„Þessar tölur vekja athygli og ég geri ráð fyrir því að við munum eiga samtal við Lyru,“ sagði Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landpítalanum, í samtali við Fréttablaðið. Rætt var við Ólaf í kjölfar frétta af gríðarlegum hagnaði fyrirtækisins Lyra, sem fram kom í ársreikningum þeirra.
Lyra seldi fyrir fjórfalt hærri upphæð í fyrra, samanborið við árinu áður, en er Landspítali lang stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins. Þá greinir Fréttablaðið einnig frá því að hagnaður Lyru hringi viðvörunarbjöllum innan spítalans. Starfsfólk veltir því fyrir sér hvort verðlagning heildsölunnar hafi verið eðlileg. Ekki liggur fyrir hvenær spítalinn hyggst funda með Lyru en eigendur heildsölunnar, sem eru feðgin, munu greiða sér allt að 750 milljónir í arð.