,,Þetta er mikið ævintýri. Sýningin höfðar jafnt til leikskólabarna sem gamalla Strandamanna. Við erum bæði að sýna ruslsögu hálfrar aldar og einstaka náttúru Árneshrepps. Við þurfum að bæta þann skaða sem við höfum valdið lífríki strandlengjunnar með sinnuleysi og sóðaskap,“ segir Hrafn Jökulsson sem þessa daga stendur ásamt Veraldarvinum fyrir sýningunni ,,Kolgrafarvík kemur í bæinn“.
Hrafn hefur síðan í fyrravor helgað sig hreinsun strandlengjunnar og hann ákvað strax í maí að afraksturinn færi á sýningu:
,,Ég byrjaði í minni ástkæru Kolgrafarvík 13. maí og ákvað að helga mig frelsun lífríkis strandlengjunnar í fjögur ár. Í Kolgrafarvík er í raun um fornleifarannsóknir að ræða því langmest vinna fer í jarðvegshreinsun. Elsta draslið hefur verið þarna í hálfa öld og við erum að hreinsa plast niður á 30-40 sentimetra dýpi langt upp af fjörukömbunum. Það tekur þúsundir vinnustunda að hreinsa Kolgrafarvík almennilega en við erum komin vel á veg.“
Fjölmargir hafa lagt leið sína á Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn að skoða sýningu Hrafns og Veraldarvina. Guðmundur Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt, sem ættaður er úr Árneshreppi, sagði í umsögn sinni:
,,Sýningin er mikið undur og segir magnaða sögu af vistkerfi rekafjörunnar í Strandasýslu. Kolgrafarvík í Árneshreppi verður í framsetningu Hrafns ekki eingöngu vistkerfi eða sögusvið, víkin verður ekki bara landslagsheild eða auðlind heldur verður hún líka hugtak og frásögn, afhjúpun og svo gott sem miðja samtímans. Framsetning rekans á sýningunni leiðir mann í gegnum sögu neyslumenningar, andvara- og skeytingaleysis, átthagatryggðar og hugsjónamennsku.“
Anna Kristín Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, hvetur unga sem aldna til að skoða sýninguna og í sama streng tekur Árni Gunnarsson:
,,Þessi sýning er merkileg tilraun til að vekja þjóðina til umhugsunar um ömurlegt ástand í landi, sem íbúarnir lýsa stundum sem hreinasta landi í heimi. Öll börn og unglingar eiga erindi á þessa sýningu, kennarar og umráðamenn unga fólksins, Það er ekki minni þörf á því, að við sem eigum að heita fullorðin og ,,þroskuð“ lítum inn hjá Hrafni og félögum.“
Þór Jakobsson veðurfræðingur hvetur alla til að skoða sýningu Hrafns og Veraldarvina:
,,Það var bæði heillandi og óhugnanlegt að koma í heimsókn í Pakkhúsið… Vonandi hafa nú höfuðborgarbúar rænu á að ranka við sér og koma í stríðum straumum niður á höfn, sjá sýninguna og láta sannfærast um að oft hafi verið þörf en nú nauðsyn að bregðast við og taka þátt í að hreinsa strendur landsins.“
Sýningin er opin alla daga klukkan 14 til 17, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn. Aðgangur er ókeypis og sýningunni lýkur 20. janúar.