Uhunoma Osayamore er einn af þeim tólf sem veittur var íslenskur ríkisborgararéttur, rétt fyrir Þinglok. Hann getur því kallað sig Íslending eftir margra ára baráttu en í viðtali við Kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær sagðist hann bæði vilja læra og vinna.
„Er þetta raunverulegt? Ég þorði aldrei að vona þetta. Ég bjóst aldrei við að þetta yrði niðurstaðan,“ sagði Uhunoma en hefur hann búið hjá fósturfjölskyldu sinni, í miðbæ Reykjavíkur, um nokkurt skeið. Sagði hann sögu sína í fyrra en hann lenti meðal annars í kynferðisofbeldi og mansali á flóttanum frá heimalandi sínu, Nígeríu. „Þau hafa sýnt mér þann besta kærleika sem ég hélt aldrei að mér myndi hlotnast,“ sagði hann um fósturfjölskyldu sína en kynntustu þau á heldur óvanalegan máta.
Uhunoma var staddur í strætóskýli, grátandi, eftir að hafa verið neitað um dvalarleyfi fyrir tveimur árum. Ókunnug kona gaf sig á tal við hann og lét hann fá símanúmerið hjá Morgane Priet-Mahéo. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að búa hjá Morgane og fjölskyldu hennar og vita þau enn ekki hver gaf honum símanúmerið. „Ég þekki mjög fátt fólk þar (í Hafnarfirði) svo að já, ég myndi alveg vilja vita hver gaf símanúmerið,“ sagði Morgane og hlær.
Það eru bjartir tímar framundan hjá Uhunoma, sem segist ætla að einbeita sér að námi, nú þegar möguleg brottvísun úr landinu sé ekki lengur áhyggjuefni. „Núna ætla ég að byrja. Nú þegar óttinn við brottvísun er horfinn úr lífi mínu ætla ég að einbeita mér að því að læra mjög vel,“ sagði hann og bætti við; „Ég ætla að mennta mig og fá mér vinnu. Ég vil verða eitthvað. Ég vil gera eitthvað. Ég vil verða gagnlegur fyrir samfélagið.“