Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Kýrin sem féll í Krossneslaug – Saga einnar frægustu sundlaugar landsins sem opnar loksins aftur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ein allra vinsælasta sundlaug landsins, Krossneslaug i Árneshreppi, verður opnuð á föstudag eftir gríðarlegar endurbætur sem staðið hafa undanfarið hálft ár. Laugin hefur verið lokuð vegna endurbótanna. Margir gestir og heimamenn hafa harmað að komast ekki í sund. En nú hyllir undir verklok og hulunni verður flett af glæsilegum húsakynnum.

Laugin er einstök að því leyti að hún stendur í fjöruborðinu í sjónlínu við hið fagra fjall, Reykjaneshyrnu. Fólk kemur gjarnan akandi yfir 100 kílómetra leið, lengst af á malarvegi, til að bregða sér í sund. Gestir Ferðafélags Íslands á Valgeirsstöðum, nema hundruðum árlega. Langflestir þeirra hafa notið þess að fara í sundlaugina við hafið.

Davíð Már Bjarnason, talsmaður og sundlaugarvörður Krossneslaugar, er við stjórnvölinn í sundlaugini ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Sverrisdóttur. Hann segir það vera fagnaðaefni að loksins sé komið að opnum. Miðinn ofan í kostar 1000 krónur fyrir fullorðna og frítt börn. Krossneslaug er annáluð fyrir að þar er opið allan sólarhringinn og fólki er treyst til að borga þótt sundlaugarverðirnir sofi. Davíð er hæstánægður með framkvæmdina.

,,Það er mikil ánægja með þessa framkvæmd. Við þökkum fyrir stuðning sem hefur borist í mörgum áttum. Verkefnið brothættar byggðir hafa stutt þetta með veglegum hætti. Allt er þetta gert af miklum metnaði. Þessi framkvæmd leggur grunninn að áframhaldandi lífi Krossneslaugar. Það var löngu kominn tími á viðhald. Krossneslaug heldur nú áfram að vera perla héraðsins næstu áratugina,“ segir Davíð Már.

Sagan

- Auglýsing -

Krossneslaug hefur verið starfrækt frá því árið 5. júlí árið 1954 eða í 68 ár. Það var Ungmennafélagið Leifur heppni sem byggði laugina og rekur hana enn í dag. Vatnið í laugina kemur úr svonefndum Krossneslaugum.

Laugin komst í flesta fjölmiðla landsins á fyrsta ári sínu vegna þess óhapps varð að kýr frá bænum Krossnesi hafnaði í lauginni. Tvær kýr höfðu, að talið var, verið að stympast á bakkanum á sundlauginni með þeim afleiðingum að önnur féll í sundlaugina og átti ekki afturkvæmt upp á bakkann af sjálfsdáðum. Heimamaður frá Krossnesi átti leið að lauginni og sá hvernig komið var og kallaði eftir aðstoð. Hófust þá þegar björgunaraðgerðir sem gengu illa í fyrstu enda ekki auðvelt að færa til svo stóran grip sem getur vegið allt að 500 kílóum. Mikið basl við að reyna að ná kúnni upp úr grunna endanum skilaði engu. Loksins hugkvæmdist einhverjum að bregða þverböndum á kúnna og velta henni þannig upp á bakkann. Voru þá liðnar nokkrar klukkustundir frá því kýrin sást í lauginni. Meðal þeirra sem konu að björguninn var Ágúst Gíslason, fyrrverandi bóndi í Steinstúni. Honum er þetta enn mjög minnisstætt. Eftir þetta atvik var laugin girt af og hefur svo verið síðan.

- Auglýsing -

Þann 11.júlí 1954 birtist frétt í Morgunblaðinu um sundnámskeið fyrir börn í lauginni sem átti að standa í hálfan mánuð. Hætta varð eftir nokkra daga vegna þess að flest börnin, 21 að tölu, veiktust. Þau fengu mikinn hita, kvalir í eyrun, beinverki og kvef. Börnin náðu sé svo að fullu og námskeið voru haldin í lauginni.

Glæpamál upplýst

Krossneslaug hefur einnig komið við sögu þegar glæpamál var upplýst í sveitinni fyrir nokkrum árum. Það gerðist í maímánuði árið 2015 að brotist var inn í Kaupfélagið og ýmsu stolið. Farið var inn um glugga sem er af þrengri gerðinni. Eins og gerist í slíkum málum voru allir undir grun framan af. Þó tókst að þrengja hópinn með því að fólk mældi ummál sitt og sýndi fram á að það kæmist ekki inn um gluggann. Stundum þurfti ekki að mæla því sakleysið birtist í sýnilegum þéttleika. Dagar liðu án þess að tækist að upplýsa um glæpinn. Þá var aftur brotist inn og farið um sama gluggann. Það mátti ljóst vera að raðræningi var þarna á ferð. Allskonar matvöru var stolið. En svo var einnig stolið ullarsokkum sem Ágúst í Steinstúni hafði prjónað af stakri list. Sokkarnir hans Gústa voru með þekktu handbragði og rómaðir af gæðunum. Ráðgátan um ránið var rætt þar sem fólk kom saman. En svo dró til tíðinda. Það gerði slagviðri með tilheyrandi sudda og kulda. Einn morguninn þegar Sigrún sundlaugarvörður mætti til að þrífa búningsklefana, brá henni í brún. Karlaklefinn var undirlagður af tjaldi, svefnpokum og fatnaði. Breytt hafði verið úr dótinu til þerris. Svissneskt par, sem tjaldað hafði á flötinni austan við Bergistanga, var mætt með allt sitt hafurtask. Sigrún benti fólkinu vinsamlega á að þeim væri óheimilt að breyta búningsklefum laugarinnar í þurrkherbergi. Þau tóku saman dótið í snarhasti og hurfu á braut.

Ljósmynd Stefáns Karlssonar hafnaði á forsíðu Fréttablaðsins.

Ráðgátan um ránin í Kaupfélaginu voru enn á hvers manns vörum. En í sundlauginni gekk lífið sinn vanagang; en samt ekki. Sigrún tók eftir torkennilegri og vaxandi lykt í karlaklefanum. Hún leitaði skýringa, dögum saman. Loksins hugkvæmdist henni að leita á bak við ofn í klefanum. Þar kom í ljós ullarsokkur sem lyktaði af táfýlu. Við nánari skoðun kom í ljós að þetta var helmingur af sokkapari frá Gústa í Steinstúni. Það rann upp ljós fyrir Sigrúnu. Tjaldbúarnir voru að baki ráninu. Þegar var haft samband við lögregluna á Hólmavík sem brá skjótt við og kom sólarhring síðar undir bláum ljósum. Þeir stöðvuðu bifreið sína nokkra metra frá tjaldinu og klæddust, að sögn, skotheldum vestum og kölluðu á ræningjana. Í glugga veitingarstaðarins, Kaffi Norðurfjarðar, var Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, sem náði myndum af handtökunni á ræningjaparinu sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins. Ránið upplýstist þar með og parið frá Sviss var landsfrægt. Flötin sem þau tjölduðu á er síðan kölluð, manna í milli, Ræningjaflöt. Þau voru dæmd með hraði úi tveggja mánaða fangelsi fyrir innbrotið í Kaupfélagið og víðar. Alls stálu þau samtals 25.000 krónum, matvöru, gasi, lambhúshettu, hannyrðum, sokkum, garni, dömubindum, samtals að verðmæti um 100.000 krónur.

Ungir sem aldrnir stunda laugina. Hér er heilsast. Mynd: Guðrún Gunnsteinssdóttir.

Brúðhjónin

Hægt væri að tína til fleiri sögur af lauginni sem fylgt hefur íbúunum í næstum mannsaldur. Hér verður ekki sagt frá brúðhjónunum sem  eyddu brúðkaupsnóttinni í lauginni en fengu inn á sig gönguhóp. Við hverfum aftur til nútímans. Til stendur að halda pylsupartý þegar laugin opnar eftir endurbæturnar. Svo heppilega vildi til að Myllan sendi fyrir misskilning 1200 pylsubrauð í Verzlunarfélagið, matvörubúð hreppsins. Ef miðað er við að 40 manns eiga lögheimili í hreppnum þá nemur þetta 30 brauðum á hvert mannsbarn Brauðin eru nú á útsölu en munu jafnframt nýtast við opnun laugarinnar. Þetta er einn mesti misskilningur sem orðið hefur í pöntunum síðan þungunarprófin komu í búðina í stað þorskhnakka.

Á föstudaginn verður gleði um alla sveit þegar Krossneslaug opnar að nýju eftir alltof langt hlé. Þá mun fólk streyma í laugina og sumir langt að.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -