Kynlífsleikföngin særðu blygðunarkennd embættismanna

Deila

- Auglýsing -

Fyrirtæki að nafni Dame, sem hannar og framleiðir kynlífsleikföng fyrir konur, hefur höfðað mál á hendur samgöngustofu New York borgar. Ástæðan er sú að stofnunin neitaði að birta auglýsingar fyrirtækisins í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar.

Dame, sem er sprotafyrirtæki rekið af konum, réðist í 150 þúsund dollara auglýsingaherferð og var markmiðið að ná til þeirra 5,6 milljóna farþega sem nota lestarkerfi New York borgar daglega. Hönnuð voru veggspjöld með slagorðum sem höfðu bæði vísun til lestarferða og kynlífs. Samgönguyfirvöld í New York neituðu hins vegar að setja upp veggspjöldin vegna þess að þá voru kynferðislegs eðlis.

Stjórnendur Dame sáu sér leik á borði og höfðuðu mál gegn stofnuninni sem vakið hefur mikla athygli vestanhafs og í raun mun meiri athygli en auglýsingaherferðin hefði annars gert. Í stefnunni segir að bannið feli í sér gamaldags viðhorf og að stefna samgöngustofunnar sé sérstaklega beint gegn konum enda hafi auglýsingar um lyf er sporna eiga við risvandamálum karlmanna fengið að standa óáreittar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dame rekst á vegg í markaðsstarfi sínu. Þegar fyrirtækið leitaðist við að koma sinni fyrstu vöru á markað vildi hópfjármögnunarsíðan Kickstarter ekki hýsa söfnunina vegna þess að um kynlífsleikfang var að ræða. Dame sneri sér til Indiegogo og safnaði ríflega hálfri milljón dollara.

Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem mál er höfðað gegn samgöngustofu New York borgar. Reyndar skipta málshöfðinarnar tugum. Ein slík var þegar stofnunin neitaði að birta auglýsingar frá Thinx þar sem undirföt fyrir konur á blæðingum voru auglýst. Eftir mikið fjölmiðlafár skipti stofnunin um skoðun og heimilaði auglýsingarnar.

Hinar umdeildu auglýsingar frá Dame má sjá hér að neðan en yfirlýsingu fyrirtækisins má lesa hér.

- Advertisement -

Athugasemdir