Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Konum leiðbeint: „Leiðréttið aldrei karlmann að öðrum viðstöddum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Karlmanninum er engin launung á því, að kona vill geðjast honum og honum geðjast meira að segja að því. Hitt gremst honum, að við vanmetum hann, er við reynum að veiða hann í net okkar með kænskubrögðum, sem ekki byggjast á tryggri undirstöðu.

Svo mælist Joan Bennet í bók sem á íslensku var nefnd Aðlaðandi er konan ánægð. 

Baksýnisspegill kvöldsins er húslestur úr þessari grátbroslegu bók sem sýnir hvað skýrast, svart á hvítu, hvernig afstaða til kynjanna hefur breyst gríðarlega frá eftirstríðsárunum.

Leiðréttið aldrei karlmann

Í kaflanum Að geðjast karlmönnum er margan gullmolann að finna. Grípum niður í þau ráð sem konum er þar gefin.

Leiðréttið aldrei karlmann að öðrum viðstöddum, málfæri hans, skoðanir, né setjið út á hegðun hans og siði.

- Auglýsing -

Guð forði nokkurri konu frá að særa stolt karlmanns!

Svíkið ekki gefið loforð um stefnumót, þó að yður bjóðist annað skemmtilegra.

Hans skemmtun hlýtur jú að ganga fyrir.

- Auglýsing -

Segið engum manni ósatt. Neitið að svara eða sneiðið hjá því, en ljúgi ekki upp í opið geðið á honum. Það kemst upp.

Þarna getur vart annað verið en verið sé að vísa til yfirgripsmeiri meiri greindar karla en kvenna.

Setjið móðurtilfinninguna á hilluna og leyfið manninum að ráða þá stuttu stund sem hann býður yður út. Þér verður sjálfsagt undrandi yfir, hve gaman það er að láta dekra þannig við sig.

Þetta segir sig jú sjálft.

Biðjið, skrifið ekki og forðizt kaldhæðni. Karlmenn hata og hafa alltaf hatað hæðni allt frá því, er þeir voru á skólabekknum; þeir hötuðu hæðni kennarans, hæðni konunnar geta þeir aldrei fyrirgefið. 

Uh……Er eitthvað hægt að segja við þessari fullyrðingu?

Er fráfælandi fyrir karlmenn

Annar partur bókarinnar fjallar um hvernig útliti konu skuli háttað vilji hún vekja athygli karlmanna og er þess vandlega gætt að minna konur á að særa aldrei stolt karlpeningsins.

Þeir kæra sig ekki um að fara halloka eða verða vísað á bug. Þeir forðast því meyjuna, sem virðist þeim svo miklu framar í útliti, að þeir gera sér engar vonir um að ná hylli hennar. Vertu ekki þannig að enginn þori að nálgast þig. Allt of skrautleg greiðsla, of farðað andlit, of áberandi kjóll – allt er þetta fráfælandi fyrir karlmenn.

Veittu fylginaut þínum þann heiður að gefa honum óskipta athygli þína, er hann talar við þig. Sýndu ánægju þína yfir þeirri skemmtun sem hann kann að veita þér. Vertu ekki að látast vera nein heimskona í háttum þínum.

Þeir kunna vel við fallega fótleggi

Höfundur er augljóslega sérfræðingur í smekk karlmanna eins og sjá má af eftirfarandi alhæfingum:

Karlmenn hrífast frekar af glaðlegu andliti en mjög fríðu. Ánægjan, sem karlmenn hafa af því að horfa á ólundarlegt andlit, er aðeins fólgin í vitneskjunni um að þeir þurfi ekki að hafa þau fyrir augum alla daga.

Karlmenn kjósa heldur konu sem er kvenleg, en hina sem er áberandi fegruð og nýtízkuleg. Þeim geðjast að hári, sem er mjúkt á að líta, hreint og gljáandi. Þeim líkar vel varalitur, en mislíkar að hann sé eins og klessuverk. Þeir kunna vel við venjulega liti, blátt, ljósrautt, marínublátt, rautt, en þeir kunna illa við áberandi litasamsetningar. Þeir kunna vel við fallega hatta, helst frekar stóra, en þeir kunna illa við einkennilega lagað filt eða strá, sem þeim finnst skrýtið og fara illa. Þeir kunna vel við föt, sem fara vel og dylja ekki, að þér eru kvenvera. En þeir kunna illa við gróf og fyrirferðarmikil föt, sem hylja allt vaxtarlag. Þeir vilja fyrir hvern mun losna við að sjá í gegn það sem innanklæða er, eins og mjaðmabelti eða lífstykki.

Þeir kunna vel við fallega fótleggi.

Drekkið ekki áfengi

Það var augljóslega engin #metoo hreyfing komin árið 1945 eins og lesa má:

Þegar maður, sem lítur á yður, hefur virt fyrir sér andlit yðar og klæðaburð, veitir hann athygli svipbrigðum yðar. Vitandi eða óaðvitandi athugar hann hvort þér eruð „lifandi“ vera, röskleg á að líta.

Þau áhrif, sem hann verður fyrir, nærst allra fyrstu sýn, eru undir fjöri yðar og röskleika komin. Með fjöri á ég ekki við ungmeyjarleg látalæti og fliss, heldur lífsfjör, blátt áfram, frjálslega framkomu, sem ber vott um lífsþrótt, lifandi áhuga og greind.

Drekkið ekki áfengi svo þér verðið ekki kennd eða ástleitin og sýnið ekki manninum nein blíðuatlot, þó sakleysisleg séu. Það kann að misskiljast og er rangt gagnvart manninum.

Svo mörg voru þau orð. Bókin var íslenskuð árið 1945.

Þessi spegill birtist áður 26 júní 2021.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -