• Orðrómur

Langveikur maður geymdur inn á Vífilsstöðum – Verið hafnað 18 sinnum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Nýrnaveikum manni hefur verið hafnað 18 sinnum um vistun á öldrunarheimilum. Hann hefur nú verið geymdur inni á spítala í að verða eitt ár og eigir enga von um að hann öðlist réttlæti og breytingar á högum sínum. Systir mannsins er í viðtali við Mannlíf og lýsir því óréttlæti og úrræðaleysi sem bróðir hennar þarf að lifa við.

Tæplega 69 ára karlmaður sem haldinn er nýrnabilunarsjúkdómi og hefur af hans völdum misst báða fætur og hluta af fingrum, hefur verið geymdur inni á Vífilstaðaspítala í tæpt ár. Honum hefur verið hafnað 18 sinnum um viðunandi lausnir. Systur mannsins hafa barist hetjulega en alltaf gengið á vegg því það eru engin úrræði til handa manninum og á meðan grotnar hann niður inni á sjúkrahúsi.

Gleymdur

- Auglýsing -

Maðurinn sem hefur barist lengi við nýrnabilun missti annan fótinn fyrir tveimur árum, í júní 2019, vegna lélegs blóðflæðis niður í fætur. Hann var í sex mánuði inni á Landspítalanum og síðan á Landakoti í kjölfarið. Maðurinn leigði sér íbúð eftir dvölina þar og fékk hefðbundið innlit tvisvar sinnum á dag. Það reyndist alls ekki næg umönnun fyrir manninn auk þess sem heilsu hans fór að hraka. Niðurstaðan varð sú hann fór inn á Landspítala á ný og aftur er honum vart hugað líf. Í þetta sinn þurfti að taka hinn fótinn af manninum og hluta af tveimur fingrum. Þetta var í mars 2020. Maðurinn var svo færður á Vífilstaðaspítala í júlí 2020 og hefur verið fastur þar síðan, í bráðum að verða eitt ár.

Hvar eru úrræðin ? Hann er manneskja ekki gamalt geymsludót ! Mynd í einkaeigu

Alls ekki einsdæmi

- Auglýsing -

Í samtali við systur mannsins segir hún að bróðir sinn segi oft, ég hlýt að hafa gleymst hérna, það er alltaf verið að endurnýja á ganginum en ég fer aldrei. Hún segir að ekkert úrræði sé til fyrir bróður hennar og segir að staða hans síns sé langt því frá að vera einsdæmi. Hún segir bróður sinn vera algjörlega skýran í hugsun og ekki háaldraðan en þrátt fyrir það sé hann geymdur með veiku öldruðu fólki. Vistarverur mannsins eru eins og á á hverju öðru sjúkrahúsi. Hann getur ekki haft hjá sér neina persónulega muni, þetta er bara spítali. Systir mannsins segir að þetta sé ekki einu sinni spítali í tilfelli bróður síns heldur geymsla. Engin virkni er á staðnum, fólk er bara að bíða og hann búinn að bíða í bráðum eitt ár og horfir alltaf á eftir fólki fara.

Öldrunardeildin á Vífilstöðum er ekki hugsuð sem lantíma vistun og það er ekkert upp á hana að klaga, heldur kerfið.

Synjað í 18. sinn

- Auglýsing -

Systir mannsins hringir reglulega í Heilsu- og færnisnefnd til þess að athuga hvar bróðir hennar stendur innan kerfisins. Í síðasta símtali sem hún átti við nefndina var henni tjáð það að búið væri að hafna manninum 17 sinnum um vistun á Hrafnistuheimilunum. Þar fengi hann þá umönnun sem hann þarfnast og gæti átt sitt athvarf með sínum persónulegu munum. Það fauk skiljanlega í systur mannsins við þessar fréttir og spurðist hún því fyrir á Vífilsstöðum hvað væri eiginlega í gangi. Í kjölfarið fær hún símtal frá heilbrigðisstarfsmanni á Landspítalanum, sem biður hana að senda kvörtun inn á Heilbrigðisráðuneytið sem hún gerir. Svarið sem hún síðan fékk frá Heilbrigðisráðuneytinu var að hún yrði bara að eiga þetta við Hrafnistuheimilin eða viðkomandi stofnun og að þetta væri ekki undir þeirra hatti. Eftir að þessi svör bárust talaði heilbrigðisstarfsmaðurinn við manninn og var ákveðið í samráði við hann að umsóknin hans yrði víkkuð út, bætt var við tveimur öðrum umsóknum um vistun, að auki við Hrafnistu. Annar af nýju stöðunum höfnuðu manninum og var það því 18. höfnunin sem hann fékk. Ástæðan sem gefin var sú að þar hefðu þau annan svona sjúkling og hefðu ekki efni á því að taka annan slíkan inn að auki. Maðurinn er í forgangi inn á hinn nýja staðinn, en þrátt fyrir það er alltaf gengið fram hjá honum. Segja má að umræddur heilbrigðisstarfsmaður sé sá eini sem hafi gefið sér tíma í að skoða mál mannsins og reynt að rétta honum hjálparhönd.

Svona aðstæður forðast flestir, en maðurinn er gleymdur og gleymdur við svipaðar aðstæður

Enginn vill hann

Það sem er verið að bera fyrir sig í öllum þessum höfnunum er aldur mannsins, hann er ekki nógu gamall auk fjárskorturs, það hefur engin stofnun efni á því að taka manninn inn. Hann er á dýrum lyfjum og þarf að fara í nýrnaskilju þrisvar í viku. Sjúkratryggingar neita síðan ofan í kaupið að taka þátt í að niðurgreiða lyfin.

Þann kostnað vill engin taka á sig og því situr maðurinn og koðnar niður í geymslu inni á Vífilstaðaspítala. Maðurinn er of dýr og er ekki hagstæður vistmaður virðist vera. Það sem spilar líka inn í er að sennilega er líftími hans lengri en þetta eina og hálfa ár sem stofnanirnar gera ráð fyrir að fólk sem fær inni þar lifi, enda aðstæður hans ekki sambærilegar.

Geta ekki sagt honum sannleikann

Þessi hópur á engan málsvara í þjóðfélaginu. Maðurinn sem er til umræðu hér á mjög góða að en systur hans hafa barist eins og ljón fyrir rétti hans og til þess að koma honum á viðunandi stað. Þær ganga ítrekað á veggi og úrræðin eru engin. Systir hans tjáir Mannlífi það að þær hafi ekki einu sinni sagt bróður sínum frá öllum þessum höfnunum, þær hreinlega geti það ekki, hafi það ekki í sér. Þær geta alls ekki hugsað sér að segja honum frá stöðu mála og árangurslausum tilraunum til úrbóta, því höfnunartilfinningin sem þær fá er yfirþyrmandi og þær geta ekki ímyndað sér hvernig það yrði fyrir bróður þeirra að heyra það að gengið fram hjá honum æ ofan í æ. Systir mannsins segist taka ofan fyrir öldrunarlækninum sem opinberaði ástandið inni á téðum stofnunum á dögunum.

Hefur verið innlokaður í 9 mánuði

Covid- 19 ástandið hefur verið mjög erfitt fyrir manninn en hann má ekki fara neitt út. Einungis fyrir tveimur vikum síðan fékk maðurinn leyfi til þess að fara í bíltúr með systrum sínum, að öðru leiti hafði hann verið innandyra á Vífilsstöðum og mátti ekki fara neitt.  Hvað heimsóknir varðar má einn aðili koma á milli klukkan 16 og 18 á daginn en stoppa í hámark klukkutíma innan þessa tímaramma.

Ekki sömu réttindi og þeir sem fæðast fatlaðir

Maðurinn sem er fatlaður vegna sjúkdóms síns nýtur ekki sömu réttinda og þeir sem fæðast fatlaðir. Það má segja með sanni að margt leggst gegn honum í lífinu. Maðurinn sótti um styrk fyrir sérútbúnum bíl því hann getur vel keyrt og það myndi auka frelsi hans til muna.  Tryggingarstofnunin samþykkti á endanum að maðurinn fengi styrk til bifreiðakaupa, en þegar kom að Sjúkratryggingum að samþykkja það að hann fengi styrk til þess að breyta bifreiðinni svo hann gæti ekið henni stóð hnífurinn fastur í kúnni, honum var neitað um það að bifreiðin yrði sérútbúinn. Ekki er horft í það að maðurinn sé að reyna að komast inn á stofnun vegna sinnar fötlunar sinnar og veikinda langt fyrir aldur fram. Eina úrræðið sem er í boði fyrir hann er að leigja íbúð og fá innlit tvisvar á dag og það er maðurinn búinn að reyna og það gekk ekki upp. Þó svo að hann sé í þeirri stöðu sem hann er og þurfi að eyða restinni af lífi sínu inni á stofnunum, gæti hann vel keyrt og öðlast þannig örlítið frelsi í nöturlegum aðstæðum.

Þetta er hörkuduglegur maður segir systir hans og þetta er svo sorglegt. Við fjölskyldan höfum reynt allt en það bara eru allar dyr lokaðar bróður mínum.“

Verra en fangelsi

Þessi vist sem manninum er boðið upp á er verri en afbrotamönnum er boðin hér á landi. Hann virðist engan rétt eiga og allar stofnanir banda honum frá sér og segja að hans mál heyri ekki undir þær. Ljóst er að það er eitthvað verulega mikið að í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Þetta getur bara ekki gengið svona lengur og Mannlíf hvetur þá sem hafa svona sögur eða svipaðar, að hafa samband svo fólk í þessari stöðu fái rödd og fólk í samfélaginu sé upplýst um það hvað kerfið er gallað og það að fólk þjáist verulega vegna þess.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -