Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Landasalinn sem varð uppljóstrari – Fyrirmynd skúrks í bíómynd – Nekt fyrir dómi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Maðurinn á flestra vörum þessa dagana er Anton Kristinn Þórarinsson. Skjöl sem láku á netið um helgina sýndu að hann hefur verið uppljóstrari lögreglunnar í meira en áratug. Anton hefur raunar lengi verið umtalaður og mikið slúðrað um hann undanfarin ár. Því hefur verið  haldið fram  að hann væri fíkniefnakóngur Íslands sem verður að telja vafasamt. Þá er gott að hafa í huga að gögnin sem láku um helgina byggðu fjölluðu um rannsókn sem varð til vegna sögusagna. Niðurstaða Héraðssaksóknara var sú að ásakanir um að Anton hefði lögregluna í vasanum væri einfaldlega rangar.

Anton hefur þó í áranna rás komið víða við og nokkuð ágreiningslaust að hann hafi ekki verið neinn engill. Þó er rétt að nefna að í yfirheyrslu Héraðssaksóknara segist hann hafa verið í rugli og neyslu en sé það ekki lengur. Sumir myndu segja að heimsókn hans á Jólagesti Björgvins renni stoðum undir það.

Góðir nágrannar

Anton er úr Árbænum og verður 42 ára síðar á þessu ári. Í dag er hann væntanlegur nágranni Björns Leifssonar í World Class en þeir eiga húseignir hlið við hlið á Haukanesi á Arnarnesinu. Anton keypti það hús á um 120 milljónir krónur. Húsið var áður í eigu Rasmus Rojkjaer, fyrrverandi forstjóra Alvotech á Íslandi. Anton hefur jafnað húsið við jörðu og er að láta byggja nýtt á lóðinni. Sambýliskona hans er skráð með lögheimili þar.

Hann byrjaði þó smátt ef marka má frásagnir Árbæinga. Einn þeirra, Maggi Pera, lýsir því á Twitter hvernig Anton var besti landasölumaður landsins á árum áður. „Í dag eyddi ég tveimur klukkustundum að lesa yfirheyrslur yfir lögreglumönnum og athafnamanni úr Árbæ. Það lét hugann leita aftur til unglingsáranna. Athafnamaðurinn var með einn besta landa bæjarins á eftir knattspyrnumanni úr Breiðholti. Aðrir áttu ekki breik!,“ skrifar Maggi.

Sleppur vel

Anton var einungis 21 árs þegar hann fékk þriggja ára dóm fyrir e-töflusmygl um aldamótin. Þess má geta að þar var hann dæmdur ásamt Guðmundi Inga Þóroddssyni, sem hefur getið sér orð sem lifandi sönnun þess að betrun skilar árangri. Hann er nú í framboði fyrir Samfylkinguna.

Anton lenti aftur á sakmannabekk árið 2008. Þá var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur sýknaði hann þó í því máli. Því verður ekki betur séð en Anton hafi lítið sem ekkert dvalið í fangelsi.

- Auglýsing -

Árið 2008 snerist málið um smygl á um 700 grömmum af sterku kókaíni. Árið 2015 var hann svo sakaður öllu vægara brot, kannabisræktun. Þá var hann sýknaður en í frásögn Vísis frá þeim tíma var sagt: „fram kom við aðalmeðferð málsins að Anton Kristinn var beittur ýmsum þvingunaraðgerðum við rannsókn lögreglu. Þar á meðal var gerð húsleit á heimili hans, síminn hleraður ásamt því að lögreglan skoðaði tölvupóst hans og bankareikning.“

Margt við það mál var furðulegt þá og nú enn grunsamlegra í ljósi þess að hann hafði verið uppljóstrari lögreglunnar um árabil þegar þetta gerðist. Afbrotið var fyrst rannsakað árið 2010 en ákæra kom ekki fyrr en fjórum árum síðar. Lögregla gat ómögulega útskýrt margra ára töf á málinu. Anton fór í skaðabótamál og fékk 400 þúsund krónur frá ríkinu.

Nektarmyndir á Google

Skaðabótamál eru raunar meira áberandi en afbrot sé nafni Antons flett upp á vef dómstóla. Yfirleitt voru þau mál gegn ríkinu en eitt snerist gegn atvinnuljósmyndara. Sú mynd sem dregin er af honum í þeim dómi líkist ekki harðsvíruðum glæpakóngi heldur elskulegum eiginmanni sem vill halda einkalífi sínu fjarri sviðsljósinu.

- Auglýsing -

Þannig var mál með vexti að Anton fór í fjölskyldumyndatöku á ljósmyndastofunni Nærmynd ásamt unnustu sinni, Ellen Erlu Egilsdóttur. Teknar voru þrjátíu myndir og allir virtust sáttir. Ári síðar runnu þó tvær grímur á Anton þegar hann var að gúggla sitt eigið nafn og sá myndirnar. Þær höfðu verið vistaðar utan einkasvæðis. Anton hafði samband við ljósmyndarann sem brást við og fjarlægði þær. Ástæða þess að það dugði ekki er líklega sú að hann og Ellen voru nakin á sumum myndanna.

Í dómi segir: „Framburði stefnanda, Antons Kristins, fyrir dómi kom fram að honum hafi liðið illa með að hafa myndirnar á Netinu. Þær hefðu ekki átt að fara á Netið en verst hafi verið að sjá hvað Ellen hafi liðið illa út af þessu“.

Mætti á frumsýninguna

Framleiðandinn Baltasar Kormákur hefur gert kvikmynd sem er að hluta byggð á atburðum úr fortíð Antons. Sú mynd heitir Eiðurinn og er lýst svo í kynningu á RÚV: „Íslensk kvikmynd um Finn, virtan hjartaskurðlækni sem kemst að því að dóttir hans er komin í neyslu. Þegar hún kynnir alræmdan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann ákveður Finnur að taka til sinna ráða.“ Án þess að spilla fyrir myndinni þá ber Baltasar Kormákur manninn sem er byggður á Antoni.

Ólafur Egill Egilsson, leikari og leikstjóri, skrifaði handritið ásamt Baltasar og hefur sagt í viðtali að saga myndarinnar sé persónuleg. Kveikjan var hagir yngri systur Ólafs. Systir hans er áðurnefnd Ellen Erla sem þá var þá unnusta Antons og er það enn. Sagan segir að hann hafi mætt á forsýninguna og sagt glettinn eftir ónefnt atriði: „Þetta gerðist ekki svona!“

Ólafur Egill var þó alvarlegur í fyrrnefndu viðtali og sagði rót myndarinnar löngun hans til að bjarga systur sinni. Hann er elstur barna Egils Ólafsssonar tónlistarmanns og Tinnu Gunnlaugsdóttur, fyrrverandi þjóðleikhússtjóra, en Ellen er ellefu árum yngri. „Við komum eiginlega alveg af fjöllum þegar það skyndilega rann upp fyrir okkur að hún var komin í mikil vandræði með fíkniefni og sitt líf. Við bræðurnir höfðum báðir tekið okkar rispur á yngri árum, hlaupið af okkur hornin, og fengum til þess eðlilegt svigrúm. Ég held að foreldrar mínir hafi gert ráð fyrir hinu sama, eins og allir foreldrar […] „Systir mín hefur alltaf verið sjálfstæð og fylgin sér og var á þessu tímabili flutt að heiman og komin með kærasta sem var töluvert eldri, hún var svona að finna út úr því hvaða stefnu hún vildi taka í tilverunni en það bar ekki á öðru en að hún hefði góða stjórn á sínu lífi,“ sagði Ólafur.

Síðan fékk Ólafur skyndilega símtal. „„Það kom símtal um miðja nótt frá lögreglu og sjúkraliði. Þá var hún búin að missa algjörlega fótanna, búin að vera vakandi um langa hríð eftir mikið djamm og vissi eiginlega hvorki í þennan heim né annan en hafði þó rænu á því að kalla á hjálp,“ lýsir Ólafur.

Íhugaði að drepa hann

Stuttu síðar lá Ólafur andvaka og fékk þá hugljómun um að hann þyrfti að koma ástmanni systur sinnar fyrir kattarnef. „Svo fæ ég það í hausinn, að þetta sé allt þessum kærasta hennar að kenna. Ef ég gæti með einhverjum ráðum komið í veg fyrir að þau væru saman myndi hún örugglega ná áttum. Sú hugsun leitaði á mig að ég þyrfti að stía þeim í sundur. En það var ekki á mínu valdi, hann hafði tekið alla stjórn á lífi hennar og var ekkert að fara að sleppa takinu. Á þessum tímapunkti var ég farinn að sjá það sem einu lausnina að kærastinn hyrfi úr lífi hennar og hreinlega farinn að fabúlera um það í huganum hvernig það gæti gerst. Hvernig ég gæti losnað við hann. Svo var eins og rynni af mér. Ég var orðinn sjúkur. Sjúkur af meðvirkni, ýktri ábyrgðartilfinningu og stjórnsemi,“ lýsti Ólafur í viðtalinu.

Ólafur sá að sér og úr varð kvikmyndin Eiðurinn. Ólafur ítrekaði að myndin væri þó ekki ævisaga systur hans. Viðtalið á Vísi var birt fyrir um fjórum árum og hafði hann orð á því að Ellen hefði náð sér án hans aðkomu. „Á sínum hraða og sínum forsendum náði hún að vinna sig upp úr þessu. Hún lifir sínu lífi í dag, á litla stelpu, er í góðri sambúð og alls ekki á neinni heljarþröm,“ sagði hann en nefndi ekki að hún væri enn með sama manni. Orð hans endurspegla þó mögulega breyttar og betri aðstæður.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -