Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Katrínu var nauðgað af manni sem hún treysti: „Hann játaði tvisvar en samt var málið fellt niður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Katrín Von Gunnarsdóttir segir frá hræðilegri reynslu sem hún varð fyrir:
„Fyrir nákvæmlega ári síðan var mér nauðgað af manni sem ég treysti. Daginn áður en það gerðist hringdi ég grátandi í hann af því að mér leið ömurlega yfir deginum, 15.okt, sem er afmælisdagur mömmu minnar sem lést 2013 eftir langa og erfiða baráttu við andleg veikindi.“
Katrín hringdi „í þennan mann af því að þarna var hann sú manneskja sem ég treysti einna best af fólkinu í kringum mig. Kvöldið eftir nauðgaði hann mér á mínu eigin heimili. Staðnum sem ég á að vera öruggust á. Hvort hann hafi nýtt sér viðkvæmni mína þennan tiltekna dag veit ég ekki en það breytir engu,“ segir hún og bætir við:
„Hann fékk gistingu hjá mér eftir djamm þetta kvöld og tók það skýrt fram áður en hann kom að hann vildi EKKI stunda kynlíf með mér. Eftir að hann kom var allt eins og vanalega. Hann kom með í hesthúsið og við kláruðum að setja hrossin sem ég var með í tamningu inn og gefa þeim fyrir nóttina. Eftir að við komum inn og vorum komin upp í rúm til þess að SOFA var ég í símanum að skoða samfélagsmiðla eins og flest önnur kvöld áður en ég fer að sofa.“
Þá færði maðurinn sig upp á skaftið og Katrín „fann að hann byrjaði að strjúka á mér lærið sem ég man að mér fannst mjög óþægilegt og lagði frá mér símann og þóttist vera farin að sofa. Ég þóttist svo vera sofnuð þegar hann byrjaði að reyna meira af því að mér leið illa og ég vildi bara fara að sofa enda hafði ég engan áhuga á neinu öðru með þessum manni.“
Hún bætir við:
„Ég man hvernig hann snerti mig og hvíslaði í eyrað á mér: “segðu bara já eða nei, þú þarft ekki að vakna”. Með þessum orðum gerir hann það ansi skýrt að hann heldur að ég sé sofandi. Ég svaraði honum ekki enda leið mér mjög illa í þessum aðstæðum og þorði ekkert að segja. Ég bara fraus, lamaðist og kom ekki upp úr mér orði. Honum var augljóslega skítsama um það hvort ég væri vakandi eða sofandi og nauðgaði mér á meðan ég “svaf”. Ég safnaði svo kjarki í það að snúa mér við svo hann næði ekki að halda áfram og þannig hætti þetta. Hann fer að grenja, spyr sjálfan sig að því af hverju hann gerði þetta og tekur upp vasahníf í herberginu mínu til þess að ég best veit, skaða sig. Þá fyrst næ ég að segja honum að sleppa hnífnum og drulla sér út.“
Katrín gerði síðan það rétta í stöðunni:
„Fyrstu viðbrögð hjá mér eftir þetta er að segja vinum mínum frá sem allir trúðu mér strax og voru ekkert nema góðir við mig. Ég kærði hann svo 7 dögum seinna með játningu frá honum í skilaboðum, vini mína sem ég talaði við þetta kvöld sem vitni og einnig sameiginlega vinkonu okkar gerandans sem vitni þar sem hann játaði líka fyrir henni. 9 mánuðum seinna var málið mitt fellt niður með þeim rökum að “ég var ekki nógu hrædd” á meðan þessu stóð. Ég kærði niðurstöðuna og í dag, 12 mánuðum eftir atburðinn, fékk ég að vita að kæran var endanlega felld niður og að það er ekkert sem ég get gert meira í þessu. Rökin í dag voru “orð á móti orði,“ segir Katrín og heldur áfram:
„HVERNIG er það orð á móti orði ef að ég sem fórnarlamb er með TVÆR fokking játningar frá geranda. Hans orð á móti eru þau að “hann hafi sagt þetta til að róa mig niður”.
Síðan hvenær róar það fólk niður að segjast hafa fokking nauðgað því??? Og hver eru þá fokking rökin fyrir því að hafa játað þetta fyrir vinkonunni???
Hvernig í andskotanum er þetta orð á móti orði ef þolandi segir að gerandi nauðgaði sér og gerandi játar tvisvar að hafa nauðgað þolanda?!
Hvernig í andskotanum er réttlátt að fella niður kæru með tvær játningar frá geranda af því að þolandi var “ekki nógu hrædd” á meðan þetta átti sér stað?!“
Katrín nefnir að eftir nauðgunina hafi líf hennar gjörbreyst til hins verra:
„Er ekki nóg að ég hafi ekki sofið í 4-5 mánuði eftir þetta? Er ekki nóg að ég hafi þurft svefnlyf en SAMT ekki getað sofið? Er ekki nóg að ég hafi byrjað að skaða sjálfa mig?
Er ekki nóg að ég hafi þurft að hitta geðlækni? Er ekki nóg að ég hafi þurft að byrja á þunglyndis- og kvíða lyfjum? Er ekki fokking nóg að mér hafi liðið það illa eftir þetta að ég lokaði á nánast alla fjölskyldu og vini mína og byrjaði að haga mér eins og fífl vegna vanlíðan?
Hvernig mögulega eiga þolendur að vinna svona mál ef að tvær játningar frá geranda eru ekki nóg???
Hvernig í andskotanum er sanngjarnt að hann fái að lifa sínu lífi eðlilega án þess að þurfa að gjalda eitt eða neitt fyrir gjörðir sínar.
Hvernig í fokkanum er sanngjarnt að ég þurfi að eyða mínum lífi í að vinna upp öryggi og sjálfstraust eftir að hann gjörsamlega stútaði því.
Ekki misskilja mig samt, það eiga allir að fá séns til að gera betur og takast á við sín vandamál en fólk þarf þá að byrja á því að TAKA FOKKING ÁBYRGÐ!!!
Hvaða fokking kjaftæði er Íslenska réttarkerfið í alvöru fokking talað!“
Katrín segir að lokum að fólk eigi að trúa þolendum og vill að sem flestir deili frásögn hennar:
„Trúum þolendum! Takk fyrir að lesa þetta. Mér þætti afskaplega vænt um það ef þú tækir þér tíma í að deila þessu fyrir mig.
Og til geranda: Ég vona að þú eigir ömurlegt líf þangað til þú gerir eitthvað í þínum málum. Taktu þig saman í fokking andlitinu og gerðu það rétta í stöðunni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -