Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Kristrún boðar stórátak: „Á Suðurnesjum hefur fólk upplifað sig landlaust í heilbrigðiskerfinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar boðar tugi opinna funda um heilbrigðismál; hún fór á fyrstu opnu fundina á Suðurnesjum í vikunni, en Kristrún er þó ekki hætt í fæðingarorlofi.

Fyrstu fundirnir fóru fram á Suðurnesjum í vikunni þar sem Kristrún mætti til leiks, þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi; fundirnir eru opnir öllum og eru fyrsta skrefið í nýju og viðamiklu málefnastarfi sem Kristrún kynnti á flokksstjórnarfundi á dögunum.

Það sætir tíðindum að íslenskur stjórnmálaflokkur blási til þvílíks fjölda opinna funda um einn tiltekinn málaflokk og það á miðju kjörtímabili.

Þetta gefur vísbendingu um áherslur Samfylkingarinnar fyrir næstu Alþingiskosningar en flokkurinn hefur nú ítrekað mælst stærsti stjórnmálaflokkur landsins í skoðanakönnunum.

„Heilbrigðismálin og öldrunarþjónustan verða í forgrunni hjá okkur núna og alveg fram á haust. Við byrjum vinnuna með hátt í fjörutíu opnum fundum með fólkinu í landinu og okkur fannst við hæfi að hefja fundaferðina á Suðurnesjum — þar sem heilbrigðismálin hafa svo sannarlega brunnið á íbúum,“ segir Kristrún eftir fyrstu fundina sem voru í Reykjanesbæ, í Garði og í Grindavík.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) í síðustu viku og fékk mynd með fólkinu á gólfinu. Suðurnesin eru fyrstu viðkomustaður í fundaferð Samfylkingarinnar um heilbrigðismál.

Á hverjum fundi verða fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingarinnar um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu auk forystufólks flokksins, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum.

- Auglýsing -

„Ég hélt sjálf fjölda opinna funda um land allt á síðasta ári sem höfðu mikil áhrif á mig. Svona viljum við gera þetta og við tökum vinnuna alvarlega. Nú undirbúum við breytingar á sviði heilbrigðismála enda ekki vanþörf á,“ segir Kristrún.

Kristrún vill „opna flokkinn“ Kristrún leggur áherslu á að öllum sé velkomið að mæta á fundina og taka þátt. Ekki verði spurt um flokksskírteini fólks.

„Við viljum opna flokkinn og leggja áherslu á að taka samtal við fólkið í landinu. Fólk með sérþekkingu í heilbrigðismálum eða reynslu af gólfinu er auðvitað sérstaklega velkomið en sama gildir um alla almenna borgara sem vilja breytingar til hins betra í heilbrigðismálum á Íslandi,“ segir Kristrún og bætir við að þetta samtalið sé aðeins upphafið að viðameiri vinnu.

- Auglýsing -

„Þetta er bara byrjunin. Stýrihópurinn sem leiðir vinnuna mun einnig eiga fjölda funda með fólki af gólfinu og öðrum sérfræðingum úr heilbrigðiskerfinu.

Ég fór með á slíka fundi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og á Hrafnistu fyrir helgi. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu og hlakka til að kynna þá stefnu sem við munum leggja fram næsta haust í þessum mikilvæga málaflokki.“

Kristrún heimsótti einnig Hrafnistu á Nesvöllum í Reykjanesbæ og spjallaði meðal annars við Arnbjörn Hans Ólafsson, gamlan krata úr Keflavík.

Þó að það verði aldrei allir sammála um viðamikinn málaflokk á borð við heilbrigðismál segir Kristrún að það teiknist fljótt upp skýr mynd eftir samtöl við almenning.

„Þetta var mín reynsla af fundunum í fyrra. Maður fer af stað með stóra málaflokka og heldur að það sé erfitt að finna rauðan þráð. En það er fljótt að teiknast upp ákveðið þema,“ segir hún og bætir við að eftir fyrstu fundina á Suðurnesjum sé strax farin að teiknast upp skýr mynd af raunhæfum væntingum fólks til heilbrigðisþjónustunnar:

„Fólki finnst vont að eiga ekki einhvern fastan punkt í lífi sínu þegar kemur að í heilbrigðisþjónustu. Það veldur óöryggi að eiga ekki fastan tengilið eða teymi sem þekkir til aðstæðna manns og jafnvel sjúkrasögu. Á Suðurnesjum hefur fólk upplifað sig landlaust í heilbrigðiskerfinu og þetta á auðvitað við víðar um land. Ég held að fólk sé að kalla eftir heilbrigðisþjónustu sem hefur kost á að veita fólki þessa öryggistilfinningu sem gæti fengist með meiri nánd og tíma fyrir persónulegri þjónustu.“

Af opnum fundi um heilbrigðismál í Kiwanishúsinu í Garði síðastliðið mánudagskvöld.

Þetta nefnir Kristrún sem dæmi en tekur þó fram að það séu fleiri atriði sem hafi komið fram á öllum opnu fundunum til þessa.

Kristrún segist þó ekki vera snúin til baka úr fæðingarorlofinu.

„Nei, ég er enn í orlofi. En mér finnst skipta máli að fylgja þessu verkefni vel úr hlaði. Þess vegna mæti ég þar sem ég get og tek samtalið við heimamenn. Og ég hugsa að dóttir mín sé löngu orðin vön svona fundum úr móðurkviði. Auðvitað fylgist ég líka vel með og gæti haft sitthvað að segja um fjármálaáætlun til dæmis — en félagar mínir í þingflokki Samfylkingarinnar standa þá vakt og munu halda ríkisstjórninni við efnið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -