Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Hafnfirðingur ársins 2018, er líklega á meðal vinsælli lögregluþjónum landsins. Hann hefur bjargað ótal börnum úr heljargreipum en undanfarin ár hefur hann einn síns liðs, séð um leit af börnum sem strjúka að heiman. Í fyrradag skipti hann út forsíðumynd sinni á Facebook og varð einn af alræmdu fánum lögreglunnar fyrir valinu, íslenski fáninn nema drungalegri og svarthvítur.
Með þessu er Guðmundur að bregðast við máli lögreglukonu sem var ljósmynduð með þrjá fána á hnífavesti sem eru tengdir öfgahópum og haturshreyfingum. Myndin var þriggja ára en fór í dreifingu eftir að Morgunblaðið notaði hana á ný. Umrædd lögreglukona, Aníta Rut Harðardóttir varðstjóri, sagði í viðtali við Vísi í gær að henni sárnaði að vera kölluð nýnasisti en varði þó fánana af krafti. Þar kemur fram að fleiri lögreglumenn hafi gert það sama og Guðmundur.
Þessi gjörningur Guðmundar hefur vakið hörð viðbrögð í athugasemdum en líklega eru fleiri sem styðja Guðmund. Sumir stuðningsmenn hans virðast starfa hjá lögreglunni. Af því að marka þá er ekki einhugur meðal lögreglumanna hvað þetta varðar. Það segir sína sögu að háttsettur maður hjá lögreglunni sýnir samstöðu svo opinberlega. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er þó æðsti yfirmaður Guðmundar og segist hún ætla taka hart á málinu.
Það er annar ríkisstarfsmaður sem segir Guðmundi mest til syndanna, Gísli Rúnar Gíslason, yfirmaður rannsóknardeild tollstjóra. Hann skrifar: „Sæll Gummi, ég vildi bara benda á reglugerðir nr 1151 og 1152 frá 2011 um einkennismerki lögreglu og einkennisfatnað lögreglu og þá sérstaklega 1. málslið 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar nr. 1152/2011 þar sem segir að einkennisfatnaðurinn sé hluti af ásýnd lögreglu gagnvart almenningi.“
Gísli Rúnar segir þessa hegðun lögreglunnar ekki ganga upp. „Því eiga engin merki heima á einkennisfatnaði lögreglu önnur en þau sem reglugerðirnar kveða á um og allra síst umdeild merki. Allur almenningur á að geta treyst lögreglunni og allt sem er fallið til þess að draga úr því trausti á ekki heima á einkennisfatnaði lögreglu eða öðrum fatnaði sem þeir klæðast við sín störfm“ segir Gísli Rúnar.
Einn þeirra sem gagnrýnir viðbrögð lögreglunnar í heild sinni er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Hann segir skiljanlegt að þeir hafi ekki áttað sig á merkingu fánanna en nú sé búið að segja þeim það. Því skjóti skökku við halda áfram að verja notkun þeirra. Hann segir á Facebook og deilir fyrrnefndri frétt Vísis:
„Kommon, það er margbúið að koma fram fyrir hvað þessir fánar standa. Látum hana njóta vafans og trúum því að hún hafi ekki vitað það fyrir, en það er allavega búið að segja henni það núna. Samt segir hún „Þessir fánar eru ekki slæmir, það er alveg á hreinu“ og að hún myndi aldrei „taka þátt í ljótum leik sem þeim að bera fána sem koma slíkum skilaboðum á framfæri“ og að hún skammist sín ekki fyrir fánana.
Svo segir hún „Punisher-fáinn, ef hann stuðar fólk tek ég hann niður.“ Í fyrsta lagi hefur komið mjög skýrt fram að hann stuðar fólk, og í öðru lagi er yfirstjórn lögreglunnar búin að segja mjög skýrt að öll merki á lögreglubúningum séu bönnuð. Er ekki í lagi með fólk? Það er greinilega eitthvað mikið að hjá lögreglunni.“