• Orðrómur

Kristrún segir Moggann og Viðskiptablaðið ljúga um kauprétt: „Þetta er algjör lágkúra í fjölmiðlun“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -
„Samantekin ráð virðast nú vera hjá Mogganum og Viðskiptablaðinu að gefast upp á að ræða um mína pólitík á efnislegum grunni og reyna nú bara að keyra konuna niður með smjörklípum, óhróðri og gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum mínum,“ skrifar Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingar í Reykjavík, um fréttir Morgunblaðsins og umfjöllun Viðskiptablaðsins, um að hún hefði nýtt sér kaupréttarsamninga og grætt tugi milljóna. Þessu var meðal annars haldið fram í þættinum Dagmál sem Andrés Magnússon og Stefán Stefánsson stjórna. Staðhæfðu þeir í viðtali við Loga Einarsson, formann Samfylkingar, að Kristrún hefði hagnast með þessum hætti: „Verður þetta ekki hol­ur hljóm­ur gagn­vart þeim sem höll­um fæti standa að segja, hér erum við með kandí­dat­inn sem ætl­ar að breyta þess­um mál­um. Hann er reynd­ar ný­kom­inn út úr banka­kerf­inu með tugi millj­óna í vas­an­um?“

Afbakanir

Kristrún segir að illa hafi gengið hjá andstæðingum Samfylkingar að svara málflutningi flokksins um lífskjarabreytingarnar sem eru vel gerlegar með jafnaðarmannastjórn.
„Þá fara menn í örvæntingarkasti að snúa út úr og afbaka staðreyndir um minn persónulega fjárhag. Þeir hafa nákvæmlega ekkert efnislega fram að færa. Ég er víst ekki nógu mikill jafnaðarmaður vilja þeir halda fram. Ástæðan verandi sú að stuttu eftir að ég flutti heim úr námi og hóf störf í Kviku þá setti ég stóran hluta af persónulegum sparnaði mínum og mannsins míns í réttindi fyrir hlut í bankanum. Upphæð sem okkur munaði mjög mikið um. Þarna erum við hjónin nýkomin úr námi og vinnu, með lítið á milli handanna, en tókum þá ákvörðun um að leggja í þessa fjárfestingu. Ef verð á bréfum í bankanum hefði staðið í stað, eða jafnvel aðeins hækkað hóflega, hvað þá lækkað, hefðum við tapað allri fjárfestingunni,“ skrifar hún.

Fékk ekki krónu

Og hún áréttar að óhróðurinn eigi sér enga stoð.
„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupaukagreiðslu frá Kviku og borgaði fyrir mína eigin fjárfestingu í félaginu takk fyrir mig. Fjárfesting sem kom vel út, eins og margar fjárfestingar á hlutabréfamarkaði undanfarin ár. Síðast þegar ég vissi mega fleiri en Sjálfstæðismenn taka þátt á hlutabréfamarkaði“.
Hún segir að Viðskiptablaðið hafi  í nýlegri umfjöllun reynt að tengja saman tvö ólík mál sem snúa að rannsókn á Kviku og kaupum hennar í bankanum.
„Mín kaup eru ekki til rannsóknar, þessi fjárfesting, né ég. Þetta hefur nákvæmlega ekkert með mig að gera. Ég hef borgað mína skatta af þessari fjárfestingu sem ég borgaði fyrir og er í raun ekki í stöðu til að ákvarða hversu mikla skatta ég greiði af því. Ég er nefnilega ekki með mínar fjárfestingar í sérstöku félagi þar sem ég skammta mér fjármagn“.
Hún segir að aldrei myndi sér detta í hug að gera lítið úr forréttindum sínum.
„Ég er afsprengi velferðarsamfélags, það er ástæðan fyrir því að ég er nú í framboði fyrir jafnaðarmannaflokk. Því ég hef trú á mikilvægi stuðningskerfanna okkar. Ég hef einnig verið gríðarlega heppin í lífinu, kem frá sterkum félagslegum grunni þó fjármagnið hafi ekki flætt á mínu heimili. Og er mjög meðvituð um það. Slíkri velgengni þarf þó ekki að fylgja firring fyrir stöðu annarra“.
Í lok umfjöllunarinnar fá blaðamenn Viðskiptablaðsins enn frekar á baukinn.
„Þetta er algjör lágkúra í fjölmiðlun, og ástæðan fyrir því að margt ungt fólk veigrar sér við pólitískri þátttöku. Svona fréttamennska er bara til þess fallin að kúga fólk frá lýðræðislegri þátttöku. Ég ætla ekki að leggjast flöt fyrir þessu, þið getið gleymt því“.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -