Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Kostnaður við snjómokstur tvöfalt meiri en eftir hrun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar kostnaður borgarinnar vegna vetrarþjónustu undanfarna vetur er borinn saman við tímabilið 2008 til 2011 sést að hann er tæplega tvöfalt hærri síðustu ár en á eftirhrunsárunum. Á upplýsingavef borgarinnar kemur fram að veðurfar ráði mestu um kostnaðinn. Þjónustan er að stórum hluta boðin út.

 

Reykjavíkurborg hafði um áramótin varið 270 milljónum króna í snjómokstur og hálkuvarnir í vetur. Það er um 39% þess kostnaður sem hlaust af vetrarþjónustu síðasta vetur. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Mannlífs. Ríflega helmingur kostnaðarins er tilkominn vegna vetrarþjónustu við götur en fjórðungur vegna hreinsunar göngu- og hjólaleiða.

Borgin hefur að meðaltali greitt 680 milljónir króna fyrir vetrarþjónustu síðustu fjóra vetur. Á árunum 2008 til 2011 var kostnaðurinn að jafnaði 283 milljónir, eða 387 milljónir króna á verðlagi ársins 2019. Því lætur nærri að kostnaðurinn hafi tvöfaldast.

„Við búum nú einu sinni á Íslandi“

Þegar snjór fellur í Reykjavík eða hálka myndast á götum er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu. Eftirlitsmaður vaktar aðstæður og kallar út mannskap eftir þörfum. Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta forgangs en miðað er við að strætóleiðir séu færar fyrir klukkan sjö að morgni. Hreinsun annarra meginumferðargatna skal vera lokið fyrir klukkan átta að morgni.

Að sama skapi er viðmiðið að göngu- og hjólastígar á milli borgarhluta fái forgang í hreinsun og síðan helstu gönguleiðir að strætóbiðstöðvum og skólum. Þær skulu vera greiðfærar fyrir klukkan átta á morgnana virka daga. Almennir stígar eiga að klárast fyrir hádegi. Á vef borgarinnar kemur fram að 36 tímum, eða daginn eftir að snjór hættir að falla, sé hægt að ljúka hreinsun stíga. Tekið er fram að tímaáætlanir geti gengið úr skorðum ef það heldur áfram að snjóa. Þá þurfi að fara aftur á byrjunarreit. „Við búum nú einu sinni á Íslandi,“ segir á vefsíðunni.

- Auglýsing -

Miðað við 15 sentímetra í íbúagötum

Fram kemur líka að íbúagötur séu ekki ruddar nema þær séu þungfærar bílum, mikil hálka hafi myndast eða snjódýpt meiri en 15 sentímetrar. Þær eru þó stundum ruddar ef hætta er talin á að frysti þegar snjóhryggir hafa myndast. „Snjóhreinsun takmarkast við að gera þessar götur ökufærar og við hálkueyðingu er ýmist notaður sandur eða salt.“ Fram kemur að við snjóhreinsun íbúagatna geti myndast snjóruðningar við innkeyrslur. Íbúar verði sjálfir að hreinsa snjó úr innkeyrslum.

Reykjavíkurborg og Vegagerðin annast vetrarþjónustu á 1.214 kílómetrum af götum innan borgarmarkanna. Hér skal tekið fram að um er að ræða svokallaða „ruðningslengd“, en sama gatan hefur yfirleitt tvær akreinar en stundum fjórar, sex eða jafnvel átta, þegar báðar akstursleiðir eru teknar með í reikninginn. 371 kílómetri er í fyrsta þjónustuflokki borgarinnar en 165 í öðrum. Þriðji flokkur nær yfir 418 kílómetra. Vegagerðin annast hreinsun á 249 kílómetrum á stofnbrautum.

- Auglýsing -

Hjólaleiðirnar sem undir eru telja 811 kílómetra. Þar af er 63 kílómetrar í forgangi. „Þeir sem sinna vetrarþjónustu þurfa að leggja að baki 1.745 kílómetra til að ná einni umferð um allar umferðargötur, göngu- og hjólaleiðir sem þjónustaðar eru í Reykjavík.“

Þrír verktakar hreinsa göturnar

Í svari borgarinnar kemur fram að samningar við verktaka um snjómokstur og hálkuvarnir byggi á útboði. Þessari þjónustu sé þó hvoru tveggja sinnt af verktökum og borginni. „Verktakar sem annast verkefni á götum frá greitt eftir unnum kílómetrum sem teknir eru saman með ferilvöktun. Í stígum er greitt fyrir lengd stíga,“ segir í svarinu.

Þrír verktakar annast snjóhreinsun og hálkuvarnir á götum borgarinnar en einn verktaki annast hreinsun á stígum. Fram kemur að auk þess starfi nokkrir undirverktakar með hverfastöðvum og sinna lóðum og strætóskýlum, svo eitthvað sé nefnt.

Mannlíf spurði meðal annars hvort samstarf væri á milli borgarinnar og annarra sveitarfélaga þegar að kaupum á þessari þjónustu kemur. Í svarinu segir að samstarf við önnur sveitarfélag sé aðallega við Seltjarnarnes, en borgin annast vetrarþjónustu stofnleiða á nesinu. Þá sé borgin í minniháttar samstarfi við Mosfellsbæ varðandi mokstur á stígum.

Eftirlitsmaður fylgist með veðri og verktökum

En hver ákveður hvenær skal mokað og hvenær útlit er fyrir að snjórinn eða hálkan hverfi vegna hláku? Borgin segir í svari sínu að mat á þörf fyrir snjómokstur og hálkuvarnir hverju sinni sé í höndum eftirlitsmanns borgarinnar. Sólarhringsvakt sé á færð gatna en eftirlit með stígum er frá þrjú að nóttu til 17 síðdegis. Tekið er við ábendingum um gæði þjónustunnar á vefnum reykjavik.is/abendingar.

Eftirlitsmaður fylgist með veðurhorfum, vefmyndavélum og fer á vettvang eftir þörfum, samkvæmt því sem fram kemur í svarinu.  Verktakar séu með ferilvöktunarbúnað sem eftirlitsmaður hafi aðgang að. Það þýðir að hann getur séð hvar tækin hafa verið að moka.

„Starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktakar á vegum borgarinnar eru ræstir út þegar aðstæður kalla á viðbrögð og það er oftar en ekki um miðja nótt til að borgin sé klár að taka á móti þunga morgunumferðarinnar.“

Hér sést hvernig kostnaður Reykjavíkurborgar vegna vetrarþjónustu hefur aukist á undanförnum áður. Veður skýrir að stóru leyti mun á milli ára en einnig þættir eins og fjölgun gatna og stíga. Vetrarþjónustu (snjómokstur og hálkuvarnir) er sinnt á grundvelli útboðs en eftirlitsmaður á vegum borgarinnar segir til um hvenær skal mokað eða saltað.

Fjórðungur kostnaðarins vegna stíga

Ríflega helmingur kostnaðar vegna vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg er til kominn vegna hreinsun eða hálkuvarna á götum. Fjórðungur er tilkominn vegna hreinsun göngu- og/eða hjólastíga en 14% vegna snjóbræðslu. Við hana hefur í auknum mæli verið notaður saltpækill en hitastýringar eru einnig notaðar.

Fjórðungur kostnaðarins vegna stíga.

Fram kemur í svari borgarinnar við fyrirspurn Mannlífs að kostnaðurinn við hreinsun gatna og stíga ráðist að mestu af veðurfari en þó beri að hafa í huga að gatna- og stígakerfi hafi stækkað í áranna rás. Myndin hér að neðan byggir á raunkostnaði árið 2016 en fram kemur að hlutfallsleg skipting haldist nokkuð stöðug á milli ára.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -