Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Leggja undir sig Flatey við lausn sögulegs sakamáls

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tökur standa nú yfir á sjónvarpsseríunni Flateyjargátunni í Flatey við Breiðafjörð. Þáttaröðin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Viktor Arnar Ingólfsson en leikstjórinn Björn B. Björnsson segir handrit þáttanna frábrugðið bókinni.

„Það hefur verið frábært að vera í Flatey og ábúendur hér hafa tekið okkur einstaklega vel sem og þeir fjölmörgu sem eiga hér hús,“ segir Björn um tökurnar í Flatey. „Við höfum leigt öll þau hús sem við höfum getað hér í eynni og hefur ekki dugað til þannig að hluti fólks hefur þurft að gista í Stykkishólmi og sigla á milli. Það eru upp undir 50 manns sem hér eru á okkar vegum svo þetta er mikil innrás á lítinn stað,“ bætir hann við. Tökur á seríunni hófust að nokkru leyti í febrúar og standa til 4. júlí. Auk Flateyjar verður einnig tekið upp í Stykkishólmi, á Akranesi, í Hvalfirði og suður með sjó svo eitthvað sé nefnt.

Björn segir að auðvitað hafi ýmislegt gengið á það sem af er tökunum, eins og gerist og gengur.

„Það kemur allt mögulegt og ómögulegt upp á við svona framleiðslu og sumu er ekki hægt að segja frá,“ segir Björn sposkur á svip.

„Óvæntast, skrýtnast og skemmtilegast fannst mér að sjá tilþrif ýmissa úr okkar frábæra tökuliði á karókíkvöldinu sem haldið var í gær hér á hótelinu í Flatey. Þar sýndu bæði leikarar og starfsfólk á sér ýmsar óvæntar hliðar,“ bætir hann við og brosir. Þá segir hann að veðrið hafi ekki alltaf verið besti vinur tökuliðsins.

„Veðrið hefur satt að segja verið æði skrautlegt á köflum. Þannig hefur stundum skollið á snjókoma þegar við erum að úti að mynda eitthvað sem á að gerst á sólríkum vordegi en skömmu síðar er aftur komin sól og við höfum þá bara beðið á meðan snjórinn á jörðinni bráðnar. Þetta er eins og við er að búast á Íslandi svo við kippum okkur ekkert upp við það.“

Í þróun í nærri áratug

Það er Margrét Örnólfsdóttir sem skrifar handrit þáttanna en Björn segir að það sé æði frábrugðið skáldsögu Viktors sem hefur verið vel tekið víða um heim síðan hún kom út árið 2002.

- Auglýsing -

„Sennilega er réttast að segja að handritið byggi lauslega á bók Viktors. Þannig eru stærstu persónur þáttanna ekki í bókinni og aðalpersóna bókarinnar ekki í þáttunum og meginþema þáttanna er annað en í bókinni. Í henni er mikið og skemmtilegt persónugallerí sem við nýtum okkur og eins að í Flateyjarbók sé falin gáta sem verið sé að reyna að leysa. Gátan okkar er hins vegar ekki sú sama og í bókinni. Þannig held ég að lesendur bókarinnar fái nýja mynd og þeir sem sjá þættina geta eftir sem áður lesið hana án þess að vera búnir að sjá allt sem þar gerist,“ segir Björn.

Allar norrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar munu sýna Flateyjargátuna og breska sjónvarpsfyrirtækið SKY hefur keypt dreifingarréttinn utan Norðurlandanna. Á Íslandi er það RÚV sem sýnir seríuna, en óljóst er hvenær á næsta ári þáttaröðin fer í sýningu. Verkefnið hefur verið í þróun í nærri áratug, en Björn segir það eðlilegt með verkefni af þessari stærðargráðu.

Hér má sjá leikstjórann lengst til hægri að spá og spekúlera á meðan Stefán Hallur Stefánsson og Sigurður Sigurjónsson gera sig klára fyrir tökur.

„Þessi þróunartími hefur allan tímann verið skemmtilegur og spennandi. Verkið hefur stöðugt verið að þroskast og breytast til hins betra og að nú sé loksins komið að sjálfri framleiðslunni er auðvitað ánægjulegur og langþráður hápunktur. Fram undan er svo hálfs árs törn þar til þættirnir verða endanlega tilbúnir,“ segir Björn. En hvernig er Flateyjargátan frábrugðin öðru, íslensku leiknu efni?

- Auglýsing -

„Stærsti munurinn er sennilega sá að þessir þættir gerast ekki í samtímanum. Þeir eru „períóda“ eins og það er kallað í kvikmyndagerðinni. Þeir gerast á nokkrum dögum vorið 1971 rétt áður en Danir afhentu okku handritin og sá atburður tengist efni myndarinnar. Ég veit ekki hvenær hér var síðast framleidd sjónvarpssería sem ekki gerist í samtímanum en það eru örugglega áratugir síðan. Það gerir miklar kröfur til leikmyndar og búninga og eykur auðvitað allan kostnað við verkið sem er aðalástæða þess að slíkt efni er svo fágætt. Þeim mun skemmtilegra er að geta loksins boðið íslenskum áhorfendum upp slíkt efni í Flateyjargátunni.“

Stærst íslenskra skinnbóka

Flateyjarbók gegnir lykilhlutverki við lausn gátunnar í skáldsögu Viktors Arnars, en viðgerð stendur nú yfir á bókinni, sem var að mestu rituð undir lok 14. aldar. Flateyjarbók er stærst allra íslenskra skinnbóka og er samanlagt 225 blöð. Viðgerð á bókinni hófst fyrir fimm árum og eftir að henni lýkur verður bókin til sýnis í Húsi íslenskunnar þegar það hefur verið reist.

Aðalmynd: Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur aðalpersónuna Jóhönnu. Hér sést hún koma til Flateyjar eftir tíu ára dvöl í Frakklandi ásamt syni sínum, sem leikinn er af Mikael Ásgrími Köll Guðmundssyni.

Myndir / Sagafilm

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -