Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Logi Einarsson var látinn dansa – Lenti illa í hruninu og fór beint á fund hjá stjórnmálaflokki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 „Málið er af þeirri stærðargráðu að það er ófært að láta það liggja og leyfa þjóðinni ekki að taka ákvörðun um framhaldið,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um ESB, í Mannlífinu með Reyni Traustasyni, en umræðan um aðild að ESB er komin aftur á dagskrá og formaðurinn spurður hversu bjartsýnn hann sé á að við náum að klára þetta mál.

„Það í rauninni liggur til grundvallar þingsályktunartillögu sem Samfylkingin, Píratar og Viðreisn leggja fram um að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um að taka upp þráðinn og halda áfram. Bjarni hefur vissulega talað um þennan pólitíska ómöguleika sem hann kokkaði upp heima hjá sér eftir að 70% þjóðarinnar höfðu 2014 minnir mig lýst því yfir að þau vildu klára samninginn. En síðan er það auðvitað marklaust vegna þess að við erum með forsætisráðherra núna sem leiðir flokk sem er andvígur NATO en þjóðaröryggisstefnan er beinlínis nefnd í ríkisstjórnarsáttmálanum og hún hefur auðvitað mætt á alla leiðtogafundina. Þannig að ég held að það sé ekkert í veginum til að minnsta kosti að hún og hennar flokkur og jafnvel Framsóknarflokkurinn taki undir þau sjónarmið með okkur. Katrín sjálf var aðili að svona þingsályktunartillögu fyrir nokkrum árum og mælti fyrir henni. Þar talaði hún einmitt um að málið væri af þeirri stærðargráðu að það væri lýðræðismál að leyfa þjóðinni að segja sína skoðun á því.“

Er Logi tilbúinn að taka því ef þjóðin myndi síðan á endanum hafna aðild?

„Já. Það er þá bara komin ný staða upp og þá frestast málið um einhver ár. Sú umræða getur þá endurnýjað sig. Við sjáum hvernig þetta er í Noregi. Þeir reyndu tvisvar og það var fellt tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu; aðild að samningi reyndar. Við erum að tala um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum fyrst að tala um að þjóðin lýsi því yfir að hún vilji eða vilji ekki halda áfram viðræðum og ef hún vill það þá yrði kláraður samningur og þjóðin aftur spurð.“

Þegar Logi er spurður hverjir honum finnist vera mestu kostirnir við aðild að ESB nefnir hann að hann vilji fyrst halda því til haga að ESB sé frelsis- og friðarbandalag Evrópuþjóða þar sem þær leiti leiða til að vinna í sátt og samlyndi og opna til dæmis á viðskipti, för sín á milli og nám. Hann segir að það séu stærstu rökin og kannski ekki rökin sem voru mest rædd á sínum tíma, sem voru efnahagsrökin.

stærstu fyrirtæki landsins eru löngu búin að yfirgefa krónuna og gera öll upp í evru.

„Efnahagsrökin eru margvísleg. Það er auðvitað aðild okkar að ákvörðunum, það er aðild okkar að þessum risastóra 500 milljóna markaði og það er auðvitað möguleiki á að taka upp stóra og stöðuga mynt sem sveiflast ekki eins og lauf í vindi. Bara í dag er það til dæmis þannig að kostnaður vegna vaxtagreiðslna hjá fólki og fyrirtækjum er um 200 milljónir. Þau sem eru á móti þessu segja á móti að það sé svo hagstætt að hafa svona litla mynt að það sé hægt að stýra henni og fella gengi og láta það falla hvernig sem menn gera það. En þá er allt í lagi að hafa það í huga í fyrsta lagi að það er alltaf almenningur sem blæðir þegar krónan veikist. Og stærstu fyrirtæki landsins eru löngu búin að yfirgefa krónuna og gera öll upp í evru.“ Logi nefnir líka nýja heimsmynd þar sem öryggis- og varnarmál og friðarfaktorar spila inn í.

- Auglýsing -

 

Ég var látinn dansa

Logi Einarsson fæddist og ólst upp á Akureyri á 6. áratugnum. Árin liðu fyrir norðan og út um allan heim og strákurinn stækkaði og þroskaðist. Og hann var meðlimur hljómsveitarinnar Skriðjökla um tíma.

Mynd: Facebook

Þetta varð furðulega vinsælt miðað við hvað þetta var nú efnisrýrt.

- Auglýsing -

„Við vorum ærslafullur hópur af ungum piltum. Þetta voru reyndar tveir hópar. Þetta voru tveir áberandi hópar sem voru báðir að fást við músík og elduðu svolítið grátt silfur saman og var svona frekar í nöp við hverja aðra; þessir hópar sem runnu svo saman í Skriðjökla. Síðan held ég að það hafi verið einhvers staðar niðri í bæ í einhverju skemmtihúsi sem við hugsuðum að þetta væri óþarfi og við ættum að verða vinir og þá runnu saman tvær fimm til sex manna klíkur og við bjuggum til Skriðjökla. Fyrst og fremst held ég nú að það hafi verið gert til þess að komast ókeypis inn í Atlavík og svo varð ekkert aftur snúið. Þetta varð furðulega vinsælt miðað við hvað þetta var nú efnisrýrt. En við höfðum gaman og í nokkur ár var þetta til og við ferðuðumst um landið og okkur gafst tækifæri til þess að vera í samvistum. Þetta var meira eins og félagsheimili. Við vorum orðnir 10 og það var ekki hægt að koma öllum á hljóðfæri og þá var farið í að velja þá sem voru skástir á hljóðfæri og við hinir fengum bara annað hlutverk. Ég var látinn dansa og einn annar, einn var í miðasölunni og einn keyrði rútuna. Það var enginn skilinn út undan. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið jafnaðarmennskan í hnotskurn,“ segir formaðurinn sem segist vera slarkfær á gítar.

Logi flutti svo til Noregs tveimur eða þremur árum eftir stofnun Skriðjökla þar sem hann lærði arkitektúr. „Það var samt þannig að þegar ég kom í jólafrí eða sumarfrí þá var alltaf kallað í mann „komdu með“.“

Fylgdi Skriðjöklum mikið sukk?

„Jú, óþarflega mikið, sennilega. En eins og er hjá ungu fólki oft, en eftir á að hyggja þá óska ég þess ekki að börnin mín geri þetta. En flestir höfum við þroskast frá því. Við vorum margir í íþróttum líka samhliða þessu og það varð einhver hemill á þessu. Auðvitað ekki sá standard sem gerður er á íþróttamenn í dag, enda urðum við ekkert sérstaklega góðir, en það varð þó til þess að við urðum að passa okkur til að verða leikfærir. “

 

Þetta var alveg framandi fyrir mig

Jú, Norge var það.

„Ég var alltaf pólitískur. Ég var vinstrisinnaðri en ég er í dag. Ég var sem menntaskólastrákur í Alþýðubandalaginu. Ég fór svo til náms í Noregi í sex ár og þar auðvitað fylgdist ég með stjórnmálum og þar aðhylltist ég hófsama miðjuvinstristefnu sósíaldemókrata og Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra. Kom svo til baka pólitískur en ekki þátttakandi í pólitík. Þegar ég fór að hugsa málin og búinn að vinna í nokkur ár sem arkitekt þá fannst mér það fag vera ágætis bakgrunnur og ekkert verri bakgrunnur inn í stjórnmálin en til dæmis stjórnmálafræði og lögfræði. Þetta er einhvers konar vinna þar sem þú færð þjálfun í því að fá hugmynd og gera hana að veruleika og byggja á einhverjum strúktúr og konstrúksjónum. Það þarf að gera það í samvinnu við sveitarfélög, verkkaupa, iðnaðarmenn, verkfræðinga og marga aðra. Þannig að að mörgu leyti fannst mér þetta henta mér. Síðan gerðist það í hruninu að ég lenti illa í því; búinn að byggja hús eins og margir og í staðinn fyrir að vera bitur þá fannst mér tvennt vera í stöðunni fyrir mig: Það var annaðhvort að fara niður á torg og berja á bumbur eins og margir gerðu sem betur fer, og það var gott hjá fólki að gera það, eða bara að fara beint á fund hjá stjórnmálaflokki og reyna að vinna þaðan. Það var enginn vafi í mínum huga hvorum megin ég ætti að vera, í Vinstri grænum eða Samfylkingunni. Samfylkingin talaði inn í mínar hugsjónir og það var bara byrjunin á þessu.“

Missti Logi þá allt í hruninu?

„Nei, alls ekki.“

Logi segist hafa farið í prófkjör eftir að hafa verið búinn að vera í flokknum í tvær vikur. „Ég fór í opið prófkjör hjá Samfylkingunni 2009 og lenti í 3. sæti í prófkjörinu en settur niður um eitt sæti á lista bara vegna kynjakvóta sem var ósköp eðlilegt. Og það gaf mér varaþingmannssæti og ég held að á árunum 2009-2013 hafi ég ratað þrisvar eða fjórum sinnum inn án þess að vita mikið hvað ég væri að gera. Þetta var alveg framandi fyrir mig. Það varð síðan til þess að ég fór út í bæjarmálin og var þar í nokkur ár áður en ég tók svo við oddvitasæti á landsvísu.“

 

Samfylkingin komin nær miðjunni

Fylgi Samfylkingarinnar var 32% þegar baráttan stóð sem hæst og svo hrundi allt. Logi var bjarghringurinn fyrir norðan sem bjargaði því að flokkurinn hvarf ekki. Hvað klikkaði?

„Ég held að það sé erfitt að svara því nákvæmlega hvað klikkaði. Ég held það hafi verið margir samverkandi þættir, bara eins og alltaf þegar maður einhvern veginn lendir í óhappi. Við þekkjum öll þær aðstæður þegar maður stendur í eldhúsinu og maður sér að bollinn er að detta og í staðinn fyrir að láta hann bara detta þá seilist maður eftir honum og rífur í rafmagnssnúruna í leiðinni og rennur svo á kaffinu og slær niður borðið og allt. Ég held að við höfum færst of mikið í fang eftir hrun, þessi ríkisstjórn sem þá var. Ég held að samtímis því að vera að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að ætla að gjörbreyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og samþykkja nýja stjórnarskrá hafi kannski verið of mikið fyrir þjóð sem auðvitað tróð bara marvaðann, var að vinna frá degi til dags og átti erfitt með að átta sig á því að hún lifði í samfélagi sem beinlínis fór á hausinn vegna óvarkárni og glæframennsku hjá bankafólki.“

Logi segist halda að það hafi verið of margir boltar á lofti í einu. „Og ég held til dæmis að það hafi verið býsna mikið verkefni að rétta við þjóðarbúið, reisa grunninn að nýrri uppsveiflu og velsæld og ég held að, að mörgu leyti hafi þessari ríkisstjórn tekist mjög vel upp þar. Ég held að sagan muni dæma hana miklu betur en ræðuskrifararnir í Valhöll eru að gera núna. Ég held að þær aðgerðir sem ráðist var í við fordæmalausar aðstæður þar sem ekki var lánsfé, þar sem þjóðin var nánast gjaldþrota og ríkissjóður, og það þurfti að grípa til margra aðgerða sem voru vissulega sársaukamiklar; það var þó gert á þann hátt að það var reynt að hlífa þeim sem höllustum fæti standa og enginn skal halda öðru fram en að það hafi verið sjónarmiðið sem hafi verið ráðandi hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, hvað sem fólki finnst svo um þau annars.“

Við töldum að Vinstri græn vildu vinna til vinstri frá miðju.

Logi segir að það eigi ekki að loka augunum fyrir því að svipuð þróun hefur átt sér stað mjög víða. „Það verða til fleiri og fleiri flokkar; flokkar um kannski þrengri málefni. Við sjáum náttúrlega Pírata, Viðreisn, Bjarta framtíð, Flokk fólksins og Sósíalista; innan um er þarna að minnsta kosti fjöldi fólks sem getur verið sammála okkur um mjög stór mál. Mín skoðun er sú að það verkefni okkar að reyna einhvern veginn –fyrst við gátum ekki sameinað alla jafnaðarmenn innan flokksins – að sameina þá í ríkisstjórn. Það tókst ekki. Við töldum að Vinstri græn vildu vinna til vinstri frá miðju. Það virtist ekki vera; þau gáfu nú bara út yfirlýsingu viku fyrir kosningar að óskastjórnin væru sú sama og þau sátu í. Og þá þurfum við bara að prófa nýtt leikskipulag.“

Mynd: Facebook

Logi segir að margir hafa talað um að hann eða þingflokkurinn hafi fært flokkinn til vinstri. „Ég held að þetta sé allt ofmetið. Einn maður eða nokkrir færa ekkert flokk svona einn, tveir og þrír. Við erum auðvitað með mjög stórt og þungt batterí sem heitir flokksstjórnir og landsfundir og annað slíkt og við höldum okkur við ályktanir þaðan. En það er auðvitað þekkt hins vegar bara í náttúrunni, að það er kannski umhverfið sem er á fleygiferð í kringum þig og ég held að við það að ganga í svona ríkisstjórn, ekki einu sinni heldur í tvígang, þá hafi Vinstri græn miklu frekar skilgreint sig á öðrum stað en þau voru á.“

Er Samfylkingin kannski komin nær miðjunni?

„Já.“

Logi sagði að þetta snúist ekki um einstaklinga, en snýst þessi ríkisstjórn ekki fyrst og fremst um Katrínu Jakobsdóttur og það sem hún vill?

„Jú, ég held hún hafi þann stuðning í sínum flokki að hún getur gert nánast hvað sem er. Ég held að reynslan sýni okkur það. Mér finnst til umhugsunar einhvern veginn hvernig stjórnmál hafa verið að breytast á liðnum áratugum frá því að forysta flokka í rauninni talaði fyrir stórum samfélagsbreytingum, framtíðarmálum og öfluðu sér til fylgismanna sem fylktu sér á bak við þá, að þá höguðu þeir sér frekar eins og vatnið núna; þeir leituðu að þeim leiðum þar sem var líklegast að það færi, hvað er líklegast að fólk vilji og hvað er líklegast að verði vinsælt. Ég held að þetta í rauninni endurspegli stjórnmál dálítið vel í dag, því miður.“

 

Ná hreðjatökum á samfélaginu

Logi er jú að norðan, úr höfuðvígi Samherja. Hvað finnst honum um Samherjamálið?

„Ég held að ég sé á ólíkri skoðun miðað við marga í kjördæminu og ekki síst í sjávarútvegsmálum. Ég hef aldrei farið dult með það að mér finnst sjávarútvegskerfið ósanngjarnt. Mér finnst sjávarútvegskerfið líka hættulegt, vegna þess að í skjóli þessara ódýru aflaheimilda sem útgerðarfyrirtækin fá, þá hafa þau getað vaxið gríðarlega. Þau hafa getað hreiðrað um sig í alls konar atvinnugreinum og þau ná hreðjatökum á samfélaginu hvort sem þau beiti því meðvitað eða ómeðvitað. Vegna þess að völd eru af mörgu tagi; það er til beint vald, en það er líka til áhrifavald og það er hættulegt. Þannig að ég er ekkert feiminn við að segja það, að þó að Samherji sé í mínu kjördæmi, þó að Síldarvinnslan sé í mínu kjördæmi og þó að Brim sé stór leikandi líka á norðaustursvæðinu, þá telji ég að það þurfi að endurhugsa þetta kerfi með meira réttlæti í huga, þannig að þjóðin fái meira af auðlindinni. En af því að þú nefndir Samherja, þá geri ég ráð fyrir að þú sért líka að hugsa um Namibíumálið. Það mál er í rannsókn en ýmislegt bendir til þess að þar hafi mjög óhuggulegir hlutir verið framkvæmdir.“

Hverju myndi Logi breyta fyrst í sjávarútvegskerfinu, kvótakerfinu, ef hann hefði völd til þess?

Það er ákvæði um sjálfbærni og auðvitað þjóðareignina.

„Það er þrennt sem þarf að koma inn í stjórnarskrá fyrir það fyrsta. Það er ákvæði um sjálfbærni og auðvitað þjóðareignina. Síðan er það ákvæði um tímabindingu aflaheimilda og loks er það ákvæði um gjaldtöku. Ákvæðið sem Katrín lagði ein og sér á borðið síðasta vor talaði meira að segja um það að það mætti taka gjald vegna aflanýtingar í ágóðaskyni. Ég vil meina að ef hún er búin að skilgreina gjaldtöku vegna veiða í ábátaskyni þá eigi ekki að gefa neinn afslátt frá fullu gjaldi. Fólk getur svo deilt um hvaða leið sé best að því. Er það gert með veiðigjöldum? Ég hallast að því að markaðsleið sé einna gáfulegust til þess. Þar tryggjum við að minnsta kosti að útgerðirnar borgi nógu hátt verð til þess að það sé einhver trygging fyrir því að þjóðin sé að fá það sem hún á skilið.“

Hvað með strandveiðiskipin? Hvað vill Logi gera varðandi þau?

