Logi Pedro Stefánsson segist hafa fyrirgefið Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir rasíska grein sem hann skrifaði í skólablað MR árið 1968. Hann segir þó að sér hafi þótt greinin ógeðsleg þegar hún var rifjuð upp árið 2014. Þetta segir Logi í viðtali við Sigmar Guðmundsson í þættinum Okkar á milli á RÚV.

Logi, sem á angólska móður, ræðir þar rasisma á Íslandi en hann hefur látið til sín taka í umræðu í þeim málum á Íslandi. Hann segir Geir hafa afgreitt fortíð sína vel í viðtali við bróður Loga, Unnstein Manúel, á sínum tíma. Greinin hafi þó verið slæm.
„Ótrúlegt dæmi. Ég man þegar það birtust fyrst fréttir af þessu MR-skólablaði. Mín fyrstu viðbrögð eru náttúrulega bara að mér finnst þetta ógeðslegt, og hryllilegt að sjá þetta. Ég veit ekki í hvaða umhverfi þetta varð til. En eina sem hægt var að gera var að gangast við þessum mistökum og afgreiða þau þannig,“ segir Logi Pedro um greinina.
Hann telur að án þess að greina pólitík Geirs mikið þá hafi ekki verið mikið um útlendingaandúð hjá honum. „Í öllum þessum umræðum sem snerta á þessu, þá er það oftast nóg. Að gera upp söguna og gangast við því að mistök voru gerð, þetta er ekki maðurinn sem ég hafði að geyma. Það var náttúrulega aðdáunarvert að sjá þetta viðtal, sjá hann gangast við þessum mistökum og ræða þau efnislega. Það er leiðin áfram.“