2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Landamæraveggur Trump einangrar hann

Donald Trump heldur áfram að hrista upp í bandarískum stjórnmálum og stunda fordæmalausa pólitík.

Í desember hótaði Donald Trump á fundi með demókrötum að stöðva starfsemi ríkisstofnana fengi hann ekki fjármagn til að byggja vegg við landamæri Mexíkó. Með veggnum stendur Trump við kosningaloforð sitt og loka landamærum suðvestan megin en verðmiði veggsins eru litlar 5,6 billjónir dollara. Veggurinn var hornsteinn í innflytjendapólitík Trumps og nú virðist hann vera að byggja þennan vegg utan um sjálfan sig.

Þingið þarf að samþykkja fjármagnið, en það mætir harðri andstöðu, einkum þar sem demókratar eru nú í meirihluta eftir að repúblikanar töpuðu honum í kosningunum í nóvember. Trump framfylgdi hótun sinni og í gær var fimmtándi dagur þar sem starfsemi einhverra ríkisstofnanna var lögð niður. Á blaðamannafundi á föstudaginn lýsti hann því yfir að þetta ástand gæti staðið í mánuði eða ár þess vegna fái hann ekki peningana í framkvæmdina.

Lokunin getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á starfsemi ýmissa ríkisstofnanna sem munu lenda í fjárskorti fljótlega. Stofnunin sem greiðir út matarmiða til um 38 milljóna tekjulágra bandarískra fjölskyldna lendir í fjárþurrð í mars og vandséð er að endurgreiðsla skatts sem telur tugi milljarða geti farið fram í apríl, ef þetta heldur áfram. Að sama skapi eru margir sem verða af launum sínum sem vinna hjá þeim ríkisstofnunum sem í hlut eiga.

Trump virðist hreint ekki viljugur í samningaviðræður við demókrata sem hafa lagt fram hugmyndir um auknar fjárveitingar við landamæraeftirlit. Mótframboð demókrata í efri deild þingsins var fyrir rúmu ári 1,6 billjónir, en sú tillaga þótti umdeild meðal demókrata. Ekki er ljóst hvort að demókratar hafi nú teflt fram einhverri málamiðlun.

AUGLÝSING


Gæti lýst yfir neyðarástandi

Hvort Trump vilji taka slaginn, slagsins vegna eða til að halda fylgistölum sínum virðist hann ekki ætla að bakka með kröfu um vegginn. Meðal annars sagði Trump að hann gæti lýst yfir neyðarástandi og byggt vegginn án samþykkt þingsins og í óþökk þess. Tæknilega getur hann það á grundvelli stjórnarskrárinnar, en það vekur upp lögfræðilegar vangaveltur um hvað þýðir neyðarástand í skilningi stjórnarskrárinnar.

Tilgangur veggsins að sögn Trump er að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda og flæði fíkniefna inn í landið en jafnframt hryðjuverk. Engin gögn eða upplýsingar hafa stutt síðustu fullyrðingu Trumps og sérfræðingar telja að veggurinn muni ekki þjóna þeim tilgangi sem að er stefnt. Trump hélt því jafnframt fram í kosningabaráttunni að Mexíkó myndi borga fyrir vegginn en ekkert slíkt er í farvatninu. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í þinginu, hefur sagt vegginn siðlausan og demókratar eru á móti framkvæmdinni.

En störukeppni stendur yfir og óvissa um hversu lengi hún mun vara. Trump sýnir með þessu að hann hræðist ekki að misbeita valdi til að fá sínu framgengt, enda er þessi aðgerð ekkert nema valdníðsla. Með þessu reynir Trump að fram hjá leikreglum sem eru settar til þess að knýja á um aukið samráð, hluti af samspili löggjafar- og framkvæmdarvalds. Hvort hann byggi nýja veggi í kringum sig með kröfunni um vegginn verður að koma í ljós.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is