameiginlegum kerfum. Við bara verðum!,“ segir Katrín.