Fimmtudagur 30. júní, 2022
13.8 C
Reykjavik

Kristjón Kormákur ræddi innbrotið við Róbert Wessman og sagðist vera með tölvuna: „Farðu varlega“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri fjölmiðilsins 24.is, hefur nú viðurkennt að hann hafi brotist inn í bíl Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, og í kjölfarið inn á ritstjórnarskrifstofu fjölmiðlisins 21. janúar síðastliðinn þar sem vefur Mannlífs var skemmdur auk þess sem færslum var eytt. Þetta kemur fram í hlaðvarpinu Mannlífið með Reyni Traustasyni.

„Ég biðst afsökunar á þessu og það er verst að vera ekki með eitthvað af þessum munum. Ég held að þeir muni skila sér,“ segir hann í hlaðvarpsþætti Reynis en hann hafði hringt í hann nýlega og sagt að það hafi verið hann sem braust inn.

Maður gerir hin og þessi mistök í lífinu misstór og ef maður gerir ekki upp það sem maður gerir á hlut annarra þá þroskast maður ekkert áfram.

„Þegar ég tók þetta símtal var ég ekkert endilega að búast við að fá fyrirgefningu og ég met það mikils. Mér var kennt það ungum að ef manni verður á, sama hvernig það er, að biðjast þá afsökunar. Maður gerir hin og þessi mistök í lífinu misstór og ef maður gerir ekki upp það sem maður gerir á hlut annarra þá þroskast maður ekkert áfram. Þannig að erfið atvik geta stækkað mann með því að takast á við þau og viðurkenna þau og viðurkenna að maður sé breyskur á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Svo sama hversu erfitt það er þá horfist maður í augu við það. Það er nauðsynlegt. Ég hef verið að vinna í sjálfum mér allt mitt líf.“

Dæmdur 17 ára

Kristjón Kormákur fékk dóm sem ungur maður, 17 ára, og segir að það hafa verið vendipunkt. „Ég fór í kirkjuna á Staðarfelli og reifst við Guð í hálftíma þar sem ég sagði „annaðhvort tekur þú þessa vínlöngun í burtu eða þá að ég verð fastur hér“.“

Móðir hans var ung þegar hann kom í heiminn og segist hann hafa verið sjálfala. „Ég hafði ekki alvöru mentor en ég hafði Kristin á Dröngum. Hrafn Jökulsson fór að kenna mér að virkja hæfileika mína þegar ég var orðinn 26-27 ára. Fram að því höfðu allir verið svo meðvirkir með mér. Það skammaði mig enginn af því að ég hafði átt svo bágt. Það er það versta sem þú gerir börnum.

Fyrst var það bíllinn og svo hér þar sem við erum staddir.

Það sem gerðist með bílinn er þessi orka sem er ráðandi – þetta stjórnleysi. Af því að ég bjó á götunni sem unglingur og svaf í yfirgefnum húsum; þar var unglingahópur og maður braust inn til að hafa í sig og á og fór ekki eftir reglum samfélagsins. Síðan um tvítugt kynntist ég konu og eignaðist börn og þá byrjaði ég að taka þátt í samfélaginu og þá þurfti ég að beita mig hörðu til að fara eftir reglunum. Það fylgja skapgerðarbrestir svona brotnum heimilum og börnum. Þetta sem ég gerði er á skjön við manneskjuna sem ég vil vera og hef verið að vinna í að laga og allt í einu er ég farinn að gera þessa hluti sem ég var að gera 16-17 ára og finnast á þeim tímapunkti það vera nánast eðlilegt. Fyrst var það bíllinn og svo hér þar sem við erum staddir. Hérna fyrir utan fékk ég þessa tilfinningu í magann, sem er innsæi manns sem hefur oft gagnast mér í blaðamennskunni og þegar ég hef ekki hlustað á þessa tilfinningu þá hefur það yfirleitt kostað einhverja katastrófu. Þá var það samviskan að tala. Ég fann þessa tilfinningu; að það væri ekki rétt að gera þetta en hitt var bara allsráðandi í gjörðum mínum og ekki að það sé einhver afsökun heldur; ég tók tölvuna þína og turntölvuna og það voru gerð skemmdarverk á bílnum en það var enginn stoppari. Og síðan var farið að fjarlægja efni.“

- Auglýsing -

 

Eins og Svarthöfði og félagar

Hver var hvatinn að verknaðinum? „Ég ætlaði að láta drauma mína rætast og draumur minn var að stofna fjölmiðil,“ segir Kristjón Kormákur. Hann vann um tíma hjá Fréttablaðinu og stjórnaði vefnum þar auk þess að vinna um tíma hjá WikiLeaks og einnig hjá Mannlífi og stofnaði svo vefinn 24. „Ég villtist svolítið á leið á þessum Fréttablaðstíma og var að taka þátt í yfirtöku þar. Það var ekki lengur gaman í vinnunni og þá flúði ég í áfengið. Í lok DV-tímans var ég farinn að sulla aftur í bjór eða í miklu meira mæli,“ segir hann og flúði hann enn meira í áfengið. „Smám saman vatt það upp á sig og allt í einu var ég farinn að prófa efni sem ég hafði ekki gert síðan ég var unglingur og þegar ég stofnaði fjölmiðilinn minn var ég ekki búinn að ná nógu miklum bata. Ég var alltaf að detta aðeins aftur á bak en var alltaf á leiðinni áfram. En batinn var mjög hægur. Það gekk allt eins og í sögu fyrst. Ég var að vinna fyrir WikiLeaks og þá var Sigga hakkaramálið og Siggi hakkari hafði verið að misnota nafn Róberts Wessman; stofnaði félag í nafni hans sem seldi fasteignir.

Ég setti markið hátt og ætlaði að fá 80-100 milljónir og stefndi á það.

- Auglýsing -

Róbert átti Pressuna þegar ég starfaði þar í mörg ár. Hann hafði reynst mér mjög góður eigandi út af því að hann lét mig bara í friði. Var ekkert að skipta sér af. Ég hafði aldrei hitt hann á þeim tíma en síðan hitti ég hann út af Sigga hakkara málinu út af því að hann var að misnota nafn hans og sagði að barnaníðingur hefði verið að stofna félag í nafni hans. Ég hafði verið búinn að hugsa um að stofna heilsuvef. Ég nefndi þetta og síðan fór ég að hugsa um þetta í stærra samhengi. Ég bauð honum líka að ég gæti verið honum innan handar með ráðgjöf. Ég setti markið hátt og ætlaði að fá 80-100 milljónir og stefndi á það. Það endaði með því að ég hitti hann erlendis. Í London.“ Kristjón Kormákur segir að Róbert hafi ekki haft áhuga á að eiga í fjölmiðli en að hann hafi verið tilbúnn til að greiða sér ákveðna upphæð sem yrði „auglýsingadíll“ eða ráðgjöf. Hann segir að hann hafi síðar farið að líta á hann sem vin sinn. Hann segir að Róbert hafi verið til í að veita fjármagni í miðilinn eða um 3,7 milljónum króna á mánuði, hann hafi átt að vinna að ýmsum verkefnum en að endingu hafi þetta ekki gengið sem skyldi. Svo kom að því síðar að Kristjón Kormákur var kominn í fjárhagsvandræði og gat ekki borgað starfsfólki sínu laun sem skyldi. „Ég var bara kominn í örvæntingu með starfsfólkið mitt og miðilinn minn. Þetta er eins og að horfa á mann í öðrum líkama.“

Kristjón Kormákur og Reynir Traustason á skrifstofu Mannlífs.

Um Róbert segir hann: „Ég hitti þennan mann og mér fannst hann koma vel fyrir og vera vinveittur og ég varð æ sannfærðari um að þið væruð Svarthöfði og félagar og ég væri í ljósinu.“

Vildi Róbert fá eitthvað efni um Halldór Kristmannson, uppljóstrarann?

„Hann hefur verið óánægður með fréttaflutninginn hér. Ég hafði unnið hér og vissi um ýmislegt hér innanhúss og ég gat komið að gagni við að nálgast upplýsingar og sýna fram á verðmæti mitt. Það snerist um að ef ég gæti sýnt fram á mitt þá gæti ég ráðið fleira starfsfólk af því að ég ætlaði að búa til fjölmiðil sem væri með almennilega blaðamennsku. Það var alltaf meiningin. Ég taldi mér trú um að ég væri réttum megin.“

Kristjón Kormákur var ósáttur við ákveðin skrif í Mannlífi varðandi sig sjálfan og svo varðandi Róbert og segir hann að vondu tilfinningarnar hafi verið byrjaðar að vaxa. Hann segist hafa hugsað um að komast inn á Mannlífsvefinn, af því að Reynir hafi verið búinn að vera svo leiðinlegur við þá, og eyða öllu draslinu; gefa þjóðinni frí frá Mannlífi.

Ég gat varla haldið mér vakandi og svo vakti ég í tvo til þrjá daga.

„Ég var ekki á góðum stað. Þetta var í desember. Ég fór til Finnlands til að taka sjálfan mig í gegn og hvílast aðeins og ég svaf í fimm daga. Ég gat varla haldið mér vakandi og svo vakti ég í tvo til þrjá daga. Ég fann að ég var að missa tökin á einhverju og þarna var fullt af merkjum um það sem var í vændum hjá mér og þarna er komin örvænting.

Ég hafði haft aðgang að Mannlífsvefnum hjá þér í gegnum annan reiknig þannig að ég gat séð hversu margar fréttir voru skrifaðar og hversu margar útgáfur. Það hafði gleymst að loka á mig. Ég gat séð lestraratölur og hversu margar fréttir voru skrifaðar.

Ég er langrækinn og get verið hefnigjarn.“

Kristjón Kormákur lét svo til skrara skríða í janúar og vissi hvenær Reynir færi í göngu upp á Úlfarsfell og hve sú ganga myndi taka langan tíma.

Kristjón Kormákur talaði við Róbert Wessman fljótlega eftir innbrotið og sagðist vera með tölvu Reynis.

Hvernig leist honum á það? „Hann hafði ekki mikið út á það að setja. Skildi ekki hvernig ég hefði komist yfir það.“ Kristjón Kormákur segir að Róbert hafi bent sér á að þetta væri lögbrot.

„Hann sagði við mig: „Þetta er lögbrot, ég hefði aldrei samþykkt þetta en farðu varlega“.“

Kristjón Kormákur segir að Róbert hafi aldrei beðið sig um að brjótast inn í bíl Reynis eða inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs. „Hann bað aldrei um þetta og fékk aldrei skjal úr þessari tölvu. Ég var með samviskubit gagnvart því – við erum búnir að þekkjast lengi – gagnvart sjálfum mér, gagnvart þér og gagnvart honum. Það var bara stormur í gangi.

 

Róbert ræddi innbrotið við Kristjón en sór af sér í yfirlýsingu að vita neitt.

Kristjón telur að Róbert Wessman hefði átt að láta vita af innbrotinu. Hann var spurður um það ítrekað en þóttist ekkert vita og sór af sér vitneskjuna og dylgjaði síðan um að ritstjóri Mannlífs hefði sjálfur framið innbrotið. Róbert sendi meira að segja út yfirlýsingu um að hann vonaðist til að innbrotið yrði upplýst.

„Hann hefði átt að segja þér að ég hefði gert þetta og að hann hefði ekkert með þetta að gera. Það sem gerðist í kjölfarið var að hann hefur ekki talað við mig síðan,“ sagði Kristjón í viðtalinu við Reyni Traustason.

 

Hjartaáfall

Kristjón Kormákur segir að það hafi slokknað á hausnum á sér eftir þetta og að hann hafi fengið hjartaáfall 1. febrúar. Hann segist vita að það hafi verið út af öllu því sem hafði verið í gangi – innbrotinu, að reka fjölmiðilinn og sjá fyrir fjölskyldunni. „Líkami minn gat ekki meira af þessari baráttu. Ég vissi að hann væri að segja stopp og ég vissi að það yrði allt í lagi, en ég vissi að ég yrði þá að berjast fyrir því að verða aftur Kristjón Kormákur sem ég er í raun og veru. Og ekki ýta því til hliðar sem ég hafði gert heldur taka ábyrgð á því og biðjast afsökunar. Ég varð fyrir ákveðinni trúarlegri upplifun við að fá hjartaáfall. Þetta er það besta sem hefur komið fyrir mig, af því að mér hefur ekki liðið svona vel í mörg ár. Þótt það sé svona stuttur tími liðinn þá sé ég hlutina skýrt – ég verð að biðja Reyni afsökunar og þarf að leiðrétta ákveðna hluti.

Ég er kominn með innsýn í heim – mér datt ekki í hug hvað menn ganga langt.

Ég ætla að labba í burtu frá þessu á eins heiðarlegan hátt og hægt er. Ég ætla að segja það sem er satt og ég ætla að koma þeim upplýsingum á framfæri sem ég tel rétt á þeim tímapunkti. Ég er kominn með innsýn í heim – mér datt ekki í hug hvað menn ganga langt.“

Aftur að hjartaáfallinu.

Ég fékk hjartaáfall og hitti langafa minn, Kristjón; ég vissi ekki hvort hann væri að koma að sækja mig eða heilsa upp á mig. Kristjón Kristjónsson; ég var átta ára þegar hann lést. Eftir þetta sá ég allt kristaltært, ég vissi hvað ég átti að gera og fyrsta skrefið til að vinna mig út úr þessu er að gera reikningsskil gagnvart því fólki sem ég hef komið illa fram við. Ég ætla að taka mér pásu frá þessum blaðamannaheimi. Við erum með ákveðin prinsipp. Ég fer í ákveðna sjálfsskoðun en á móti kemur að ég ætla að fara út úr því, þannig að ég tala við alla og hef verið að gera það undanfarið; starfsfólkið. Vera heiðarlegur.

Takast á við það af 100% heiðarleika og viðurkenna breyskleika sína því við megum gera mistök.

Fyrst byrjar maður á því að biðjast afsökunar á því sem maður hefur gert og bætir fyrir það eins og maður getur og þó manni sé ekki fyrirgefið; það er aukaatriði. Og vinna síðan úr því sem til kemur til þess að verða betri manneskja. Takast á við það af 100% heiðarleika og viðurkenna breyskleika sína því við megum gera mistök. Lykilatriði í því er hvað við gerum síðan við það. Og ef við gerum það rétt þá getum við notað það til þess að láta gott af sér leiða, stækka sjálfan sig.“ Hann vill vinna í sjálfum sér þannig að svona lagað gerist ekki aftur.

Ætlar hann að tala við lögregluna?

„Að sjálfsögðu.

Ég mun tækla þetta mál og bæta fyrir.

Ég vil verða betri manenskja og láta gott af mér leiða. Það hljómar klisjukennt; að taka sjálfan sig í gegn og ef ég geri það þá er það fyrst skrefið.“

Hlaðvarpsþáttinn er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -