Íslensk stjórnvöld stefna á að reka úr landi þær, Kúmbu, sex ára, og Marie, sem er þriggja ára ásamt foreldrum sínum. Vilji er til að afgreiða brottvísunina fyrir jól. Stúlkurnar tvær hafa ávallt búið á Íslandi landi og því varla hægt að kalla þær annað en íslenskar. Foreldra þeirra Mahe og Bassirou á að gera burtræk frá Íslandi eftir sjö ára dvöl.
Sema Erla Serdar lýsir daglegu lífi þeirra nú í aðdraganda jóla. Meðan jafnaldrar stelpnanna bíða eftir jólasveinum þá óttast þær komu stoðsveitar lögreglunnar. „Tick tock, tick tock, tick tock. Hljóðið í klukkunni verður hærra og meira skerandi með hverri andvökunóttinni. Síminn hringir. Foreldrarnir hrökkva í kút, börnin spennast upp. Allir gleyma að anda í smá stund. Ætli þetta sé símtalið? Nei, þetta var bara vinafólk þeirra að hringja og spyrja hvernig þau hafa það. Þetta var ekki lögfræðingurinn að hringja með verstu mögulegu fréttirnar. Það segir enginn neitt næstu þrjá klukkutímana,“ lýsir Sema.
Hún segir alla daga einkennast af þessu. „Fjölskyldan situr saman við matarborðið. Þau eru nýbúin að borða. Faðirinn er að hjálpa eldri dóttur sinni með heimanámið. Hann getur ekki einbeitt sér. Kvíðinn og áhyggjurnar hafa haldið honum vakandi lengur en hann man. Hann brosir samt. Fyrir stelpurnar. Fjölskyldan les saman fyrir svefninn. Hlær saman. Foreldrarnir reyna að láta eins og það sé allt í lagi. Innra með sér grætur móðirin. Hún er að sturlast úr áhyggjum. Hún finnur bara sársauka. Það er bankað á hurðina. Ætli það sé loksins komið að þessu? Eru þau komin til þess að sækja okkur og senda okkur úr landi, spyr litla stúlkan?,“ lýsir Sema og heldur áfram:
„Nei, þetta var bara vinkona hennar að spyrja hvort hún vildi koma út að leika. Stelpurnar fara út og foreldrarnir sitja eftir stjörf á gólfinu. Enn eina ferðina. Á morgun endurtekur þetta sig allt aftur, …og svo aftur. Í hvert einasta skipti sem síminn hringir, sem einhver bankar, þá halda þau að þetta sé búið.“
Sema segir þetta mannskemmandi. „Raunveruleiki fólks á flótta er átakanlegri og sorglegri en hægt er að reyna að lýsa. Hann einkennist af lífsreynslu og upplifun sem engum er óskandi. Hann einkennist af röð áfalla, ótta og hræðslu, sorg, óvissu, átökum, sársauka og grimmd. Við það bætist svo kvíðinn, óttinn og streitan sem felst í því að búa við yfirvofandi brottvísun vikum, mánuðum og jafnvel árum saman. Sá raunveruleiki, sem lýst er hér að ofan, er mannskemmandi,“ segir Sema.
Hún segir íslensk stjórnvöld ætla að svipta þessar litlu stelpur framtíðardraumum þeirra. „Nú er meira en mánuður síðan greint var frá því að brottvísa eigi Mahe og Bassirou frá Íslandi eftir sjö ára dvöl þeirra hér á landi og senda þau aftur til þess lands sem þau neyddust til að flýja. Með þeim á að reka úr landi dætur þeirra, Kúmbu, sem er sex ára, og Marie, sem er þriggja ára. Stúlkurnar eru báðar fæddar og uppaldar á Íslandi og hafa hvergi annars staðar verið. Eftir sjö ára átök við íslensk stjórnvöld og sjö ára baráttu fyrir tilvistarrétti sínum hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að svipta stúlkurnar öryggi og frelsi sínu og taka frá þeim alla framtíðardrauma,“ segir Sema.
Þau verða nú að bíða í þessum aðstæðum. „Beiðni fjölskyldunnar um endurupptöku á máli þeirra hefur ekki enn verið tekin til afgreiðslu af kærunefnd útlendingamála þrátt fyrir að hún hafi legið þar inni vikum saman. Ekki fást skýringar á því hvers vegna. Það eru forkastanleg vinnubrögð sem ekki er hægt að skilja. Samkvæmt síðustu upplýsingum sem lágu fyrir hafði ríkisstjórn Íslands ekki rætt mál fjölskyldunnar eða beitt sér í því með nokkrum hætti – þrátt fyrir að dómsmálaráðherra hafi verið afhentar 20.656 undirskriftir gegn brottvísun þeirra fyrir meira en tveimur vikum síðan. Svo mikill er áhugi ríkisstjórnarinnar á málefnum barna sem kerfið sem þau bera ábyrgð á hafa brotið á árum saman,“ segir Sema.
Hún segir reisn okkar hinna enga meðan þetta heldur áfram. „Með hverjum deginum sem ekkert gerist þyngist róðurinn hjá fjölskyldunni. Með hverri vikunni sem það kemur ekki niðurstaða í mál þeirra rista afleiðingarnar af ofbeldinu dýpra hjá stúlkunum og hættan á því að þær verði óafturkræfar verður meiri og meiri. Svo lengi sem íslensk stjórnvöld halda áfram að beita fjölskylduna ofbeldi og neita þeim um skjól og vernd hér á landi verður reisn okkar sem samfélag engin,“ segir Sema.