Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Lára svikamiðill: „Hafi ég játað þá hefur það verið í örvilnan og uppgjöf – Ég var viti mínu fjær”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslendingar hafa löngum verið þekktir fyrir áhuga sinn á hinu yfirnáttúrulega og hefur fjöldi miðla haft þann starfa að tengja landann við hina látnu. Á fyrri hluta síðustu aldar var gríðarlegur áhugi um alls kyns spíritísma, ekki aðeins hér á landi, heldur um allann hinn vestræna heim. Biðlistar voru á fundi hinna þekktari miðla.

Látin börn og tístandi fuglar

Einn alfrægasti miðill Íslands var Ingibjörg Lára Ágústsdóttir, sem vann það sér meðal annars til frægðar að vera eini einstaklingur Íslandssögunnar sem sakfelld hefur verið fyrir svikamiðlun. Auk þess var fyrrvarandi eiginmaður hennar dæmdur svo og tveir ástmenn.

Lára, sem var fædd árið 1899, var þjóðþekkt fyrir „miðilshæfileika” sína sem hún sagðist hafa uppgötvað 18 ára að aldri. Fundamenn stóðu á öndinni þegar „systir Clementia”, kom fram í gegnum Lári þegar hún féll í „trans” en fjöldi annarra aðila birtist, látin börn og ástvinir auk þess sem fuglar áttu til að fljúga um fundaherbergið, tísta og syngja,“ segir í forsíðugrein Alþýðublaðsins eftir miðilsfund hjá Láru árið 1934. Þar þóttist Lára hafa fallið í dá og og líkamningur hafði skotið upp kollinum, líkamningur í gervi brúðu sem eiginmaður Láru hafði útbúið.

Vék heimsstyrjöldinni af forsíðum blaðanna

Lára varð það þekkt að hún gat rukkað veglega inn á hvern fund, heilar þrjár krónur, en fundirnir voru venjulega sóttir af 10-20 manns. Talið er að hún hafi efnast verulega þau ár sem hún „miðlaði” að handan. „Það, sem gerðist á fundunum var þetta: Líkamningafyrirbrigði, afholdgunarfyrirbrigði, skygnilýsingar, útfrymi, samtöl, bréfaskriftir o. fl., allt „yfirnáttúrlegt“ með frú Láru sem miðil og ýmsa stjórnendur,“ sagði síðar í frétt Alþýðublaðsins. Hún flutti ennfremur raddir frá látnum ástvinum og sendi skilaboð til annarra um að koma í gegnum raddirnar.

- Auglýsing -

Þann 26. október árið 1940 vann Lára það sér til frægðar að víkja heimsstyrjöldinni síðari af forsíðu dagblaðanna þegar Alþýðublaðið birti frétt um að Sigurður Magnússon, kennari og lögreglumaður, hefði afhjúpað svik Láru. Lára hafði lengi talið honum trú um að hún væri í sambandi við látna konu hans, Önnu Guðmundsdóttur, en þau hjón höfðu verið mikið áhugfólk um spíritisma, Anna sáluga hafði ávallt verið þess fullviss að um að Lára væri svikari.

Sveik þúsundir Íslendinga

„Rannsakaði hann lengi allar aðstæður og var loks talinn vera orðinn svo „góður fundarmaður“, að hann fékk að sitja í stól nr. 1, þ.e. næsta stól frúarinnar, þegar á fundi stóð,“ segir fréttinni Alþýðublaðsins. Ekki kom Anna fram þar sem Lára sagði hana „kvefaða”. Það sem Lára vissi ekki var að Sigurður hafði mætt nokkru fyrr á fundastað og rannsakað hann hátt og lágt en mikið rökkur var viðhaft á fundunum svo vart sá til. Eftir nokkra leit fann hann böggul undir skáp og var í honum gardínuefni yst en stór gasslæða þar fyrir innan. Sýndi Sigurður örðum fundagestum pakkann og bað þau að leggja sér vel í minni, hvernig um hann væri búið. Lét hann pakkann síðan með sömu ummerkjum undir skápinn, en þó þannig að rétt sá á hann.

- Auglýsing -

Eftir fundinn opnaði Sigurður skápinn og fann þá þessa sömu gardínu á öðrum stað. Þótti sannað að þessi gardína hafi verið notuð í svikin. Kristján nokkur bólstrari í London viðurkenndi síðar að hafa útvegað frú Láru gardínuna. Fréttinni lauk á þeim orðum að það væri landhreinsun að svik frú Láru hafi loksins verið afhjúpuð en talið er að hún hafi svikið þúsundir Íslendinga.

„Allir miðlar geðbilaðir“

Játaði Lára svikin og var dregin fyrir dóm í kjölfarið. Ísland stóð á öndinni af spenningi og urðu meira að segja til þess að Nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Laxness sá sig knúnan til að tjá sig um málið í í Tímariti Máls og menningar og sagði þar meðal annars: „Þekktur geðveikralæknir kvað hafa haft þau orð í gamni og alvöru um andatrú, að ekki séu aðeins allir miðlar geðbilaðir, heldur séu einnig allir, sem hafa tilhneigingu til að fara á miðilsfund að einhverju leyti geðbilaðir líka. Í ljósi þeirrar þekkingar, sem nútíminn á yfir að ráða, má náttúrlega segja eitthvað svipað um allan trúaráhuga á okkar dögum, þ.e.a.s. ef hann er ekki algerð venjutrú.

Lára hlaut eins árs dóm fyrir svik sín í Landsrétti, Þorbergur Gunnarsson, fyrrverandi eiginmaður hennar fékk 6 mánaða fangelsi og ástmennirnir Kristján Ingvar Kristjánsson og Óskar Þórir Guðmundsson 4 mánaða skilorðsbundna dóma hvor.

Hæstiréttur mildaði alla dómana, Lára fékk sex mánaða fangelsi, Kristján og Óskar tvo mánuði hvor en Þorbergur þurfti að sitja sinn dóm vegna fyrri afbrota.

„Viljlaust tæki sem auðvelt er að misnota“

Lára flutti síðar til Akueyrar þar sem hún gekk aftur í hjónaband. Hún tjáði sig einu sinni um málið, tveimur áratugum síðar þegar hún sagðist sjálf ekki hafa vitað hvað gerðist eða ekki gerst. „Í miðilssvefni gefur maður sig algjörlega á vald öflum, sem maður ekki þekkir og veit ekki sjálfur hvað gerist. Sjálf er ég þá viljalaust tæki, sem auðvelt er að misnota, ef óvandaðir eiga í hlut. Hafi ég játað, eins og sagt er, að ég hafi gjört, þá hefur það verið í örvilnan og uppgjöf, þar sem ég var svo að segja viti mínu fjær”.

Lára lést árið 1971.

 

Baksýnispegillinn er endurbirtur. Höfundur: Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir. 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -