Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Kristín jarðskjálftafræðingur er mögnuð söngkona: „Trúði því að ég yrði poppstjarna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands og einn helsti jarðskjálftafræðingur landsins, trúði því að hún yrði alvöru poppstjarna. Hún sló í gegn sem söngkona í hinni vinsælu hljómsveit Unun á árum áður og ætlaði sér frekari frama á því sviði.

Kristín hefur verið áberandi í fjölmiðlum í kjölfar skjálftahrinunnar sem gengið hefur yfir að undanförnu. Hún er kona mörgum hæfileikum gædd, ekki er hún aðeins einn helsti jarðskjálftafræðingur landsins heldur er hún mögnuð söngkona sem sló rækilega í gegn með hljómsveitinni Unun, sem var vinsæl á árum áður. Þá söng hún meðal annars bakraddir með goðinu sjálfu, Rúnari Júlíussyni heitnum.

Varð gjörsamlega starstruck

„Ég var rosalegur aðdáandi Svarthvíts draums, Sykurmolanna og þessara banda og þegar mér var boðið að syngja með Unun varð ég algjörlega „starstruck”. Ég trúði því á tímabili að ég yrði alvöru poppstjarna en tók mér þó aldrei frí frá náminu. Þetta var rosalega skemmtilegur tími”.

Vísindin heilluðu frá upphafi

Kristín segir að allt frá barnæsku hafi hún alltaf haft mikinn áhuga á vísindum, og þá alls kyns vísindum. Hún var alltaf verið ákveðin í að mennta sig á því sviði. „Jarðfræði, líffræði og alls kyns vísindafræðigreinar. Allt vakti þetta áhuga minn en ég endaði á að taka þá ákvörðun að verða jarðeðlisfræðingur” segir Kristín.

- Auglýsing -
Kristín Jónsdóttir fylgist grannt með jarðhræringunum.
Mynd: Róbert Reynisson.

Að sögn Kristínar eru nú í gangi mjög spennandi tímar fyrir fólk í hennar fagi.

„Það er óskaplega gaman að vinna með öllum þeim aðilum sem að málinu koma og allir eru mjög virkir og áhugasamir. Við höldum 100 manna Teams fundi á hverjum einasta degi með viðbragðsaðilum þar sem farið er yfir málin og næstu skref. Öll höfum við okkar sérstöðu. Ég er ekki mikið að fara á skjálftasvæðin heldur er það frekar mitt verkefni að fara yfir gögn og reyna að samræma niðurstöður allra sem að málinu koma. Passa til að mynda gervitunglagögn við aðrar upplýsingar sem við höfum? Er einhver óvissa í gangi? Hvar liggur hún? Eða eru allar upplýsingar að sýna sömu niðurstöður? Mitt starf er sem sagt að túlka gögnin til að fá sem öruggastar niðurstöður.”

Gögn í tölvu ekki sama og mannleg upplifun

- Auglýsing -

Er þetta kannski mest spennandi tímabilið í starfi Kristínar?

„Bárðarbungan var auðvitað rosalega spennandi frá faglegu sjónarhorni. En það var svolítið öðruvísi upplifun fyrir almenning þar sem um var að ræða gögn í tölvum fagaðila, fólk fann ekki fyrir sjálftum á eigin skinni eins og núna. Sem auðvitað veldur mun meiri umræðu.”

Stóra gleraugnamálið

Við jarðskjálftana bættist svo stóra gleraugnamálið en jarðskjálftaumræðan vék á tímabili fyrir líflegri umræðu um ný gleraugu Kristínar sem hún mætti með í beina útsendingu hjá Ríkisútvarpinu.

Kristínu finnst gleraugnamálið hið fyndnasta. Hún var alls ekki að spá í að hafa áhrif á tískuna. „Ég þurfti einfaldlega ný gleraugu eins og flest venjulegt fólk.”

Kristín hlær og segir að henni hefði aldrei dottið í að það myndi rata í fjölmiðla. Og þá með umræðu um hvar gleraugun voru keypt, hvaða tegund þau væru og jafnvel viðtali við sölukonuna sem seldi henni gleraugun.

Með þessum orðum um fagurfræði gleraugna þurfti Kristín að rjúka, enda á leið á 100 manna Teams fund sem hvorki fjallar um tónlist né gleraugu heldur jarðskjálftavirkni á Suðurlandi. Í því fagi sem Kristín nýtur sín best.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -