• Orðrómur

Klámfólkið ætlaði til Íslands í upptökur en kom aldrei: „Ekki ein hugguleg dama mótmælt“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ef ég mætti ráða væru 20-30 klámráðstefnur haldnar á hverju ári. Þessir blessuðu femínistar sem eru á móti þessu eru dömur sem hafa orðið undir í lífinu hjá karlpeningnum um ævina. Ég hef ekki séð eina huggulega dömu mótmæla þessari ráðstefnu. Um leið og einhver þekkt fegurðardís mótmælir dæminu skal ég láta sokk upp í skítugan kjaftinn á mér.”

Svo mörg voru þau orð Egils „Gilzeneggers” Einarssonar þegar hann var spurður um álit sitt á SnowGathering 2007, kaupstefnu sem hollenskir netklámsframleiðendur hugðust halda í Reykjavík í mars það sama ár.

Það má með sanni segja að þjóðfélagið hafi farið á hliðina vegna umræddrar ráðstefnu sem þekkt varð sem klámráðstefnan.

- Auglýsing -

Klámupptökur á afskekktum stöðum

Lætin hófust með lágstemmdri frétt sem flutt var á RÚV að kveldi 15. febrúar þar sem greint var frá kaupstefnunni og rætt við talsmann hennar, Christina Ponga, sem sagði 150 manns í „iðnaðinum” vera á leið til landsins, þar af þekktar klámstjörnur og yrði Íslandsferðin meðal annars nýtt í upptökur á klámefni. Tekið var fram að tökur myndu fara fram á afskekktum stöðum og þyrfti íslenskur almenningur ekki að óttast að rekast á berrassað fólk í atlotum hist og her. Sagði Ponga að kaupstefnugestir væru þó einna helst að leita eftir hefðbundinni afþreyingu á borð við hesta- og skíðaferðir. Í fréttinni kom fram að fólkið hygðist gista á Hótel Sögu, Radisson SAS.

Siðgæðisvitund almennings virtist vera fótum troðin og reis upp mótmælaalda gegn komu „klámfólksins” eins og það var fljótlega kallað.

- Auglýsing -

Farið fram á rannsókn lögreglu

Daginn eftir sendu Stígamót bréf til ríkisstjórnar, þingmanna, borgarstjórnar, Lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra þar sem kallað var eftir að þessir aðilar tækju saman höndum við að koma í veg fyrir ráðstefnuna. Var meðal annars vísað til þess að á vefsíðu ráðstefnunnar væri að finna tengla yfir í vefsíður þátttakenda þar sem væri að finna gróft klámefni með tilvísanir í barnaklám.

Þessi tenglar hurfu fljótlega en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri fór engu að síður fram á við lögreglu að hún myndi rannsaka hvort í hópi ráðstefnugesta kynnu að vera framleiðendur barnakláms eða annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til að koma í veg fyrri dvöl meintra kynferðisafbrotamanna hér á landi.

- Auglýsing -

Fljótlega bættust Prestafélagið og biskup Íslands í hópinn og sendu frá sér yfirlýsingu þar sem koma klámframleiðenda til landsins var hörmuð og klám sagt ganga í berhögg við krist­inn mann­skiln­ing.

Bloggheimar loguðu og meira að segja Bændasamtökin létu í sér heyra, í krafti eignarhalds á Hótel Sögu, og lýstu yfir vanþóknun á komu klámfólksins til landsins.

Aðrir voru þó ekki á sama máli og töldu fulllangt gengið með úthýsa fólki frá landinu sökum starfa þeirra. Þjóðin var klofin í klámkomunni.

Klámið rætt á Alþingi

Ekki leið á löngu þar til málið var tekið upp á háa alþingi þegar að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, þáverandi þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, tók málið upp í fyrirspurnatíma á Alþingi og spurði for­sæt­is­ráðherra hvort rík­is­stjórn­in hygðist grípa til ein­hverra ráðstaf­ana þar sem klámiðnaður­inn bryti gegn mann­helgi og kyn­frelsi og væri fullur mannfyrirlitningar. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, kvaðst hafa óbeit á klámiðnaði og allri hans fram­leiðslu en benti á að koma fólksins gæti varla gefið tilefni til að hefta för þess nema ljóst væri að um ólöglegt athæfi væri að ræða.

Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Hótel Sögu, stóð í eldlínunni og var gríðarlegur þrýstingur á hótelið að synja klámfólkinu gistingu. Hafinn var undirbúningur að mótmælastöðu við hótelið og á endanum var tekin sú ákvörðun hjá stjórnendum og eigendum hótelsins að draga bókanirnar til baka. Sagði Hrönn í viðtali við Morgunblaðið á sínum tíma að sú ákvörðun hefði verið tekin með gesti hinna 160 herbergjanna á hótelinu í huga. Ekki hefði verið verið hægt að bjóða þeim upp á mótmælastöðu við hótelið, hvað þá vöktun lögreglu.

Þar með féll klámráðstefnan um sjálfa sig þar sem ómögulegt var fyrir hópinn að fá gistingu með þetta skömmum fyrirvara.

Ferðamenn ekki yfirheyrðir um störf

Samtök ferðaþjónustunnar voru aftur á móti þungorð um viðbrögðin og sögðu vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki gæti meinað fólki að koma í skemmtiferð til Íslands þrátt fyrir hverja þá óbeit sem fólk hefði á klámiðnaði. Enn fremur bentu samtökin á að fólkið stundaði iðjuna löglega í sínu landi. „Það koma rúmlega 400 þúsund ferðamenn árlega til Íslands, þeir eru ekki yfirheyrðir um störf sín heima við enda ógerlegt. Samkvæmt dagskrá þessarar umræddu samkomu ætlaði fólkið að vera í skipulögðum skoðunarferðum allan tímann. Ljóst er að ómögulegt er fyrir fyrirtækin að flokka gesti sína í æskilega og óæskilega gesti hafi engin lögbrot verið framin,“ sagði í ályktun samtakanna.

Aldrei komst almennilega á hreint hvers eðlis samkoman átti að vera. Í upphafi var rætt um kaupstefnu sem síðar varð að ráðstefnu og í endann var talað um hóp af fólki í vetrarfríi.

Klámfólkið fór í kjölfarið í mál við Hótel Sögu og krafðist 10 milljóna í skaðabætur. Krafan byggðist að mestu leyti á flugförum til landsins sem voru keypt fyrir hátt á fimmta tug manna, launagreiðslum og öðrum útgjöldum í aðdraganda ráðstefnunnar.

Að lokum var samið um upphæð bóta utan réttar og fengu skipuleggjendur SnowGathering fimm milljónir íslenskra króna í vasann.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -