Miðvikudagur 29. nóvember, 2023
3.1 C
Reykjavik

Lífið er of stutt fyrir vont kaffi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kaffið er punkturinn yfir i-ið eftir góða veislu eða með kökunum. Um jólin er einmitt tíminn til að gera vel við sig svo ekki gleyma að velja þér gott kaffi til að njóta yfir hátíðarnar. Lífið er of stutt fyrir vont kaffi.

Íslandi er hægt að kaupa mikið úrval af góðu kaffi, bæði í sérverslunum fyrir kaffi og úti í stórmarkaði. Í Hagkaup í Garðabæ sá ég nýlega að fínasta kaffi var þar til sölu, m.a. frá Kaffitári, Te og kaffi og fleiri íslenskum fyrirtækjum. Þegar ég skrifaði um kaffi fyrir Gestgjafann hér áður fyrr mælti ég annað slagið með kaffi sem fékkst í stórmörkuðum, eins og Svörtum Rúbín, Illy, Lavazza Club, Café Noir og fleiri tegundum, en úrvalið hefur aukist síðan þá.

Eitt sinn gerði ég óformlega rannsókn fyrir Gestgjafann og þar kom í ljós að kostnaður af einum uppáhelltum bolla af dýrara kaffi á móti ódýru náði ekki að vera einni krónu hærri, þarna munaði aurum á hvern bolla. Eflaust hefur þetta breyst en það getur varla munað nema örfáum krónum á milli bolla.

Bragðmikið með kökum

Í kökuveisluna er bragðmikið kaffi algjör dásemd, ekki síst með súkkulaðikökum. Hátíðakaffi frá Kaffitári fæst víða á þessum árstíma, og Jólakaffi Te og kaffis, og það ætti að höfða til sem flestra. Það hentar vel í venjulega uppáhellingu, pressukönnu eða baunavél.

Þeir sem nota mjólk út í kaffi gætu gert enn betur við sig og notað kaffirjóma sem er svo góður út í bragðmikið kaffi.

Espressókaffi er alls ekki eingöngu fyrir espressókönnur eða baunavélar, það er hægt að nota það líka í venjulega uppáhellingu eða pressukönnu. Í baunavélina mína nota ég iðulega bragðmikið kaffi, eins og Espresso Roma frá Te og kaffi, og þegar ég bregð mér í bæinn kaupi ég oft Húsblönduna frá Kaffitári sem fæst í kaffibúðum Kaffitárs. Svo á ég tvær miklar uppáhaldstegundir þegar kemur að bragðmiklu kaffi í pressukönnu. Það eru Espressó Krakatá frá Kaffitári og French Roast frá Te og kaffi en þessar tegundir eru líka afar góðar í venjulegri uppáhellingu.

- Auglýsing -

Alls konar kaffi

Milt Afríkukaffi nýtur sín vel eitt og sér, eins og Kenía- eða Eþíópíukaffi, en slepptu því alfarið að reyna að gera þér espressó úr því. Þegar kaffi er ljósbrennt njóta fínleg blæbrigði þess og ávaxtatónar sín til hins ýtrasta. Það er mjög gott í venjulegri uppáhellingu og pressukönnu.

Meðalbrennt kaffi, eins t.d. frá Gvatemala eða Kólumbíu, höfðar til margra. Það hefur eftirbragð eins og dökkbrennt kaffi og hentar bæði vel eitt og sér og með kökum. Hægt er að búa það til í venjulegri uppáhellingu, í pressukönnu eða baunavél. Það er gott með mjólk og án hennar.

- Auglýsing -

Bragðbætt kaffi elska margir og það fæst iðulega fyrir jólin og þá með t.d. kanilbragði. Alls ekki setja það í baunavél, nema þú viljir að venjulega kaffið þitt bragðist eins og jólakaffi fram eftir næsta ári …

Einnig er hægt að kaupa ýmis konar síróp, líka sykurlaus, til að setja út í kaffið sitt.

Leitaðu ráða hjá starfsfólki kaffibúða, það hefur fengið fræðslu og getur hjálpað þér að finna besta kaffið fyrir þig. Lestu líka á miðann á pökkunum og prófaðu þig áfram. Inni á vefnum kaffitar.is er hægt að taka sniðugt kaffipróf og finna þannig sína uppáhaldstegund.

Kaffi gleður

Fyrir rúmum sautján árum keypti ég Espressó Krakatá frá Kaffitári fyrir erfidrykkju pabba heitins sem haldin var í stórum sal. Krakatá er dökkbrennt og bragðmikið kaffi, mjög gott með kökum. Ég gleymi aldrei frænkunum sem gripu þéttingsfast í ermina á jakkanum mínum og spurðu klökkar af hrifningu hvaða kaffi þetta væri. Þær væru sannarlega ekki vanar því að fá svona gott kaffi í erfidrykkjum eða veislum. Ég þurfti að skrifa niður nafnið á kaffinu fyrir þær og nokkra aðra gesti í erfidrykkjunni. Ef maður hugsar út í það, því að bjóða upp á allt það fínasta og besta í kökum en klikka svo á kaffinu?

Höfum í huga við kaffigerð

– Hafðu áhöld til kaffineyslu hrein.

– Ekki undirbúa kaffikönnuna kvöldinu áður með því að setja vatnið og kaffiduftið í hana. Sá tímasparnaður er ekki þess virði því þetta skerðir bragðgæði kaffisins til muna.

– Notaðu venjulegt magn af dökkbrenndu kaffi í könnuna, þótt það sé dökkt er það ekki sterkara, bara bragðmeira. Það sama gildir um ljósbrennt kaffi, það verður hreinlega vont ef þú notar of mikið magn af því á móti vatni.

– Ekki kaupa of mikið kaffi í einu. Kaffi geymist best við herbergishita en um leið og það hefur setið lengi í opnum pakka gufar ilmurinn og góða bragðið smám saman upp og kaffið fær hvimleitt geymslubragð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -