Það var klukkan 10:16 í morgun barst tilkynning til Neyðarlínunnar um alvarlegt umferðarslys í Skötufirði. Tilkynningin barst frá tveimur vegfarendum sem áttu þar leið hjá. Tilkynningin hljóðaði þannig að bifreið hafi lent út af veginum og hafnað í sjónum og að þrjár manneskjur væru um borð. Vegfarendurnir tveir, sem komu fyrstir á vettvang, hófu þegar að gera ráðstafanir til að koma fólkinu til bjargar. Þá hrósa yfirvöld sérstaklega fjórum einstaklingum er komu til bjargar við erfiðar aðstæður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum sem sendi frá sér tilkynningu rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Þar kemur fram að fljótlega hafi bæst við liðsauki þegar tveir vegfarendur komu að slysstað. Tókst þeim að koma tveimur farþegum úr bifreiðinni, konu og ungu barni úr bifreiðinni og upp á land. Hófu þessir fjórmenningar endurlífgun. Bílstjóranum var bjargað af þaki bílsins.
Klukkustund eftir að tilkynningin barst voru fyrstu viðbragðsaðilar komnir á vettvang og tóku við endurlífgun og öðrum aðgerðum á vettvangi.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar komu á vettvang, með tvo lækna og kafara. Fyrir voru um 50 viðbragðsaðilar, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitarmenn og lögreglumenn, auk tveggja lækna sem komu frá Ísafirði.
Þá komu björgunarsveitarmenn á tveimur björgunarskipum, þeim Gísla Jóns frá Ísafirði og Kobba Láka frá Bolungarvík. Ökumanni var bjargað af bílflakinu um borð í annan björgunarbátinn. Hann var ekki alvarlega slasaður en orðinn kaldur.
Bílstjórinn og farþegarnir tveir voru síðan fluttir til Reykjavíkur undir læknishendur. Líðan eins þeirra er betri en hina. Aðstandendum fólksins hefur verið gert viðvart um slysið.
Fólkið sem í bílnum var er af erlendu þjóðerni, en búsett á Vestfjörðum. Það kom erlendis frá í nótt. Í skeyti lögreglu segir:
„Vegna þessa þurfti aðgerðastjórn og umdæmi sóttvarnalæknir að setja alls 18 viðbragðsaðila í úrvinnslusóttkví auk þeirra fjögurra einstaklinga sem komu fyrstir á vettvang, alls 22 manns. Vegna þessa var sóttvarnarhús opnað í Önundarfirði þar sem stór hluti þessa viðbragðsaðila er í sóttkví. Vonir standa til þess að þeirri sóttkví ljúki á morgun þegar seinni sýnataka hjá einstaklingunum þremur liggur fyrir. Fyrri sýnataka hjá fólkinu á landamærunum reyndist neikvæð.“
Þá telur lögregla að rétt sé að hrósa vegfarendunum fjórum sem fyrst komu á slysstað. Þeir unnu þrekvirki þegar þau björguðu fólkinu úr bílnum við erfiðar aðstæður. Ekki er vitað um líðan fólksins.