„Litli Landssímamaðurinn“ – Alþýðuhetjan sem kom af stað bylgju réttlætiskenndar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Litli Landssímamaðurinn“ varð alþýðuhetja árið 2002 þegar hann hann kom á framfæri upplýsingum til fjölmiðla um vafasama notkun stjórnenda Landssíma Íslands á fjármunum þáverandi ríkisfyrirtækis.

Síðar kom í ljós að maðurinn heitir Halldór Örn Egilson og missti hann starfið eftir ítarlega leit fyrirtækins að uppljóstraranum.

Síminn eftirsóttur biti

Á þessum árum var Landssíminn í eigu ríkisins, og þar með skattgreiðenda, en lengi höfðu vafasamir fjármálgjörningar og valdabarátta einkennt fyrirtækið. Forstjórastóll Símans var eftirsóttur biti vegna þeirra hagsmuna sem fylgdu að stjórna einu stærsta ríkisfyrirtæki landsins. Þórarinn Viðar Þórarinsson var ráðinn forstjóri árið 1999 og það sama ár var Friðrik Pálsson, þáverandi forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, ráðinn stjórnarformaður. Auk hefðbundinna launa stjórnarformanns samdi Friðrik við Sturlu Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, og Þórarin, um að einkafyrirtæki hans, Góðráð ehf., myndi starfa sem verktaki fyrir Símann. Átti Góðráð að þiggja hálfa milljón á mánuði fyrir. Samningur þessi fór ekki hátt og kom til að mynda aldrei fyrir augu stjórnar Símans. Stjórnartíð Þórarins einkenndist af hverju hneyklismálinu á fætur öðru þangað til honum var ekki lengur stætt á stóli og hætti hann störfum um áramótin 2001-2002. Starfslokasamningur hans hljóðaði upp á 37 milljónir króna.

Hér er um að ræða upphæðir á tveggja áratuga gömlu verðlagi.

Boltinn byrjar að rúlla

Í upphafi febrúarmánaðar 2002 fer af stað fréttaflutningur af því að Þórarinn Viðar hafi látið leggja ISDN línu að sumarbústað sínum við Þingvallavatn á kostnað Símans. Það var ekki ódýrt. Næsta mál kom upp skömmu síðar og sneri beint að Friðriki þegar samningurinn um Góðráð kom í ljós. Hafði fyrirtækið rukkað Símann um tæplega 8 milljónir fyrir ráðgjafastörf árið 2001. Auk þess voru heimildir fyrir því að Síminn hefði beint viðskiptum sínum ótæpilega til Hótels Rangár, þar sem Friðrik var stjórnarformaður og er í eigu hans.

Friðrik brást hinn versti við og hófst þegar í stað mikil leit að hverjum þeim sem lekið höfðu þessum upplýsingum. Farið var yfir hvern og einn sem höfðu flett upp Góðráðum í bókhaldskerfi Símans. Leitin bar árangur og játuðu tveir starfsmenn að hafa komið upplýsingum áleiðis til fjölmiðla. Annar fékk áminningu en hinum, Halldóri, var sagt upp tafarlaust.

Síðar kom í ljós að var Halldór Örn Egilson, sem hafði gengið undir nafninu „litli Landssímamaðurinn” í fjölmiðlum. Honum hafði verið ofboðið og þegar að DV nálgaðist hann og bað hann um upplýsingar um greiðslurnar samþykkti hann þáttöku.

Eðlilegt að ræða við fjölmiðla

Bylgja réttlætiskenndar fór um þjóðfélagið við uppsögn Halldórs. Bæði Blaðamannafélagið og almenningur brugðust hin reiðustu við og krafist var laga um vernd heimildarmanna.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands varði uppljóstrun Halldórs harðlega. „Starf blaðamanna er að bera sig eftir fréttum og upplýsa mál. Í máli Landssímamannsins er það ljóst í mínum huga að hann rauf ekki trúnað við einn eða neinn. Hann sýndi trúnað. Það er kjarni málsins. Ég er ósammála fullyrðingum um að Landssíminn geti ráðið og rekið hvern sem er.“

„Það er alveg fráleitt að þessi maður skyldi vera rekinn fyrir að sýna trúnað og sýna meira siðferðilegt hugrekki en aðrir“

Þór Jónsson, þáverandi varafréttastjóri Stöðvar 2 tók í sama streng. „Hvað átti „litli Landssímamaðurinn“ að gera? Átti hann að kvarta við Friðrik Pálsson, eða átti hann að fara ofar og kvarta við Sturlu Böðvarsson, eða átti hann að fara til Ríkisendurskoðunar? En eins og menn vita höfðu þessir ágætu herrar hringt í Ríkisendurskoðun til að fá stimpil á þennan gerning. „Litli Landssímamaðurinn“ hafði allar ástæður til að vantreysta þessum yfirmönnum sínum og því kemur hann máli sínu eðlilega til fjölmiðla.“

Halldór Örn fékk seinna vinnu hjá Línu.Net fyrir milligöngu Alfreðs Þorsteinssonar, formanns stjórnar Orkuveitinnar. Hann er enn afar duglegur að benda á það sem miður fer í samfélaginu á samfélagsmiðlum og hefur hvergi dregið af sér.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -