Lói 2 á leiðinni?

Deila

- Auglýsing -

Framhaldsmynd teiknimyndarinnar vinsælu mögulega í bígerð.

Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm.

Íslenska teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn, sem var frumsýnd hérlendis í febrúarmánuði, hefur notið mikilla vinsælda víðsvegar um heim það sem af er árs og í ljósi þess íhuga aðstandendur hennar nú að gera framhald. „Það ræðst einfaldlega með haustinu þegar hún hefur verið tekin til sýninga á stærstu evrópsku mörkuðunum,“ staðfestir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, sem er annar framleiðandi myndarinnar, í samtali við Mannlíf. „En jú, við erum að skoða möguleikana á því að gera Lóa 2.“

Að sögn Hilmars hefur myndin þegar verið tekin til almennra sýninga á tíu mörkuðum. „Og eitthvað fleiri löndum, því til dæmis eru skráningar í Rússlandi yfir öll fyrrum ríki Sovétríkjanna,“ bendir hann á. Í öllum tilfellum hefur myndin verið á meðal tíu aðsóknarmestu mynda á frumsýningarhelgi og í átta af tíu hefur hún verið á lista yfir tíu aðsóknarmestu myndirnar fyrstu þrjár vikur sýningartímans. Meðal þeirra landa sem myndin hefur komið út í má nefna Mexíkó, Tyrkland, Argentínu, Úkraínu og Slóveníu. En samtals er búið að selja bíómiða á myndina fyrir um 2,4 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar 254.175.000 íslensku krónum og því óhætt að segja að myndin sé búin að gera það gott í miðasölunni.

„… myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“

„Við erum mjög þakklát fyrir að myndin sé að gera sig í kvikmyndahúsum erlendis og ekki síður hér heima þar sem tæplega 24.000 manns hafa séð hana í kvikmyndahúsum,“ segir Hilmar. „Það er auðvitað hluti af því að ráðast í svo viðamikið verkefni að það falli í kramið og við erum þakklát fyrir móttökurnar.“

Hann kveðst ekki síður vera ánægður með að myndin skuli hafa unnið aðalverðlaunin á barnakvik-myndahátíðinni í Kristiansand í Noregi á dögunum. „Okkur fannst umsögn dómnefndarinnar mjög skemmtileg en í henni sagði eitthvað á þá leið að Lói væri einskonar Pixar-mynd með íslensku ívafi, en myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“

Fyrir utan mögulega framhaldsmynd segir Hilmar framleiðslufyrirtækið GunHil, sem er hluti af Sagafilm-samsteypunni, vera að þróa teiknimyndaþáttaröð fyrir sjónvarp sem verður kynnt á Cartoon Forum í Frakklandi í haust. „Þáttaröðin gerist á Paradísarvöllum sem við þekkjum úr myndinni um Lóa, þótt hann sé ekki í þáttaröðinni. Þarna verða þó allar skemmtilegu aukapersónurnar, auk annarra nýrra.“

Myndin sjálf verður síðan frumsýnd í Póllandi um næstu helgi og sýnd víðar í sumar, meðal annars í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Malasíu, Víetnam, Singapore, Tékklandi og á Spáni en alls hefur myndin hefur verið seld til kvikmyndasýninga í yfir 50 löndum. Þá segir Hilmar að myndin verði sýnd á fjölda kvikmyndahátíða á næstu misserum.

- Advertisement -

Athugasemdir