Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar karlmanns sem beraði á sér kynfærin fyrir framan nemendur í Seljaskóla í Breiðholti um hádegisbil í gær. Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, sagði í samtali við Mannlíf eftir fyrra atvikið að börnunum væri mjög brugðið.
„Börnin eru ekki vön að sjá þetta og eiga ekki að þurfa að sjá svona. Þeim var því eðlilega brugðið,“ sagði Magnús og bætti við að börnin hefðu lagt skelkuð á flótta inn í skólann.
Önnur tilkynning barst svo lögreglu í morgun. Í henni var einnig greint frá mjög svo óviðeigandi háttsemi karlmanns og var vettvangurinn sá sami, þ.e. við Seljaskóla.
Talið er líklegt að um sama manninn sé að ræða. Í lýsingu segir:
„Maðurinn er sagður hár og grannur og vera í kringum þrítugt. Hann var klæddur í svartar gallabuxur, úlpu og með svarta húfu og grímu. Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið, eða telja sig vita hvaða maður á í hlut, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Þá óskar lögreglan eftir liðsinni almennings og bendir á að upplýsingum megi koma á framfæri á netfangið [email protected] eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar.