Föstudagur 20. maí, 2022
12.8 C
Reykjavik

Linda Pétursdóttir gerir upp eftirmálin af falli Baðhússins: „Ég var ofboðslega hrædd.

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Linda Pétursdóttir. Linda Pé. Ungfrú Ísland og síðar Miss World. Hún stofnaði Baðhúsið sem hún síðar missti. „Þetta var ofboðslega erfitt tímabil. Stundum fannst mér eins og ég gæti ekki haldið áfram, en að sjálfsögðu gerði ég það.“ Hún hélt áfram og í dag rekur hún fyrirtæki. „Ég er með aðildarprógramm á netinu þar sem ég er að hjálpa konum bæði með þyngdartap og sjálfsmyndina.“ Hún segist vinna með hugarfarið. „Þær hafa auðveldlega verið að losa sig við 20 kíló kannski á sex mánuðum með því að vinna í hugarfarinu.“

 

„Ég var ofboðslega hrædd. Ég missti öryggi mitt. Ég er náttúrlega einstæð móðir. Menn bankandi upp á heima hjá mér næstum því frá morgni til kvölds með einhverjar kröfur og birtandi mér einhverja pappíra. Þetta var ofboðslega erfitt tímabil. Stundum fannst mér eins og ég gæti ekki haldið áfram, en að sjálfsögðu gerði ég það. Ég er með dóttur mína og svo er ég „fighter“. Ég ætlaði ekkert að gefast upp. En þetta var dimmur dalur,“ segir Linda Pétursdóttir í Mannlífinu með Reyni Traustasyni um tímann í kjölfar þess að hún missti fyrirtæki sitt, Baðhúsið, á sínum tíma.

„Ég ákvað að ég skyldi á hverjum einasta degi fara út í göngutúr með hundinn minn. Það var lágmarkið mitt. Ég kom Ísabellu í skólann, kom svo heim og svaf. Ég var þunglynd eftir þetta. Ég svaf til hádegis og kom mér svo alltaf út í göngutúr. Ég var bara algjörlega búin á því andlega og tilfinningalega og svo smám saman vann ég mig upp. Svo í dag, þegar ég lít til baka átta árum síðar, og lít í baksýnisspegilinn, þá get ég séð að þetta var dulin blessun. Svona átti þetta að fara. Veistu af hverju ég veit það? Af því að þetta fór svona. Eins og ég sagði, var þetta dimmur dalur og það var átakanlegt að missa allt veraldlegt. Einstæð móðir. Óöryggi. En ég náði mér upp úr því og gott betur og líf mitt hefur aldrei verið eins bjart og það er í dag.“

Ég bólgnaði upp og var svo verkjuð að ég átti í erfiðleikum með að matast og ganga.

Linda dvaldi í Kaliforníu í nokkra mánuði eftir að hún missti Baðhúsið til að komast í hitann. „Ég er með liðagigt og hún blossaði upp eftir þetta út af stressi og álagi og ég varð mjög veik af henni. Ég bólgnaði upp og var svo verkjuð að ég átti í erfiðleikum með að matast og ganga. Ég er með slæmt tilfelli. Læknirinn minn ráðlagði mér að fara út í hita. Vinafólk mitt, Jón Óttar Ragnarsson og Margrét Hrafnsdóttir, búa í eyðimörkinni í Kaliforníu og ég ákvað að fara og vera í námunda við þau og var þar í nokkra mánuði. Ég, Ísabella og Stjarna. Ég þurfti aðeins að skipta um umhverfi, en það var líka erfitt af því að ég átti varla pening fyrir mat.“

Linda er mikil hundakona.
- Auglýsing -

Linda segist sprauta í sig líftæknilyfi vegna gigtarinnar á tveggja vikna fresti hér heima til að halda sér gangandi af því að kuldinn fer illa í hana. „Svo er ég heppin, en ég lifi heilbrigðum lífsstíl og hlúi vel að sjálfri mér og auðvitað helst þetta allt í hendur. Svo þegar ég er úti í hitanum þá er ég bæði verkja- og lyfjalaus.“

Og Linda styrktist smátt og smátt.

Ég er „fighter“. Það er ekki í mér að gefast upp.

„Ég hef stöðugt verið að vinna í að styrkja sjálfa mig andlega, tilfinningalega, líkamlega og náttúrlega farið menntaveginn. Ég er „fighter“. Það er ekki í mér að gefast upp. Ég leyfi mér alveg að finna fyrir sársauka og líða stundum illa, en ég læt ekki verkefnin eða erfiðleika skilgreina hver ég er. Ég veit hver ég er og ég get haldið áfram að lifa draumalífinu mínu. Það er það sem ég er að gera í dag.“

- Auglýsing -

 

Halda keik áfram

Linda Pétursdóttir, fyrrverandi fegurðardrottning Íslands og síðar Miss World, segir að það hafi aldrei verið stór draumur hjá sér að sigra í fegurðarsamkeppni.

„Ég hafði mikinn áhuga á tísku og mig langaði að gera eitthvað tengt því. Ég hafði verið hjá Hönnu Frímanns í Karonskólanum að læra meðal annars að ganga og hún sagði fyrir framan hópinn að þarna væri stúlka sem hún gæti séð fyrir sér sem vinningshafa í Ungfrú Ísland. Ég átti ekki von á því að hún væri að tala um mig, en svo sagði hún nafnið mitt og ég roðnaði og mér fannst þetta eitthvað voða skrýtið og sagði mömmu frá þessu.“

Linda sótti síðar um að komast í keppnina Ungfrú Reykjavík en var hafnað, en hún hafði búið á Austurlandi. „Þeir vildu ekki þessa landsbyggðartúttu þannig að mamma fór og sótti um fyrir mig í Ungfrú Austurland. Það var upphafið að þessu.“ Og Linda var krýnd Ungfrú Austurland. „Þá vissi enginn af þessu; ég vildi ekki að neinn vissi af þessu. Vinir mínir. Enginn. Þeir sáu þetta bara í fréttunum um kvöldið þegar ég vann. Þá var ég komin í undanúrslit fyrir Ungfrú Ísland og vann það. Þetta gerðist á um hálfu ári.“

Og svo var hún kjörin Miss World í kjölfarið. Og það var tekið á móti henni á Vopnafirði, heimabænum hennar, eins og drottningu sæmir. Langflestir íbúarnir mættir á flugvöllinn.

„Þetta var svakalega stórt á þessum tíma. Svakalega stórt. Þetta var mjög ólíkt því hvernig þetta er í dag. Það var mjög vel tekið á móti mér. Svo fór ég líka til Húsavíkur og þá tók bæjarstjórnin þar á móti mér. Þetta var frábært.“

Þegar Linda hafði komið til landsins eftir keppnina úti höfðu þáverandi utanríkisráðherra og eiginkona hans tekið á móti henni á flugvellinum og svo var haldið boð á Hótel Íslandi Lindu til heiðurs. „Þetta var vissulega gaman.“

Svo var ég 24 ára þegar ég stofnaði fyrirtækið mitt, Baðhúsið, og svo tók lífið við.

Linda hafði stundað nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla og hætti hún náminu eftir keppnina úti. „Ég var 18 ára þegar ég vann Miss World. Ég var í fjölbraut og þá breyttust þau plön. Þegar ég var búin að ferðast um allan heiminn þá langaði mig ekki til að setjast á skólabekk í Fjölbraut við Ármúla. Ég get alveg lofað þér því. Svo var ég 24 ára þegar ég stofnaði fyrirtækið mitt, Baðhúsið, og svo tók lífið við.“

Hvað myndi Linda segja við þessa stelpu í dag? Hvað myndi hún ráðleggja henni?

„Ég myndi segja henni að halda keik áfram. Láta ekki umtal og skoðanir annarra stoppa sig, því það hafi ekkert með hana sjálfa að gera og bara halda áfram og fara á eftir draumum sínum.“

Það er bara ákveðinn skrápur sem maður þarf að láta vaxa.

Umtalið. Þetta umtal.

„Ég var 18 ára. Kom beint utan af landi og svo allt í einu var ég komin á svið heimsins.“ Og umtalið fylgdi því, sérstaklega á Íslandi. „Auðvitað hafði ég enga æfingu í því og það  náttúrlega tók á.“ Hún vissi ekki hvernig hún átti að taka þessu, en svo vandist þetta. „Það er bara ákveðinn skrápur sem maður þarf að láta vaxa.“

Árin liðu og hefur Linda verið tengd Miss World árum saman og verið dómari. „Ég er búin að vera ansi oft dómari í Miss World. Einhverra hluta vegna fá þeir mig alltaf aftur. Ég er nokkuð góð í því og hef gaman af því.“

 

Lífsþjálfi

Nei, Linda hélt ekki áfram námi við Fjölbrautaskólann við Ármúla á sínum tíma en hún settist á skólabekk síðar og menntaði sig í fleiri en einni grein.

„Ég er grafískur hönnuður og svo er ég með gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði,“ segir Linda sem tók það nám við Háskólann á Bifröst. „Svo er ég lífsþjálfi og er núna í masternámi í lífsþjálfun. Ég er örugglega ekkert alveg hætt. Ég finn mér alltaf eitthvað og þetta er dálítið breitt svæði. Mér finnst gaman að læra og mennta mig.“

Það er aldrei hægt að taka menntun frá þér

Linda er spurð hvernig gráðan frá Háskólanum á Bifröst nýtist henni.

„Það er aldrei hægt að taka menntun frá þér. Það er svo gott að fjárfesta á þann hátt í sjálfum sér. Þetta er búið að styrkja mig sem einstakling. Heimspekina get ég nýtt í eigin lífi hvenær sem er. Svo er ég náttúrlega frumkvöðull. Ég er alltaf að vinna hjá sjálfri mér og ég nýti þetta í ýmislegt. Ég myndi segja að þetta nám – heimspekin, hagfræðin og stjórnmálafræðin – styrki mig í sjálfri mér. Hver ég er.

Mér fannst þetta vera eitthvað sem ég átti eftir að gera fyrir sjálfa mig; fá mér góða háskólamenntun og mig langaði til að læra eitthvað allt annað en ég hafði verið í. Ég sá þetta nám og var efins til að byrja með, en Sævar bróðir hvatti mig til að fara í þetta, einmitt til að taka 180 gráður og læra eitthvað nýtt. Þetta var eftir fall Baðhússins og ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa farið í þetta nám.“

 

Ég veit hver ég er og ég get haldið áfram að lifa draumalífinu mínu. Það er það sem ég er að gera í dag,“ sagði Linda sem í dag rekur fyrirtæki sem lesa má um á lindape.com.

Hún segist vera í draumadjobbinu. „Ég elska að ferðast og ég tek fartölvuna með og get unnið hvar sem er. Ég er einyrki, en nýt aðstoðar Daggar frænku minnar frá Húsavík, sem einnig er lífsþjálfi. Hún vinnur með mér í prógramminu Lífið með Lindu Pé. Ég er með fyrirtæki á netinu og er að kenna konum út frá lífsþjálfun. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef unnið við á minni ævi. Ég er með aðildarprógramm á netinu þar sem ég er að hjálpa konum bæði með þyngdartap og sjálfsmyndina.

Ég er með konur frá um 30 ára og upp í 80 ára sem eru að vinna með mér og ég er svo með fundi með þeim vikulega í beinni útsendingu þar sem ég tek fyrir efni, kenni þeim og þjálfa og veiti þeim ráð. Þetta gefur mér gríðarlega mikið og konurnar hjá mér eru æðislegar. Mér finnst þetta svo gaman. Þetta eru allt íslenskar konur, úti um allan heim.“ Linda segir að konurnar sem taka þátt í prógramminu hafi aðgang að innri vef þar sem hún er með um 200 myndbönd þar sem hún kennir þeim ýmislegt.

Ég er búin að vera í þessum bransa í yfir 30 ár og allra besta leiðin sem ég þekki og sem ég kann til þess að losna til dæmis við aukakílóin er gerð með hugsanavinnu.

Hvað er gert ef konur vilja til dæmis losna við 10 kíló? „Þær horfa á efni hjá mér. Ég er búin að vera í þessum bransa í yfir 30 ár og allra besta leiðin sem ég þekki og sem ég kann til þess að losna til dæmis við aukakílóin er gerð með hugsanavinnu. Ég er ekki að segja þeim að telja kaloríur, vigta matinn sinn eða láta þær fá uppskriftir; ég er að kenna þeim að vinna með hugsanir sínar, af því að allt sem hugsað er um framkallar ákveðna líðan. Einhverja tilfinningu. Út frá þeirri tilfinningu er eitthvað gert eða ekki. Það þarf alltaf að fara til baka í hugsunina til að breyta niðurstöðunni í lífinu. Það þýðir ekki að fara bara að telja kaloríur eða fá einhverjar nýjar uppskriftir frá einhverjum gúrú úti í bæ, því hvað ætlar viðkomandi svo að gera þegar hann hefur það ekki lengur? Ég vinn með hugarfarið. Ég læt þær vissulega fá alls kyns verkfæri og tól til að styðjast við og gera breytingar, en við erum að gera þetta á annan hátt og þetta virkar mjög vel. Þær hafa auðveldlega verið að losa sig við 20 kíló kannski á sex mánuðum með því að vinna í hugarfarinu.“ Linda segir að hún kenni konunum að byrja að hlusta á eigin visku. Eigin líkama. „Þær vita miklu betur hvað hentar þeirra líkama en ég eða einhverjir aðrir. Ég er að kenna þeim að taka dálítið völdin aftur og setjast í bílstjórasætið í eigin lífi.“

Hvað með karla? Af hverju kennir Linda ekki líka körlum?

„Ég gæti haft meira en nóg að gera ef ég væri með karlana líka. Ég fæ oft fyrirspurnir. Markhópur minn er konur. Ég hef unnið með konum alla mína tíð og mér finnst bara best að vinna með konum. Konur eru konum bestar.“

Hér má finna samfélagsmiðla Lindu. Heimasíða: www.lindape.com Instagram er @lindape. Podcast hennar er hér.

Kvennagrúppa á Facebook er hér.

Hlaðvarpsviðtalið við hana er hér.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -