2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Kemst þangað sem ég ætla mér“

Ragnheiður Ragnarsdóttir varð landsþekkt á Íslandi fyrir sundafrek sín, tók meðal annars í tvígang þátt í í keppni á Ólympíuleikum, en hún söðlaði um og undanfarin ár lærði hún leiklist í Los Angeles og setti sér það markmið að fá hlutverk í sjónvarpsþáttunum Vikings þegar náminu lyki. Það tók fjögur ár en eins og þeir vita sem séð hafa stikluna fyrir fimmtu seríu þáttanna leikur hún þar stórt hlutverk. Auk þess leikur hún í fleiri þáttum, sem hún má alls ekki tjá sig um strax, er einstæð móðir fimm ára sonar og tekur enn þátt í sundkeppnum. Við spyrjum hana hvert leyndarmálið er á bak við þennan árangur.

Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð, ólst upp í Garðabænum og Danmörku, byrjaði að æfa sund sex ára gömul og var komin í unglingalandsliðið tólf ára og landsliðið fjórtán ára. Hún keppti fyrst á Ólympíuleikum árið 2004 í Aþenu og svo aftur í Bejing 2008. Hún var á fullu að æfa fyrir leikana í London 2012 þegar örlögin gripu í taumana.

„Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til!” Mynd / Hallur Karlsson

„Þá var ég orðin ólétt, komin fjóra mánuði á leið, þannig að það fór ekki alveg eins og stefnt var að,“ segir hún hlæjandi. „En það var raunar kærkomin hvíld . Ég hafði fengið lungnabólgu fyrr um veturinn og var lengi þreytt og veik og mér fannst þetta ágætis tími til að taka góða pásu frá sundinu.“

Sonur Röggu, Breki, verður sex ára í febrúar en hann gengur í Ísaksskóla og fylgir móður sinni oft á upptökustaði þáttanna og kvikmyndanna sem hún leikur í. Hún segir vel hafa gengið að samræma hlutverk einstæðrar móður því flökkulífi sem fylgir leikarabransanum.

AUGLÝSING


„Þetta er púsl,“ viðurkennir Ragga. „En mér finnst þetta gaman. Á meðan ég var í sundinu varð ég auðvitað vön því að vera alltaf að ferðast, var að æfa og keppa út um allan heim, þannig að ég vandist því að búa hálfpartinn í ferðatösku og hann er að venjast því líka. Stundum kemur hann með mér, stundum er hann heima en hér hef ég góða hjálp frá öllum í kringum mig, enda þarf þorp til að ala upp barn. Síðan hann byrjaði í skólanum er orðið aðeins erfiðara að fara með hann í burtu en ég tek hann stundum með mér í viku hér og viku þar. Hann var líka með mér í Dublin í allt sumar þar sem þættirnir Vikings eru teknir upp.“

Ólympíuleikarnir og Óskarsverðlaunin efst á óskalistanum

Ragga býr yfir mikilli þolinmæði og vissi að allt tæki sinn tíma. „Fyrst eftir að ég hætti að synda sinnti ég bara móðurhlutverkinu til að byrja með,“ segir Ragga. „Ég tók mér hlé alveg í tvö ár en þegar sonur minn var rúmlega eins árs flutti ég til L.A til að fara í nám í leiklist. Ég lærði þar í um það bil eitt og hálft ár, tók enga gráðu samt, og fékk síðan atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í eitt ár.

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið. Ég sagði einmitt við pabba þegar ég var sjö ára að þegar ég yrði stór ætlaði ég á Ólympíuleikana og á Óskarsverðlaunaafhendingu. Hann sagði bara flott, gaman, gerðu það! Ég er mjög þolinmóð manneskja og ég veit að hlutirnir taka tíma, það tekur ekki korter að undirbúa sig fyrir Ólympíuleika og ekki heldur fyrir frama í leiklist.“

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið.

