Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Lögreglan og landlæknir á móti áfengisfrumvörpum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mjög skiptar skoðanir eru um tvö frumvörp sem nú liggja fyrir í þinginu um breytingar á áfengislögum. Öðru frumvarpinu er ætlað að heimila sölu áfengis í vefverslunum. Markmið hins er að afnema þá refsingu sem finna má í lögum vegna heimabruggunar með gerjun.

Óhætt er að segja að umsagnaraðilar frumvarps Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum skiptist í tvo hópa. Tuttugu og fjórar umsagnir bárust um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið mælir fyrir að heimilt verði að selja áfengi í netverslunum og að senda áfengi heim að dyrum. Þetta felur í sér afnám einokunar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda. Vefverslunarleyfishöfum mun hins vegar ekki vera heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð.

Í einfölduðu máli má segja að þeir sem sinna forvörnum á einn eða annan hátt finna frumvarpinu flest til foráttu á meðan aðilar á markaði og hagsmunasamtök þeirra fagna því. „Ábyrgð alþingismanna og stjórnvalda er mikil þegar kemur að aðgengi áfengis þar sem það er talið eitt hættulegasta vímuefni sem til er og skaðar heilsu manna,“ segir meðal annars í umsögn Félags lýðheilsufræðinga.

Fram kemur í greinargerð ráðherra að um árabil hafi fólki verið heimilt að kaupa sér áfengi í erlendum verslunum, til dæmis í vefverslunum, og látið senda heim að dyrum á Íslandi, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum. Það hafi skotið skökku við að neytendur hafi getað pantað sér áfengi í gegnum erlendar netverslanir en ekki innlendar. Það sé bæði ósanngjarnt og gangi gegn hagsmunum neytenda. Fyrirkomulagið standist ekki nútímalegar kröfur um jafnræði.

Kostar 3 milljónir mannslífa árlega

Embætti landlæknis er á meðal þeirra sem leggjast af hörku gegn frumvarpi ráðherra. Í umsögn segir að embættið hafi ítrekað varað við og lagst gegn breytingum á gildandi reglum um sölu áfengis á Íslandi. „Takmarkað aðgengi að áfengi, sem meðal annars felur í sér takmarkað aðgengi með einkasölu ríkisins á áfengi, er áhrifarík leið til að draga úr skaðlegum áhrifum vegna notkunar áfengis.“

- Auglýsing -

Fram kemur að ekki þurfi að efast um skaðleg áhrif áfengis á einstaklinga og samfélög. Á hverju ári látist rúmlega 3 milljónir manna í heiminum af áfengistengdum orsökum. Engin þekkt mörk séu um skaðleysi áfengis og því beri að lágmarka eða takmarka aðgengi eins og kostur er. „Embætti landlæknis leggst því gegn þeim breytingum sem boðaðar eru í þessum frumvarpsdrögum.“

Fleiri aðilar leggjast gegn frumvarpinu. Þeirra á meðal eru félagasamtökin Foreldraþorpið. „Rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu og því myndi fyrirhugað frumvarp fela í sér verulega afturför í forvörnum gegn áfengisneyslu barna og unglinga,“ segir í umsögn samtakanna.

Rjúfa einokunarstöðu ÁTVR

- Auglýsing -

Starfandi aðilar á markaði fagna því í umsögnum að til standi að rjúfa einokunarstöðu ÁTVR á smásölumarkaði með áfengi. „Þessu frábæra framtaki Áslaugar ber að fagna og ég vona innilega að þetta verði samþykkt og gert að lögum sem allra fyrst fyrir framgöngu eðlilegs viðskiptafrelsis og ekki síst vegna umhverfis, samkeppnishátta og jafnréttissjónarmiða,“ skrifar Kristján Jónas Svavarsson, eigandi KLIF ehf, sem flytur inn vín frá Frakklandi.

Fleiri seljendur sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta taka í svipaðan streng. Halldór Laxness Halldórsson, eigandi Berjamós, flytur inn vín frá Evrópu en segir starfsemi fyrirtækisins líða fyrir reglur ÁTVR. „Ég gæti talið upp ótal dæmi, vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn framleiðandans er ekki stærra en 1,3 mm á miðanum, sem er skylda samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins. Samt er umrætt vín ítalskt, framleitt í Evrópu og selt um alla Evrópu,“ segir hann og vísar til reglna um umbúðir vörunnar.

Þarft að sanna aldur þinn við pöntun og afhendingu

Í frumvarpi dómsmálaráðherra um leyfi til að selja áfengi í vefverslunum er gert ráð fyrir því að kaupandinn sanni aldur sinn, rétt eins og þegar hann verslar í Vínbúðum ÁTVR. Í frumvarpinu segir að handhafa verslunarleyfis sé heimilt að selja áfengi í gegnum vefverslun og afhenda til einstaklings sem er orðinn 20 ára. „Leyfishafi eða afhendingaraðili áfengis skal láta hlutaðeigandi sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt,“ segir í frumvarpinu.

Í skýringum við þetta ákvæði segir að neytandinn þurfi í öllum tilvikum að sanna aldur sinn þegar afhending áfengis fer fram á grundvelli leyfis um netsölu. „Skiptir í því sambandi engu máli hvort leyfishafinn eða undirverktaki, þ.e. afhendingaraðili á hans vegum, t.d. póstþjónusta, hafi afhent áfengið,“ segir þar. Fram kemur að brot gegn þessu ákvæði kunni bæði að leiða til þess að leyfishafinn verði áminntur eða sviptur leyfi sínu og enn fremur að sá aðili sem afhendir vöruna geti bakað sér refsiábyrgð.

Þar eru einnig settar hömlur við afhendingartímann. Hann skal aldrei vera annar en milli klukkan átta að morgni og níu að kvöldi. Með öðrum orðum verður bannað að afhenda áfengið síðla kvölds, að nóttu eða árla morguns. Þá verður bannað að afhenda áfengi úr vefverslunum á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, þjóðhátíðardaginn 17. júní og á frídegi verslunarmanna.

Refsilaust að brugga heima

Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður hins áfengisfrumvarpsins sem núna liggur fyrir þinginu. Það kveður á um að heimilt verði að brugga vín til einkaneyslu með gerjun. Í dag liggur allt að sex ára fangelsisvist við brotum á áfengislögum. Í greinargerðinni er bent á að síðustu ár hafi fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór hafi komið fram, sem sé afrakstur heimabruggunar. „Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tekist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.“

Ráðherra meðal fyrri flutningsmanna

Með honum að frumvarpinu nú standa níu aðrir þingmenn bæði Pírata og Viðreisnar, auk Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins. Athygli vekur að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nú dómsmálaráðherra, var meðal flutningsmanna frumvarpsins þegar það var síðast lagt fram, sem var veturinn 2018 til 2019. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var einnig í þeim hópi. Frumvarpið er því líklegt til að hafa nokkuð breiðan stuðning, þótt Helgi segist sjálfur ekki hafa fyrir því tilfinningu.

Í greinargerð er bent á að áfengisneysla sé rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla áfengis og sala hafi lengi verið miklum takmörkunum háð vegna skaðlegra áhrifa áfengis á neytendur og samfélagið. „Helstu ágreiningsefni síðustu ára hafa snúið að sölufyrirkomulagi, þ.e. hvort áfengi skuli einungis selt í þar til gerðum ríkisreknum verslunum, einungis í einkareknum verslunum eða hvoru tveggja. Með frumvarpi þessu er hvorki lögð til rýmkun á heimildum til dreifingar né breyting á sölufyrirkomulagi.“ Bent er á að í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi megi einstaklingar brugga vín til einkaneyslu, sem er að hámarki 22% að styrkleika.

Landlæknir og lögreglan hörð á móti

Embætti landlæknis og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu leggjast gegn frumvarpi Helga og félaga. Lögreglustjórinn bendir á að fólk þurfi að hafa náð tuttugu ára aldri til að mega fá afhent áfengi, selja það eða kaupa. Gildistaka frumvarpsins muni hafa það í för með sér að einstaklingar undir tvítugu megi framleiða áfengi til eigin neyslu en það megi hvorki selja það né kaupa. Þetta muni valda vandræðum í framkvæmd. Lögreglustjórinn leggur þess vegna til að framleiðsla áfengis verði háð aldurstakmörkunum.

Lögreglustjórinn setur líka spurningarmerki við að öll gerjun verði leyfð án þess að aflað hafi verið gagna um mögulegar framleiðsluaðferðir. Það sé því „varhugavert að leggja til grundvallar að öll framleiðsla áfengis til einkaneyslu með gerjun verði heimiluð án frekari skoðunar.“ Lögreglustjórinn furðar sig á því að lagt sé til að heimild til framleiðslu til einkaneyslu sé háð framleiðsluaðferð en ekki hámarksáfengisprósentu, eins og í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.

Lögreglustjórinn segir einnig, til að svara því sem fram kemur í greinargerð um refsiramma, að samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara liggi 50 þúsund króna grunnsekt við brotum á áfengislögum en að við ákvörðun umfram grunnsekt skuli horft til lögbundins áfengisgjalds.

Töpuð góð æviár ungs fólks

Embætti landlæknis er mótfallið báðum frumvörpunum sem liggja fyrir þinginu um breytingar á áfengislögum og ítrekar að takmörkun á áfengi sé áhrifarík leið til að draga úr skaðlegum áhrifum þess. Embættið bendir á að áfengi hafi árið 2016 verið í sjöunda sæti yfir áhættuþætti fyrir dauðsföll og töpuð góð æviár. Áfengi sé helsta orsök tapaðra góðra æviára fólks á aldrinum 15 til 49 ára. „ Það ber því að takmarka allar aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka notkun áfengis.“

Það er mat embættis landlæknis að frumvarpið geti leitt til aukinnar notkunar áfengis. Allt áfengi sé skaðlegt heilsu manna og skipti engu máli hvort um sé að ræða gerjað eða eimað áfengi. „Allar alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að afnám einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur sýna rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála.“

Réttarástand sem býr til geðþóttavald

„Það mun ekkert breytast nema þeir sem brugga heima eiga ekki yfir höfði sér fangelsisrefsingu,“ segir Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson um frumvarpið sem hann mælir fyrir. Hann segir að fyrir sér liggi ekkert annað en að fólk geti bruggað heima án þess að eiga yfir höfði sér refsingu. Hann hafi sjálfur engan áhuga á bjórbruggun.

Helgi segir að sú breyting hafi verið gerð á frumvarpinu frá fyrri útgáfu þess að eiming verði áfram bönnuð. Hann segir að bruggarar hafi bent á að það að eima áfengi krefjist mikillar þekkingar og geti verið hættulegt fyrir þá sem ekki kunni til verka. Þess vegna hafi breytingin verið gerð. Aðeins standi til að leyfa gerjun.

Hann segir að þeir sem mótmælt hafi frumvarpinu geri ráð fyrir því að núverandi löggjöf virki. Það sé misskilningur. Lögin í dag virki alls ekki því fjölmargir bruggi í heimahúsi án þess að litið sé á þá sem lögbrjóta. „Lögreglan sér ekki ástæðu til að framfylgja þessu banni,“ segir Helgi, sem ítrekar að réttaröryggi þessa fólks sé það eina sem hann hafi áhyggjur af. „Þetta réttarástand býr til geðþóttavald hjá lögregluyfirvöldum. Það er í eðli sínu á skjön við það sem réttarríkið stendur fyrir.“

Lestu meira í nýju Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -