Kaupir notuð föt og stundar fataskiptimarkaði til að draga úr sóun

Deila

- Auglýsing -

Vistvænn lífsstíll hefur verið tónlistarkonunni Hafdísi Bjarnadóttur hugleikinn undanfarin ár. Á seinni árum hefur Hafdís lagt sérstaklega mikla áherslu á umhverfisvænar lausnir þegar kemur að tísku og hún kaupir sjaldan ný föt. Í staðinn reynir hún að kaupa föt á nytjamörkuðum og stunda fataskiptimarkaði svo dæmi séu tekin. Hún hvetur fólk til að vanda valið þegar kemur að fatakaupum.

„Ég kaupi mér rosalega sjaldan föt. Síðasta flík sem ég keypti voru íþróttaskór af konu á Bland.is núna í vetur. Þar áður keypti ég notaða kápu sem ég fékk í Hertex-nytjamarkaði í desember,“ segir Hafdís þegar hún er spurð hvar hún kaupi helst föt.

„Stundum kaupi ég af fólki á Facebook og stundum í Org í Kringlunni. Org finnst mér frábær búð því hún leggur áherslu á föt úr góðum náttúrulegum efnum sem eru framleidd á sjálfbæran hátt af fyrirtækjum sem styðja við mannúðarmál og uppbyggingu. Ég hef einstaka sinnum keypt mér vönduð merkjaföt í Geysi og Kiosk. En annars kaupi ég helst notuð föt í Hertex-búðunum, verslunum Rauða krossins eða af fólki á Netinu. Mesta fjörið finnst mér samt vera í fataskiptum, þá skipti ég út fötum sem ég passa ekki lengur í eða er orðin leið á fyrir föt sem aðrir passa ekki lengur í eða eru orðnir leiðir á,“ útskýrir Hafdís.

Engin flík í eitt ár

Hafdís segir að henni hafi alltaf þótt erfitt að henda hlutum og þess vegna á það vel við hana að gefa gömlum fötum framhaldslíf.

„Mér hefur alltaf þótt öskuhaugar og landfyllingar ótrúlega sorglegir staðir. Ég hef alltaf haft áhuga á að nýta hitt og þetta,“ segir Hafdís.

Það var fyrir um sex árum sem Hafdís fór að setja sér reglur og viðmið um hversu mikið hún mætti kaupa af tilteknum hlutum, til dæmis fötum. „Þá fór ég að leggja aukna áherslu á að kaupa notaðar flíkur frekar en nýjar, þó ég hafi alla tíð keypt notuð föt og hluti í bland við nýtt.“

Ég hef alltaf haft áhuga á að nýta hitt og þetta.

Eitt sinn setti Hafdís sér það markmið að kaupa ekki eina einustu flík í heilt ár, ekki einu sinni nærföt. Spurð út í hvernig það gekk segir hún: „Það gekk furðuvel, ég var sjálf frekar hissa hvað þetta var miklu minna mál en ég hélt.“

Áður en hún setti sér þá áskorun hafði hún verið í nokkrar vikur í listamannabúðum erlendis og hafði þá lítið af fötum með sér. Hún segir þær vikur hafa verið góðan undirbúning fyrir áskorunina. „Þetta var í rauninni ekkert erfitt, nema kannski smávegis eftir svona átta mánuði þegar ég var orðin frekar leið á úrvalinu í skápnum. Sem betur fer hafði ég hugsað út í það fyrir fram, þannig að nokkrum mánuðum fyrr hafði ég „falið“ einn uppáhaldskjól til að draga fram þegar að þessu kæmi. Það var mjög hressandi að fara í hann á þessum tímapunkti.“

Skyrtukjóllinn sem Hafdís klæðist hér fékk hún í fataskiptum.

Meðan á áskoruninni stóð uppgötvaði Hafdís fataskiptimarkað sem er haldinn á Loft, Bankastræti, einu sinni í mánuði. „Það var mjög gaman að kíkja þangað og skipta, enda var ekkert í reglunum sem sagði að ég mætti ekki skipta á fötum, svo lengi sem ég væri ekki að kaupa ný föt,“ segir Hafdís kímin.

Gerir tilraunir með stíliseringar

Eftir að Hafdís fór að draga verulega úr fatakaupum hefur hún lært að nýta það sem hún á vel með því að stílisera flíkurnar á nýjan hátt eða breyta þeim og laga.

„Ég er alltaf að leita að einhverjum sniðugum leiðum til að breyta fötunum. Stundum dreg ég fram saumavélina og stytti ermar, breyti sniði eða hálsmáli eða eitthvað slíkt. En stundum þarf ekkert endilega að gera það. Um daginn fékk ég til dæmis skemmtilegan kjól í fatabýttum, hann virkar eiginlega best sem „bolur“, og svo fer ég í pils yfir.

Stundum dreg ég fram saumavélina og stytti ermar, breyti sniði eða hálsmáli eða eitthvað slíkt.

Ég á líka peysu úr fatabýttum sem er hneppt og rosalega síð en ég komast að því að hún er mjög skemmtileg ef ég læt hana snúa „vitlaust“, þannig að tölurnar séu að aftan, og svo bretti ég hana inn undir sjálfa sig til að gera hana styttri. Stórar karlaskyrtur verða svo að hálfgerðum kjólum með því að bretta upp ermar og nota með belti. Stundum áskotnast mér peysur sem eru allt of stórar á mig en eru mjög flottar ef ég bretti upp ermarnar,“ tekur Hafdís sem dæmi.

Gott að byrja á litlum skrefum

Það gleður Hafdísi að sjá að einhvers konar vitundarvakning er að eiga sér stað núna hvað fatasóun og óhófleg fatakaup ræðir.

„Mér finnst eins og mikil vitundarvakning sé að eiga sér stað akkúrat núna. Ég held samt að fyrir marga sé það stórt stökk að ætla að draga úr fatakaupum, enda höfum við mörg verið svolítið kræf í því að kaupa okkur ný föt án þess að þurfa þau. Það er um að gera að taka lítil skref í þessu, til dæmis að setja sér markmið um engin ný föt í einhvern ákveðinn tíma, sem hver og einn telur sig geta ráðið við. Svo má setja sér viðmið um hversu markar flíkur má kaupa á ákveðnu tímabili. Eða markmið um að kaupa notað frekar en nýtt.“

Ég held samt að fyrir marga sé það stórt stökk að ætla að draga úr fatakaupum.

Hafdís er viss um að margt fólk sé í auknum mæli að velta fyrir sér hvernig sé hægt að draga almennt úr umhverfisfótsporunum með breyttum venjum.

Þessi Stine Goya-kjóll er í uppáhaldi hjá Hafdísi. Kjólinn keypti hún af konu í gegnum Facebook.

„Mér sýnist margir vera að velta fyrir sér hvernig best sé að vernda jörðina gegn mengun og drasli. Eins er fólk að velta fyrir sér hvaða valkosti það hefur. Til dæmis hvort betra sé að kaupa endurunnið polyester eða lífrænt ræktaða bómull. Eða hvort venjulegt plast eða lífplast sé skárra o.s.frv. Það sem við getum verið 100% viss um að skili einhverju er að ef við öll minnkum óþarfa neyslu og kaupum hreinlega minna af öllu.“

Meðfylgjandi eru nokkrir punktar sem Hafdís mælir með að fólk skoði hafi það áhuga á að draga úr fatakaupum:

  1. Það er skemmtilegt að mæta á fataskiptimarkaði, til dæmis þann sem er haldinn á staðnum Loft, seinasta miðvikudag í hverjum mánuði. Þar getur þú skipt fötunum þínum út fyrir önnur.
  2. Á Facebook-síðunni Zero Waste – Fataskipti er hægt að býtta á fötum.
  3. Reyndu að laga föt í stað þess að henda þeim. Fyrsta sunnudag hvers mánaðar er haldinn viðgerðarviðburður á vegum Reykjavík Tool Library (fyrir föt og margt fleira). Þar býðst fólki að koma með föt og laga þau með aðstoð sjálfboðaliða.
  4. Kynntu þér svokallað „capsule wardrobe“, sem snýst um það að hafa fáar, vandaðar og hagnýtar flíkur í fataskápnum. Lesa nánar hér: Smár en knár fataskápur.
  5. Stíliseraðu fötin á ólíkan hátt og gerðu tilraunir með samsetningar til að minnka líkurnar á að þú verðir leið á þeim fötum sem þú átt.
  6. Vertu opin/nn fyrir því að kaupa notuð föt, t.d. á nytjamörkuðum, á Bland.is og Facebook svo dæmi séu tekin. Þá má nefna Barnaloppuna fyrir föt á börn.

Myndir / Hallur Karlsson

- Advertisement -

Athugasemdir