Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra gefur ekki mikið fyrir gagnrýni um að nú eigi að vísa hælisleitendum úr landi í massavís eftir kórónuveirufaraldurinn; bendir á að fólkið sem hér um ræðir hafi verið á Íslandi ólöglega allan þann tíma.
Brottvísanir útlendinga eru nú aftur á dagskrá dómsmálaráðherra eftir hlé vegna heimsfaraldursins, en ljóst er að mörg lönd eru byrjuð að falla frá kröfu um neikvætt PCR próf frá hælisleitendum sem hafa fengið synjun á Íslandi:
„Það eru hér hátt í 300 manns, 270 til 280, sem að dvelja í ólögmætri dvöl. Þetta er fólk sem að hefur fengið málsmeðferð á stjórnsýslustigi og hjá kærunefnd útlendingamála með sinn talsmann sér við hlið en hefur neitað að fara í þessi próf,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við Vísi.
Gagnrýnt hefur verið víða að brottvísanir skuli hefjast aftur; þeirra á meðal er lögfræðingurinn Magnús Davíð Norðdahl, sem segir umbjóðendur sína hafa fengið símtal þess efnis; það hafi verið svakalegur skellur fyrir stóran hóp.
Magnús segir að hér sé um að ræða einstaklinga sem hafa fest rætur á Íslandi undanfarin ár.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra virðist hreinlega ekki kippa sér neitt upp við að ákvörðun hans um brottvísun þessa fólks sé gagnrýnd:
„Þetta fólk hefur verið hér í ólögmætri dvöl. Það hefur alveg vitað af því að þessi dagsetning kæmi og í raun samkvæmt lögum hefði það átt að vera farið úr landi.“
Þannig það hefur verið á sína ábyrgð hér í lengri tíma vitandi það að að þessari dagsetningu kæmi og nú er hún runnin upp og þá er hægt að fara framfylgja þeim lögum eins og þau eru.“
Jón nefnir að nú sé til umræðu lagafrumvarp innan Alþingis um breytingar á útlendingalögum:
„Það verða nokkrar breytingar á málsmeðferð í þessum málum til að gera þetta skýrara og færa okkur nær þeim reglum sem gilda í nágrannalöndum okkar.“
Jón bætir við að „þetta er ekki óumdeilt mál og það verður örugglega rætt vel á þinginu og innan nefndarinnar.“
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tekur undir með að um flókinn og erfiðan málaflokk sé um að ræða og að ákveðnir þættir hafi verið til umræðu síðustu ár; til dæmis brottvísanir, sem eru í samræmi við þann lagaramma sem er til staðar:
„Ég held að við þurfum að horfa á stóru myndina í þessu,“ segir Katrín og bætir við:
„Þegar við horfum heilt yfir, ekki bara á flóttafólk, heldur líka aðra innflytjendur, þá held ég að þessir hópar hafi auðgað samfélagið okkar mjög mikið, en það er hins vegar skortur á heildarstefnumótun um málefni útlendinga og það er stefnumótun sem er í undirbúningi.“