2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Lífsbjörgin segir mér að ég á greinilega að gera meira í lífinu en að fá flog“

Daníel Örn Wirkner Jóhannesson gullsmiður var hætt kominn um borð í vél Icelandair í byrjun september þegar hann fékk flogakast yfir Atlantshafinu í 20 þúsund feta hæð. Lífi hans var bjargað með skjótum viðbrögðum læknis og hjúkrunarfræðings, en aðeins nokkrar mínútur skildi milli lífs og dauða.

Blaðamaður heimsótti Daníel og Rakel Dögg Þorvarðardóttur Tamimi, unnustu hans, á heimili þeirra. Hann er augljóslega dauðþreyttur og enn að ná sér eftir lífsreynsluna, þrátt fyrir að tvær vikur séu liðnar frá atvikinu.

„Ég man eftir því að við gengum samferða lækninum og fjölskyldu hans upp rampinn inn í vélina. Sonur hans var eitthvað órólegur og ég grínaðist svona í honum sem róaði hann aðeins. Síðan man ég næst eftir mér þar sem ég vaknaði tveimur sólarhringum seinna á gjörgæsludeild á spítala í Dublin,“ segir Daníel. Þar á hann við Hlyn Davíð Löve skurðlækni og fjölskyldu hans, en það var Hlynur sem bjargaði lífi Daníels um borð í vélinni.

Daníel og Rakel kynntust fyrst fyrir mörgum árum en hittust aftur á Tinder-stefnumóti í byrjun árs. „Ég var ekki búinn að átta mig á að þetta væri hún. Hjartað í mér stoppaði í nokkrar sekúndur þegar ég áttaði mig á hver hún væri og ég fann hvernig ég roðnaði. Og þegar ég keyrði heim hugsaði ég: Það er ekki séns að ég fari að sleppa henni. Sjö mánuðum seinna eru þau trúlofuð og sammála um að þeim hafi verið ætlað að hittast aftur.

„Þetta stóð mjög tæpt og írsku læknarnir segja að þetta hafi verið mínútuspursmál“

Fyrirburi sem var ekki hugað líf

AUGLÝSING


Daníel er fæddur árið 1984 í Vestmannaeyjum og var fyrirburi, fæddur tveimur og hálfum mánuði fyrir tímann. „Ég átti í raun ekki að fá að lifa. Á þessum tíma var nýbúið að kaupa hitakassa í Eyjum og það var hringt í afa minn sem var rafvirki og honum sagt að drífa sig og koma og tengja kassann, drengurinn væri á leið í heiminn og í sjúkraflug. Síðan var flogið með mig í kassanum á sjúkrahús til Reykjavíkur.“

Daníel braggaðist og flutti ungur til Reykjavíkur. Á sama tíma og hann stundaði nám í Borgarholtsskóla, byrjaði hann að spila sem plötusnúður og tók síðan þátt í stofnun hljómsveitarinnar Igore, þegar hann er 17 ára. Sveitin varð feikna vinsæl og meðlimir hennar landsþekktir. „Maður lifði poppstjörnulífi og við vorum oft að grínast með hvað þetta væri klikkað. Maður fór ekki í Kringluna nema einhverjir hópuðust að manni. Þetta var mjög skemmtilegur tími, en skólinn fór nú eitthvað fyrir lítið.“

„Hrunið var flott ár“

Árið 2008 breyttist líf Daníels hins vegar til frambúðar þegar hann lenti í vinnuslysi og datt þrjá og hálfa metra niður af vinnupalli. „Eftir slysið þurfti ég að finna algjörlega upp á nýtt hvað ég ætlaði að gera í lífinu. Þarna var ég að vinna við skiltagerð, en ég er menntaður suðumaður í grunninn. Ég náði að klára það nám, svona með djamminu,“ segir Daníel.

Hann var á Grensásdeild LSH í fjórar vikur, óbrotinn en segist hafa slitið allt sem hægt var að slíta: „ökklann, hnéð og öxlina, það þurfti að færa til æðar og taugar og alls konar drasl.

Þarna stóð ég einn allt í einu árið 2008, ég hafði eignast þrjú börn, en skildi, og missti íbúðina, vinnuna og heilsuna. Það fór allt árið 2008, hrunið var flott ár.“

Varanlegar afleiðingar vinnuslyssins

Vinnuslysið hafði varanlegar afleiðingar fyrir heilsu, vinnu og líf Daníels. Flogaköstin eru afleiðingar þess, en fyrstu krampana fékk hann árið 2009 í aðgerð. „Ég fékk CRSD, sem er alvarlegur og mjög sjaldgæfur taugahrörnunarsjúkdómur. Allt eru þetta afleiðingar slyssins og mögulega voru gerð mistök í svæfingunni þá. Það er verið að skoða það án þess að sé hægt að fullyrða neitt þegar svona langur tími er liðinn og það er ekki verið að ásaka neinn, þetta er bara eins og það er. Ég hóf nám í gull- og silfursmíði og stundaði það á mínum hraða vegna veikindanna, ég missti vel úr skólanum annað árið, þá var ég endalaust í aðgerðum.“

Þegar hann var á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2012 lenti hann í fyrsta hjartastoppinu. „Þar var ég í heimahúsi með vinum mínum í rólegri stemningu þegar ég fékk flogakrampa sem leiddi til þess að ég fór í öndunarstopp og síðar hjartastopp. Læknirinn sem tók á móti mér þegar ég fæddist var á vakt á sjúkrahúsinu í Eyjum og sagði við mig að hann vildi aldrei þurfa að upplifa þetta aftur, að þurfa að hnoða í mig lífi,“ segir Daníel

Í hjartastoppi yfir Hellisheiði

Árið 2015 lenti Daníel í sínu öðru hjartastoppi, á balli á Selfossi, og segist hann muna eftir lækni sem kominn var til að ákvarða dánarstundina. „Það er kannski asnalegt að segja þetta, en ég man eftir að heyra hann segjast ætla að kalla dánarstund. Þarna hafði ég verið í hjartastoppi í dágóðan tíma, þegar lögreglumaður á staðnum sagðist vilja prófa eitt. Sá lamdi mig kröftuglega með báðum hnefum og braut á mér brjóstkassann en það dugði til, það fannst veikur púls og það var keyrt með mig til Reykjavíkur,“ segir Daníel.

Fjöldi sjúkrabila var kominn á staðinn. Leiðin til Reykjavíkur var lokuð fyrir annarri umferð en sjúkrabílnum sem flutti Daníel og hefur hann eftir konunni sem keyrði að hún hafi aldrei ekið þessa leið jafnhratt. „Það var verið að hnoða í mig lífi alla leiðina og ástandið var það slæmt að það var íhugað að kalla út þyrlu og láta hana mæta sjúkrabílnum á miðri leið,“ segir hann.

„Lífsbjörgin segir mér að ég á greinilega að gera meira í lífinu en að fá flog. Ég vil alla vega trúa því, ég vil vera lengur með ykkur,“ segir Daníel og lítur ástaraugum á Rakel og bætir við: „Ég átti líka eftir að hitta hana. Sem er merkilegt út af fyrir sig, því ég hafði verið skotinn í henni í mjög mörg ár.“

Skortur á fræðslu um flogaveiki

Eftir atvikið á Selfossi árið 2015 var Daníel laus við stærri flogaköst þar til núna í ár. „Ég fékk flogakast í byrjun mars. Ég hafði verið að vinna mikið sem er ekki gott fyrir flogaveika, en maður gleymir sér í sköpuninni. Ég hringdi í Rakel um klukkan hálftólf um kvöldið og sagðist vera að ganga frá. Síðan rankaði ég við mér um sjö morguninn eftir og man ekkert. Allur blautur af froðu og með fínt horn á hausnum,“ segir Daníel og segir Rakel ekki hafa farið að óttast um hann því hann eigi til að gleyma sér og loforðum um tímasetningar.

Daníel segir að fræðsla um flogaveiki og viðbrögð við henni mætti vera betri bæði í skólum og á skyndihjálparnámskeiðum, sem hann telur eiga að vera skyldunám í grunnskóla. „Ég beit næstum fingur af konu, sem ætlaði að vera svo elskuleg og aðstoða mig. Hún hafði lært að setja ætti eitthvað í munn einstaklings sem fær flogakast, en það eru kolröng viðbrögð. Við fórum bæði með sjúkrabíl í það skipti,“ segir Daníel. „Það á að leggja manneskju í læsta hliðarlegu, halda öndunarvegi opnum, passa höfuðið og hringja á sjúkrabíl. Rétt viðbrögð og fræðsla skipta miklu máli þegar eitthvað kemur upp á, hvort sem um flogaveiki er að ræða eða annað. Því miður hafa orðið dauðsföll sem þurftu ekki að verða, eingöngu vegna rangra viðbragða.“

Daníel er greindur með þrenns konar flogaveiki: sálræna flogaveiki, störuflog og alvöruflog (e. grand mal). „Þau sálrænu stafa af áfalli, líklega frá öllum aðgerðunum sem ég hef gengist undir. Þau eru einfaldlega varnarviðbragð líkamans, sem hljómar mjög einkennilega.“

Rakel tekur við og lýsir störuflogunum. „Þá starir hann og það er eins og það sé ekkert þarna inni, svo hummar hann og eins og smjattar. Svo eftir 10 sekúndur, 30 sekúndur hámark, dettur hann inn aftur. Þessi flog fær hann oft á dag og þau jukust eftir atvikið í fluginu, en eru farin að minnka aftur,“ segir hún.

„Ég er meingallaður,“ skýtur Daníel inn í. Rakel segist þó ekki geta skilað honum, því foreldrar hans hafi sagt henni að hún mætti eiga hann og það væri enginn skilafrestur.

Er ekkert hægt að tempra flogaköstin?

„Jú, með lyfjagjöf og utanumhaldi er það hægt og margir hafa verið flogalausir í yfir 20 ár, en í mínu tilviki hefur það ekki tekist. Ég var á einu lyfi og hafði verið á því í eitt og hálft ár og löngu búinn að byggja upp þol auk þess sem lyfið dugði alls ekki,“ segir Daníel. „Læknarnir úti telja að það sé ástæðan fyrir að ég fékk flogakastið í mars. Þeir segja að ég eigi að vera lágmark á tveimur lyfjum, jafnvel þremur, þeir ætluðu ekki að trúa að ég væri bara á einu lyfi og búinn að vera á því svona lengi. Staðan er sú að ég verð á lyfjum ævilangt.“

Er einhver fyrirvari á flogunum?

„Hann er oftast enginn, stundum er eins og sjónin til hliðanna byrji að víbra og ég fæ biturt bragð en það er kannski ein sekúnda, þá er flogakastið byrjað.“

Máttu keyra flogaveikur?

„Ég er með gild ökuréttindi og almennt má ég keyra. En mér dettur ekki í hug að setjast undir stýri í núverandi ástandi og stofna lífi annarra í hættu með slíkum glæfraskap.“

„Hlynur er algjör hetja og græjaði þetta eins og sannur fagmaður og það er honum að þakka að ég er hér í dag“

Bjargað í 20 þúsund fetum við ótrúlegar aðstæður

Talið berst aftur að atvikinu um borð í vélinni í byrjun september. „Það hafði verið mikið álag á mér í vinnu þannig að við ákváðum að nú væri kominn tími á frí. Fjölskylda mín á hús á Spáni og við dvöldum þar í viku með vinafólki okkar. Síðan vorum við í fluginu heim, búin að vera rúmlega klukkustund í loftinu og rétt komin yfir Írland, þegar ég fékk flogakast,“ segir Daníel.

Rakel segist hafa litið til hliðar og séð að hann var farinn að froðufella í krampakasti. „Ég leysti hann úr beltinu og hugsaði um að ná honum niður á gólf í læsta hliðarlegu. Ég man ekki hvort ég eða einhver annar kallaði á hjálp, en það var strax kominn hópur af fólki í kringum okkur.“

Þar á meðal var fyrrnefndur Hlynur Davíð Löve skurðlæknir sem bjargaði lífi Daníels við ótrúlegar aðstæður.

„Daníel lá á gólfinu á milli sætaraðanna, með fæturna þar sem við höfðum setið, kviðinn í gangveginum og höfuð og hendur í næstu sætaröð. Ég, flugfreyja og maður sem sat hjá okkur skiptumst á að blása í hann með belg og síðan reyndu Hlynur og hjúkrunarfræðingur að bjarga honum. Við vitum engin deili á manninum sem sat hjá okkur eða hjúkrunarfræðingnum, en ef þau lesa þetta, mega þau endilega gefa sig fram við okkur,“ segir Rakel.

Daníel sjálfur man ekkert og hefur því vitneskju um lífsbjörgina frá Rakel, skýrslu sem gerð var og frásögn læknanna í Dublin, en flugvélinni var snúið þangað, því flugtíminn þangað var styttri, en að halda áfram til Íslands. En hvað ef vélin hefði verið komin nær Íslandi? „Þá sæti ég líklega ekki hér,“ segir Daníel.

„Þetta stóð mjög tæpt og írsku læknarnir segja að þetta hafi verið mínútuspursmál. Ég tæmdi tvær súrefnisflöskur sem voru um borð og því var pumpað í mig með belg. Ég var orðinn helblár í framan og það áður en vélin hafði náð að lenda. Hlynur reyndi að setja upp æðalegg, sem líklega var ekki auðvelt, en hann kom nálinni upp sem betur fer af því þá var hægt að gefa mér lyf til að reyna að stoppa köstin.“

Blóðug föt Rakelar sem hún var í í flugvélinni sýna vel hvað gekk á um borð og nefna þau að líklega hafi vélin sjálf ekki litið vel út eftir hamaganginn. Þegar lent var tók síðan um 5-6 mínútur að koma Daníel frá borði og ekið var í forgangi með hann og Rakel á spítala, þar sem hann rankaði við sér tveimur dögum seinna á gjörgæslu. Þar dvaldi hann í níu sólarhringa og segir allt hafa verið til fyrirmyndar, vel um sig hugsað og starfsfólkið yndislegt.

Rakel vék ekki frá hlið hans og borðaði hvorki né svaf í fyrstu. Að lokum þótti lækni Daníels nóg um og kallaði til félagsráðgjafa til að hugsa um Rakel og voru henni útvegaðar máltíðir og gisting á nálægu gistiheimili.

Daníel á spítalanum í Dublin, degi eftir flugferðina afdrifaríku.

„Ég er bara enn að átta mig á hvað gerðist. Ég var á Spáni og svo man ég næst eftir mér á spítala í Dublin“

Flogakast á gjörgæsludeild

Áföllin voru þó ekki yfirstaðin, því Daníel fékk flogakast á spítalanum. „Ég þurfti að fara á salernið og taldi mig vera í standi til að fara einn. Það voru tvær konur á vakt og önnur gaf mér leyfi að fara,“ segir Daníel sem fékk flogakast á leiðinni til baka í rúmið, sló höfðinu í stól í fallinu og lenti með vinstri fótinn undir sér og þunga líkamans ofan á fótinn.

„Hann hafði ekki staðið upp í marga daga og mátti því ekki ganga einn, heldur þurfti að fá stuðning,“ segir Rakel.

Daníel kom til Íslands fyrr í vikunni og er þegar búinn að bóka skoðanir og rannsóknir. „Ég var hjá bæklunarskurðlækni í dag, fer í myndgreiningu á föstudag og hjartaómun fljótlega. Læknarnir úti vilja útiloka að flogaköstin tengist hjartanu.“

Í dag gengur Rakel um með lyfjapenna, en þau komu heim með fjóra slíka frá írska sjúkrahúsinu. „Mér finnst merkilegt að þeir séu ekki til hér heima,“ segir Daníel. „Ef ég fæ alvöruflogakast, þá eru mér einfaldlega gefin 5 milligrömm í hvora kinn með pennanum, kinnarnar nuddaðar og hringt strax á sjúkrabil. Í pennanum er sama lyf og notað er í sjúkrabílum hér.“

Hvað tekur við eftir lífsbjörgina? „Ég er bara enn að átta mig á hvað gerðist. Ég var á Spáni og svo man ég næst eftir mér á spítala í Dublin og það var rigning, þetta er allt slitrótt. Ég hef stamað mjög mikið, en það er farið að ganga til baka. Og ég hef aldrei sofið jafnmikið og núna, en ég næ að halda mér vakandi svona 10 tíma á sólarhring í tveimur skorpum,“ segir Daníel.

„Nú tekur við bataferli og þegar það er búið tekur við brjáluð smíði og að koma verkstæðinu í gott horf. Svo taka bara við skemmtilegir tímar og ég ætla að njóta lífsins með Rakel.

Ég vil koma sérstöku þakklæti til Hlyns, hjúkrunarfræðingsins sem ég veit engin deili á, starfsfólks Icelandair og bara allra um borð. Það héldu allir ró sinni, sem skiptir höfuðmáli við svona aðstæður, svo sjúklingurinn upplifi ekki panikástand og verði enn skelkaðri. Hlynur er algjör hetja og græjaði þetta eins og sannur fagmaður og það er honum að þakka að ég er hér í dag.“

Hlynur Davíð Löve er læknirinn sem bjargaði lífi Daníels. Hlynur sem er þrítugur fæddist með tvo hjartagalla og þurfti að gangast undir fjölda aðgerða sem barn og unglingur. Í dag er hann unglæknir við skurðlækningadeild LSH, þar sem hann hefur meðal annars notið leiðsagnar læknisins sem bjargaði lífi hans, Bjarna Torfasonar skurðlæknis.

Myndir / Hallur Karlsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is