Leiklistaráhuginn er greinilega landlægur í fjölskyldunni því leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, sem hefur meðal annars leikið í sjónvapsþáttunum um Stellu Blómkvist og bresku þáttunum Poldark, og Ragga eru til dæmis bræðrabörn. Svo virðist sem áhuginn sé í ættinni.

„Amma mín var mikill „performer“,“ segir Ragga hlæjandi. „Ekki kannski endilega leikkona en hún var alltaf að spila á gítar og koma fram og vera veislustjóri hér og þar. Bróðir mömmu er Valgeir Guðjónsson Stuðmaður svo maður vandist því að fólk í fjölskyldunni væri í sviðsljósinu. Guðjón bróðir minn er svo kvikmyndagerðarmaður, fór með mér til L.A til að læra leiklist en er núna kominn alveg á fullt í kvikmyndagerðinni.“

Aldrei spurning að hún kæmist inn í Vikings

Eins og fyrr segir var Ragga lengi harðákveðin í því að landa hlutverki í Vikings. „Ég hreifst svo af þáttunum þegar ég byrjaði að horfa á þá þegar sonur minn var nokkurra vikna gamall,“ útskýrir hún. „Það að vilja verða leikkona er eitt, en að vita hvert maður ætlar er annað. Ég hugsaði aldrei: kannski fæ ég eitthvað að gera, heldur var ég harðákveðin í því að ég ætlaði að leika í þessum þáttum. Ég veit að ég er ekki týpan sem fær hlutverkin sem sæta stelpan í næsta húsi, ég er 188 sentimetrar á hæð, mjög sterk og vel á mig komin og maður þarf að vita það sjálfur hvaða hlutverk henta manni. Ég hætti aldrei að trúa því að ég fengi hlutverk í Vikings, það var ekki bara að ég vildi það heldur ætlaði ég þangað. Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings. Það var ekki neitt sem ég þurfti að sanna að ég gæti, ég hef aldrei hugsað þannig, ég fer bara þangað sem ég vil og ætla mér og mér finnst skipta máli. Hingað til hef ég gert allt sem ég hef sett mér markmið um og ætla að halda því áfram. Þannig að það var aldrei spurning í mínum huga að ég kæmist inn í þættina. Það tók langan tíma, nærri fjögur ár, en ég komst þangað að lokum.

Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings.

Margir halda að maður geti bara fengið hlutina á einn hátt, hvort sem það eru peningar eða vinna eða barn eða hvað sem það er,“ segir Ragga. „Ég hef bara aldrei hugsað þannig. Ég hef alltaf hugsað að maður fái bara allt sem maður vill og það komi þegar það á að koma og eins og það á að koma. Ég var ekki með umboðsmann sem fann hlutverkið fyrir mig, ég bara skóflaði mig áfram og hitti fólk á leiðinni sem gat ekki hjálpað mér en líka fólk sem gat hjálpað mér. Ég í rauninni bara spurði alla í bransanum hvort þeir þekktu einhvern sem væri að vinna í Vikings og loksins eftir þrjú ár datt ég inn á einhverja línu og fékk að tala við fólk hér og þar. Var kynnt fyrir manni sem þekkti einhvern sem þekkti einhvern og svo kom þetta bara smám saman. Á endanum komst ég í samband við Michael Hirst, aðalhandritshöfund þáttanna, og hann fékk að sjá mig og heyra hver ég var og nokkrum vikum seinna var hlutverk komið inn á borð til mín.“

Ragga verður vandræðaleg á svip þegar hún er spurð hvort Hirst hafi skrifað hlutverkið sérstaklega fyrir hana. „Hann hefur örugglega verið með þetta tilbúið,“ segir hún fljótt. „En kannski séð að þetta hlutverk hentaði mér vegna þess að hann er mjög góður mannþekkjari. Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel. Hann náði mér algjörlega og ég þurfti mjög lítið að undirbúa mig fyrir hlutverkið, þetta var bara ég. En ég fór svo auðvitað í prufu, það er bara ferlið. Ég fór í „screen test“, var sett í búning og lék eitt atriði og nokkrum vikum seinna var ég komin til Dublin og byrjuð að vinna, eiginlega áður en ég vissi af. Ég missti mig aldrei eitthvað yfir að hafa fengið hlutverkið, þetta var bara planið og það gekk upp.“

Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel.

Vildi ekki leika í Game of Thrones

Eins og gefur að skilja er karakter Röggu nýr í þáttunum en hún harðlokast þegar spurt er nánar út í hann. Þáttaröðin fer í sýningu þann 28. nóvember og það er harðbannað að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum, sem eru milljónir um allan heim. Hún viðurkennir þó að þetta sé stórt hlutverk og persóna sem skipti máli í sögunni.

„Ég kem fyrir í stiklunni og ofuraðdéndur þáttanna hafa hamast við að púsla saman hlutunum og reyna að komast að einhverju um þennan karakter sem samkvæmt stiklunni er greinilega í víglínunni, en meira get ég ekki sagt þér,“ segir hún ákveðin.

Ragnheiður segist alltaf ná markmiðum sínum, en það kosti vinnu, aga og endalausa þolinmæði. Mynd / Hallur Karlsson

Eins og dyggir áhorfendur Vikings vita byggja þættirnir á Íslendingasögunum og norrænum goðsögum, aðalhetjan er Ragnar loðbrók, þannig að fólk kannast við persónurnar, þótt ýmsum sé auðvitað bætt við til að breikka söguna. Ragga segir að þetta séu hennar uppáhaldsþættir og hafi verið lengi, hún hafi alltaf vitað að þetta væri málið fyrir hana.

„Ég horfði líka á Game of Thrones en þá hugsaði ég ekki að ég ætlaði að leika í þeim. Alveg góðir þættir, en ekki fyrir mig. Eftir að ég fékk atvinnuleyfið í Bandaríkjunum vann ég rosamikið í heilt ár, fékk engin stór hlutverk samt, var með umboðsmann sem ég síðan hætti hjá því mér fannst hann ekki gera nóg fyrir mig. En hann sendi mig í alls konar prufur fyrir hitt og þetta, ég fékk vinnu við nokkrar auglýsingar, var aukaleikari í sumum stærstu þáttunum í heiminum, eins og Scandal og West World, og sömuleiðis í nokkrum bíómyndum með frægum leikurum. Ég vann líka í tvo mánuði sem „stand in“ fyrir eina af leikkonunum í stórri bíómynd og kynntist öllum sem unnu við myndina. Það var mjög gaman. Svo rann atvinnuleyfið út og ég flutti heim, fékk mér vinnu og byrjaði að skófla mig enn þá meira í átt að Vikings.“

Þættirnir eru að stærstum hluta teknir upp á Írlandi og Ragga hefur verið í Dublin meiripartinn af síðustu tveimur árum að vinna við þá. Hún er samt ekki uppnumin yfir frægðarlífinu, segir vinnuna við þættina voða svipaða því að vera sundkona.

„Það er mikið af ferðalögum, ég vakna klukkan fjögur, fimm á morgnana og mæti í stólinn fyrir hár og meiköpp, fer svo í búninginn og fyrir klukkan átta er ég mætt á sett og byrjuð að vinna. Eins og í sundinu þarf ég að vera vel undirbúin, andlega og líkamlega, þarf að kunna allar senur og allar línur, þetta er mikil vinna og mjög krefjandi fyrir bæði líkama, sál og huga. Það er oft mjög kalt, maður er kannski fáklæddur úti í marga klukkutíma í snjó og frosti en samt er rigningarvél með ísköldu vatni beint að manni á meðan maður er að berjast. Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn og þarf að fara að læra línur fyrir næsta dag, sinna barninu og elda mat. Þannig að þetta er heilmikið púsl allt saman, en skemmtilegt.“

Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn.

Tökur á sjöttu seríu hafnar

Ragga er greinilega svakalegt hörkutól. „Ég veit það nú ekki,“ segir hún hógvær. „Ég hef bara alist upp við það að synda mjög mikið og vera alltaf undirbúin og tilbúin til þess að gefa allt alla daga. Ég hef alltaf gefið allt í allar æfingar í sundinu en þar lærði ég auðvitað líka að það þarf að hvíla sig á milli og hugsa vel um mataræðið, líkamann og andlegu heilsuna. Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn. Það kemur niður á þeim og fólk bara springur úr þreytu. Það hefur auðvitað alveg komið fyrir mig líka að springa úr þreytu, en ég hef allavega þennan grunn að kunna að hugsa vel um mig og allt sem ég þarf til þess að geta „performað“. Það er alveg sama hvort það er sund eða leiklist þá er þetta „performans“ sem maður er búinn að vera að æfa sig fyrir í marga daga, vikur og ár. Ég labbaði ekkert inn á settið og kunni allt, sko. Ég var sett í alls konar æfingar og kenndir alls konar hlutir sem ég kunni ekki en kann núna.“

Ragga viðurkennir að flestir sem hún hitti séu mjög forvitnir um hlutverkið og reyni að fiska upp úr henni hver þetta sé, en hún loki bara munninum og þegi sem fastast. Hún geti þó lofað því að það sé margt skemmtilegt fram undan í þáttunum og aðdáendur muni fá sitt svikalaust.

Tökur á sjöttu seríu eru hafnar en Ragga verst allra frétta um það hvort hún taki líka þátt í þeim, hvort hennar karakter lifi fimmtu seríuna af. Það kom þó fram fyrr í samtali okkar að hún þarf enn mjög oft að fljúga til Dublin, svo það ætti að vera óhætt að treysta því að hlutverki hennar í þáttaröðinni sé ekki lokið. Það hefur líka kvisast út að meðleikarar hennar í þáttunum leiti mikið til hennar með framburð forníslenskra orða í textanum.

Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn.

„Það var nú ekki eitthvert opinbert hlutverk mitt að kenna þeim íslensku,“ segir Ragga og hlær. „Ég var bara oft spurð hvernig ætti að bera þetta eða hitt orðið fram þegar voru línur, eða frasar eða jafnvel heilu ræðurnar á íslensku, sem þeir kalla náttúrlega „old norse“ en er auðvitað bara íslenskan eins og hún er skrifuð í Íslendingasögunum og maður skilur alveg þótt það tali náttúrlega enginn svona lengur. Ég passaði mig samt mjög vel á því að stíga ekki á neinar tær á settinu, því það er auðvitað ekki mitt verk að kenna fólki framburð, ég hjálpaði bara ef ég gat.“

Ragga hefur greinilega nóg að gera, þótt allt sé það meira og minna leyndarmál, þurfti til dæmis að fljúga til Dublin, London og Los Angeles í síðustu viku. Hún segir mér líka að hún sé í sambandi með bandarískum tattúlistamanni sem heitir Mike, en vill ekkert upplýsa um á hvaða stigi það samband er. Hún vill lítið tala um hvað er fram undan.

„Nei, ekki neitt,“ segir hún og glottir. „Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til! Ég er oft spurð að því hvernig mér takist að gera stóra hluti og það er bara vegna þess að ég hef áhuga á því sem ég er að gera og hef mjög gaman að því. Ég hefði til dæmis aldrei farið á Ólympíuleikana ef ég hefði verið að rembast við að gera eitthvað sem mér fyndist leiðinlegt eða eitthvað sem einhver annar hefði ákveðið fyrir mig. Það drepur niður alla ánægju en ef maður ákveður sjálfur hvað maður vill, setur sér markmið og nýtur ferðalagsins þolinmóður þá kemst maður þangað sem maður vill. Þolinmæðin er lykilatriði, það gerast engir stórir hlutir á einni nóttu. Svo þarf líka að muna að njóta þess sem maður uppsker. Ég þarf ekkert að vera komin með næsta verkefni í hendurnar, það er allt í lagi að leyfa sér að njóta í smástund áður en maður ræðst í næsta markmið. Þetta kemur allt þegar það á að koma.“

Myndir / Hallur Karlsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is