Miðvikudagur 29. júní, 2022
12.8 C
Reykjavik

Lítilmennska Róberts Wessman

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Auðmaðurinn Róbert Wessman lagði til drifkraftinn að baki innbrotinu á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs. Mánuðum saman hafði hann nýtt sér veiklyndi og bágindi blaðamanna til að komast yfir upplýsingar og trúnaðargögn úr ritstjórnarkerfi Mannlífs, samkvæmt uppljóstrunum Kristjóns Kormáks Guðjónssonar blaðamanns. Róbert lagði umtalsverða fjármuni til fyrirtækis í eigu þess sem framdi innbrotið, er sagður hafa greitt fyrir nýja farsíma, boðið þjónustu „hakkara“ og stöðugt „veifað gulrótum“ ef næðist að klekkja á meintum óvildarmönnum hans.  

Róbert bauðst til að útvega „hakkara“

Lýsing á atburðarás daginn eftir innbrotið á ritstjórn Mannlífs er sláandi. Kristjón segist hafa hringt í Róbert morguninn eftir innbrotið, sem framið var í skjóli nætur. Í símtalinu segir hann Róberti að hann hafi tölvu undirritaðs undir höndum, sem Róbert fagnar og býður fram aðstoð við að „hakka“ tölvuna. Þar er Róbert ekki sagður hafa spurt neinna spurninga um hvernig fartölva undirritaðs hafi skyndilega endað í höndum Kristjóns. Í kjölfar símtalsins voru millifærðar 500 þúsund krónur inn á reikning fyrirtækis Kristjóns, sem hann segir hafi verið fyrir vel unnin störf. Ólafur Kristinsson, lögmaður Róberts, annaðist millifærsluna en í nýlegri yfirlýsingu auðmannsins til mbl.is, staðfestir hann að lögmaðurinn hafi sinnt ýmsum verkefnum fyrir sig í 10 ár. Mannlíf hefur átt fjölmörg samtöl við Ólaf sem þverneitar að hafa greitt Kristjóni einhverja fjármuni undanfarna mánuði. Snemma á síðasta ári sagði Ólafur í samtali við Mannlíf að hann hefði aldrei hitt Róbert og aðeins hafa séð myndir af honum í dagblöðum. Ítarleg gögn Mannlífs varpa ljósi á ósannindi lögmannsins sem gaf út út yfirlýsingu eftir að Mannlíf fór í prentun þar sem hann viðurkenndi, þvert á fyrri yfirlýsingar, að hafa greitt Kristjóni að morgni dagsins eftir innbrotið. Hann sagði að greiðslurnar tengdust aðeins verkefnum sem Kristjón hefði ætlað að vinna fyrir stofu sína, Lögsögu. Yfirlýsingin var samnin í samráði við Láru Ómarsdóttur og Róbert Wessman. 

Fyrirgefningin

Kristjón Kormákur steig fram, baðst fyrirgefningar og viðurkenndi brot sitt í hlaðvarpi Mannlífs. Það er mannsbragur að því að opinbera sig með þeim hætti og honum var fyrirgefið afdráttarlaust. Auðmaðurinn hefur aftur á móti ekki beðist fyrirgefningar á sínum þætti málsins og neitað að svara spurningum Mannlífs. Hann kaus að nýta sér bágindi manns í fjárhagskröggum, sem hefur ekki getað greitt samstarfsmönnum sínum laun síðastliðna tvo mánuði eða greitt húsaleigu. Róbert er öðrum fremur skúrkurinn í þessu máli.

Stærri en fiskurinn í sjónum

Mannlíf hefur á undanförnum árum fjallað mikið um Róbert. Fjölmargar greinar hafa sýnt jákvæða hlið auðmannsins og fyrirtækja hans, trúlofun og brúðkaup, vínrækt og lífsstíl, sem margir hafa öfundað hann af. Þegar Mannlíf fjallaði um viðskipti og umsvif Róberts með gagnrýnni hætti, varð auðmaðurinn hins vegar ósáttur. Róbert hefur sjálfur skapað gríðarlegar væntingar í íslensku viðskiptalífi og fullyrt að gjaldeyristekjur Alvotech verði meiri en fiskurinn í sjónum gefur af sér. Það eru stórkarlalegar yfirlýsingar. Sá sem þetta skrifar vonar svo sannarlega að framtíð Alvotech verði farsæl fyrir land og þjóð. Hann leyfir sér þó að slá varnagla við orðspor og árangur fyrirtækja hans. Lyfjafyrirtæki sem hann er nú í forsvari fyrir hafa aldrei skilað hagnaði þó Róbert hafi greitt sjálfum sér á anna tug milljarða í arð. Í kynningum til fjárfesta á Íslandi vísar Róbert til farsæls rekstrar Actavis þar sem hann hafi byggt upp leiðandi fyrirtæki á heimsvísu. Hann getur þess þó hvergi að hann var rekinn frá fyrirtækinu vegna mikils rekstrarvanda og hann hafi á endanum verið látinn fjúka af eiganda fyrirtækisins. Það var svo þýski bankinn Deutsche Bank sem mætti með björgunarhringinn og kom Actavis á lygnan sjó. 

Milljarðar í húfi fyrir íslenska fjárfesta

Saga Alvotech er að mörgu leyti áhugaverð. Myndarlegur vinnustaður hefur skapast innan Vísindagarða Háskóla Íslands, sem hýsir verksmiðju á besta stað í borginni. Fjármögnun Alvotech og skráningu á hlutabréfamarkað hefur margsinnis verið frestað og fyrirtækið hefur gefið út til fjárfesta að mikil óvissa kunni að ríkja um framtíð þess. Það hafi einungis fjármagn út marsmánuð. Markaðsaðstæður fyrir fyrirtæki eins og Alvotech eru vægast sagt erfiðar um þessar mundir og hlutabréfaverð sambærilegra tæknifyrirtækja í Nasdaq kauphöllinni vestanhafs hafa lækkað um allt að helming á þessu ári. Þetta eru auðvitað slæmar fréttir fyrir Lífeyrissjóð Vestmanneyinga, Stefni, Tryggingamiðstöðina og Kristján Loftsson í Hval, sem hafa lagt yfir tvo milljarða króna til rekstrar Alvotech. Arion banki, Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg eiga jafnframt mikilla hagsmuna að gæta. 

Morðhótanir og meintar líkamsárásir

Róbert hefur verið staðinn að morðhótunum í garð fyrrverandi samstarfsmanna sinna. Hann hefur einnig verið sakaður um líkamsárásir á starfsmenn og aðra ósæmilega hegðun undir áhrifum áfengis. Róbert er jafnframt sagður hafa látið „spæja“ um fyrrverandi samstarfsmann sinn og beitti lögmannstofu Harveys Weinstein gegn Mannlífi. Sjálfur hefur Róbert ekki viljað svara spurningum Mannlífs eða annarra fjölmiðla um ásakanir. Þá hafa stjórnarmenn lyfjafyrirtækjanna verið sakaðir um hvítþvott vegna svonefndrar rannsóknar þar sem fullyrt var að engar stoðir væru fyrir ásökunum á hendur forstjóranum. Annað hefur komið á daginn. 

Seinna símtalið …

- Auglýsing -

Í Mannlífi, sem kom út fyrir helgi, er ljóstrað upp um vitorð Róberts um innbrotið í Ármúla og tilraun til að hylma yfir brotið. Auðmaðurinn er sagður hafa lýst velþóknun sinni á því að Kristjón hefði tölvu undirritaðs undir höndum og bauðst til að útvega aðila til að brjótast inn í hana. Annað símtal átti sér stað um hádegisbil sama dag. Róbert hringdi í Kristjón og hafði þá lesið fréttir fjölmiðla um innbrotið. Þar hefur Kristjón eftir honum orðrétt „Ég er skjálfandi hérna á beinunum. Þetta er lögbrot og ég hefði aldrei beðið um slíkt.“

Síðar í samtalinu segir hann Kristjóni að „fara varlega“. Kristjón segir honum að hafa ekki áhyggjur því margir hafi horn í síðu Mannlífs og þetta muni ekki komast upp. Það væri þó skynsamlegt að farga símum sem voru notaðir við innbrotið og kaupa nýja. Kristjón segist hafa beðið Róbert um að borga fyrir þá sem hann samþykkti. Skömmu síðar framkvæmdi Ólafur lögmaður aðra 500 þúsund króna millifærslu. Nýir símar voru keyptir í kjölfarið. 

Dylgjað um sviðsett innbrot

Róbert leitaði til Ómars Valdimarssonar lögmanns um mitt síðasta ár um aðstoð. Lögmannsstofa hans hefur lagt fram kærur til Blaðamannafélags Íslands og dylgjað um að innbrotið kunni að hafa verið sviðsett. Á sama tíma vissi Róbert af innbrotinu og virðist hreinlega hafa ákveðið að „taka sénsinn“. Nokkrum dögum síðar sendi hann frá sér fréttatilkynningu þar sem hann lýsti sig saklausan af innbrotinu og vonaðist til þess að lögreglan næði þeim sem bæru ábyrgð. Hræsnin var takmarkalaus. 

Þetta er hornsílið sem ætlar að verða stærsti fiskurinn í sjónum

- Auglýsing -

Kristjón sendi Róberti tölvupóst þann 18. febrúar síðastliðinn og sagðist vilja játa innbrotið og taka sjálfur alla sök í málinu. Ekkert svar barst hins vegar frá auðmanninum. Það lýsir lítilmennsku og fullkomnum aumingjaskap. Þetta er maðurinn sem vill sækja fé til lífeyrissjóða og annarra fjárfesta á Íslandi til að bjarga Alvotech. Ljóst er að ekki veitir af nýju fjármagni til að standa undir 13 milljarða kaupréttum stjórnenda, auk þeirra sex milljarða sem greiða á til banka og ráðgjafa sem annast sölu hlutabréfa fyrirtækisins. Þetta er hornsílið sem ætlar að verða stærsti fiskurinn í sjónum. Þetta er Róbert Wessman.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -