Lögregla lýsir eftir ungmennum vegna brunarannsóknar
Lögreglan vill ná tali af fjórum unglingum vegna rannsóknar á bruna í Drafnarslipp í Hafnarfirði í gærkvöld.
Húsið er algjörlega ónýtt eftir brunann; hefur tæknideild lögreglu rannsakað tildrög brunans í allan dag.
Svo segir í tilkynningu frá lögreglu að fjögur ungmenni hafi verið á ferð um slippinn klukkan fimm síðdegis í gær.
Eru ungmennin beðin um að gefa sig fram við lögreglu; þeir sem hafa upplýsingar um fólkið eru sömuleiðis beðnir um að hafa samband í síma 444-1000 eða með tölvupósti á [email protected]
Fram kemur í tilkynningunni að eitt ungmennanna sé talið vera með sítt, rautt hár og annað hafi verið á hjóli. Meira sé ekki vitað um fólkið.