„Við eigum að horfa á strandveiðar með víðari augum eins og stærri útgerðirnar vilja gera; hvað sé líklegast til að skila hámarksverðmæti afla. Þetta er líka menningarlegt fyrirbæri. Þetta er líka spurning um byggð í öllu landinu. Þannig að ég held að það verði að taka það allt með í reikninginn. Ég held að það hafi verið afskaplega vont skref hjá ráðherra núna að draga úr aflaheimildunum, meira að segja án þess að breyta nokkuð kerfinu sem er til staðar vegna þess að það eru miklar líkur á því að um miðjan júlí verði búið að veiða allt í þessu kerfi áður en fiskurinn er genginn austur fyrir land. Þannig að það þarf einhvern veginn að brjóta þetta upp samhliða. Það þýðir ekki að hræra bara í þessum tonnatölum. Það þarf einhvern veginn að hugsa kerfið heildstætt.“

Aftur að Samherjamálinu. Það var svolítið hjólað í Loga varðandi skipstjóramálið og símann sem tengist því. Eiginkona Loga er dómari á Akureyri og dæmir í málinu og einhverjir reyndu að gera málið pólitískt og sögðu að þarna væri Logi Einarsson að baki.

„Þegar við hittumst um helgar þá er ég á útopnu og tala mikið um mitt starf en hún talar aldrei um sitt. Þannig að allt svona er úr lausu lofti gripið og á þessum tíma ræddum við þetta mál ekki.“

 

Mikil vonbrigði

Hvað svo með framhaldið?

„Ég er formaður og ég mun í sumar ákveða hvað ég geri. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé ótrúlega gefandi að vera í liði með mörgum flinkum spilurum; það sé aldrei útilokað að menn skipti um stöðu á vellinum ef það er líklegt til að bæta árangurinn. í augnablikinu er ég formaður og verð það þangað til ég tilkynni annað.“

Voru kosningaúrslitin eða ríkisstjórnarmyndunin þungbær fyrir formanninn?

„Já, kosningaúrslitin voru mjög mikil vonbrigði. Ég taldi að við ættum meira inni; að við ættum að geta landað betri úrslitum. Það er nú það fyrsta. Ástæðuna fyrir því hef ég eytt tugum klukkutíma í að velta fyrir mér og á endanum ber ég ábyrgð á því fyrst og fremst.“

Og á því ber ég ábyrgð.

Logi segir að önnur vonbrigði hafi tengst því að enginn vilji var hjá hvorki Framsókn né Vinstri grænum að heyra í Samfylkingarfólki eða ræða grundvöll fyrir ríkisstjórn. „Það hefur svo orðið til þess að maður hlýtur auðvitað að breyta sinni sýn á hvernig eigi að fara inn í kosningar. Ég er ennþá alveg sannfærður um að það var rétt afstaða að segjast til dæmis ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum, af því að ég vissi að það myndi innibera að við þyrftum að gefa frá okkur öll lykilmál. Það kunna hins vegar að hafa verið mistök ef menn eru bara að hugsa um prósenturnar. Og á því ber ég ábyrgð. Og enginn annar.“

Þannig að Logi telur prinsippin vera dýrmætari en að skipta út svona hjartans málum flokksins?

„Já, auðvitað er það þannig að í fjölflokkastjórnum þurfa menn að vera tilbúnir til þess að gefa frá sér einhver mál, en til þess að ná sem flestum af þeim fram þá hlýtur þú að vinna frekar með líkum flokkum heldur en ólíkum flokkum. Það liggur í hlutarins eðli. Og við getum alveg orðað þetta þannig: Ég nenni ekki að vera í stjórnmálum ef ég þarf að haga mér eins og vatnið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -