Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

„Maður getur eiginlega ekki hætt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Til er fólk sem velur þann starfa að bæta í matarkistu þjóðarinnar þrátt fyrir litlar þakkir og léleg laun. Hvernig dettur ungu fólki að gerast bændur? Mannlíf fór á stúfana og hitti jákvæða og bjartsýna ungbændur sem hafa nýlega tekið þá ákvörðun að gera landbúnað að ævistarfi sínu. Síðast hittum við bændur í Suður-Þingeyjarsýslu. Nú er kastljósinu beint að ungum bónda að Hrútatungu í Hrútafirði.

Kærustuparið Þorbjörg Helga Sigurðardóttir og  Jón Kristján Sæmundsson.

„Ég fór ekkert að velta fyrir mér að verða bóndi fyrr en ég var orðinn fullorðinn,“ segir Jón Kristján Sæmundsson, 25 ára bóndi að Hrútatungu í Hrútafirði. Jón er Borgnesingur, lærði fyrst vélvirkjun í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og hóf að starfa við þá grein í Borgarnesi. En að hans sögn var hann samt alltaf að „skjótast“ hingað og þangað í sveitastörf.

„Ég fór alltaf í sveit á sumrin og flakkaði á milli ættingja sem stunda búskap. Amma mín í móðurætt býr á sveitabæ í Fnjóskadal og svo bjó afabróðir minn hér að Hrútatungu. Þannig að ég var alltaf að skjótast í sveitina og fannst þetta gaman svo ég ákvað að skella mér á Hvanneyri og lærði búfræðinginn þar.“

Það stóð þó ekki endilega til að gerast bóndi strax en þannig vildi til að afabróðir Jóns veiktist af krabbameini og ákvað að bregða búi sama ár og Jón átti að útskrifast frá Hvanneyri. „Það flýtti svolítið ferlinu, ég ætlaði nú kannski ekki að kaupa jörð strax en þarna var annaðhvort að hrökkva eða stökkva,“ segir Jón og rifjar upp að hann hafi í raun ekki getað flutt norður fyrr en 6. maí því að skólinn kláraðist ekki fyrr, þótt sauðburður hafi verið kominn á fullt.

„Ég bjó í raun þarna með frænda mínum og konunni hans um vorið og hann hjálpaði mér mikið um sumarið, við heyskapinn og svona, kom mér inn í hlutina meðan ég var að koma mér fyrir. En nú eru þau flutt til Selfoss.“

„Ég var mjög mótfallinn búvörusamningunum, finnst þeir vanhugsaðir og illa skipulagðir og bændaforystan ekki að standa sig, að mínu mati. En bændur samþykktu þetta svo maður gerir lítið í því úr þessu.“

Vinnur í Staðarskála til að ná endum saman
Þetta var fyrir tveimur árum þegar Jón var 23 ára og tók hann við búi með 350 kindum. Hann hefur síðan fjölgað fénu upp í 450 ær og er með nokkur hross líka. „Ég fjölga ekki meira í bili allavega, ég er búinn að fylla allt húsapláss sem ég hef, ég þyrfti þá að byggja og sauðfjárbúskapur stendur bara ekki undir neinum framkvæmdum þessa dagana. Hann stendur eiginlega ekki undir sjálfum sér,“ segir þessi ungi bóndi og spurður hvort að það hafi þá ekki verið vitleysa að gerast bóndi svarar hann að forsendurnar hafi gjörbreyst á þessum stutta tíma.

„Það var svolítið mikið annað útlit þegar ég keypti jörðina fyrir tveimur árum. Á þeim tíma sem er liðinn hafa nýir búvörusamningar tekið gildi, sem komu sér mjög illa fyrir mig. Svo hefur afurðaverð lækkað um rúm 30% síðan ég keypti. Fyrsta haustið sem ég lagði inn í sláturhús var 8% lækkun og svo núna síðast 28% lækkun í viðbót. Allar forsendurnar sem voru þegar ég keypti eru bara ekki til staðar lengur.“

- Auglýsing -

Jón er ómyrkur í máli þegar talið berst að nýju búvörusamningunum og greinilegt að þeir hafa snert hann illa. „Ég var mjög mótfallinn búvörusamningunum, finnst þeir vanhugsaðir og illa skipulagðir og bændaforystan ekki að standa sig, að mínu mati. En bændur samþykktu þetta svo maður gerir lítið í því úr þessu. Ég keypti mikið ærgildi sem fylgir jörðinni, sem er í rauninni ríkisstuðningur. Og á samningstímabilinu, sem er 10 ár, á að eyða þessum ærgildum út. Miðað við hvernig dæmið leit út fyrir mig þegar búvörusamningarnir komu út, þá í lok tímabilsins mun ég fá um 30% minna í ríkisstuðning en þegar ég byrjaði og það er dálítið stór biti því ofan á það kemur svo lækkunin frá sláturhúsinu svo þetta verður í raun ansi mikil launalækkun.“

Hann vinnur því í Staðarskála á veturna til að ná endum saman. „Búið rekur sig og svo rek ég mig. Svo hefur kærastan líka unnið úti. Staðan er bara þannig núna að ég vinn launalaust við búið,“ útskýrir Jón. Kærastan heitir Þorbjörg Helga Sigurðardóttir og er einnig flutt að Hrútatungu.

Jón Kristján Sæmundsson, 25 ára, er bóndi að Hrútatungu í Hrútafirði. Þegar afabróðir hans veiktist af krabbameini tók hann við búi hans. „Ég ætlaði nú kannski ekki að kaupa jörð strax en þarna var annaðhvort að hrökkva eða stökkva,“ segir Jón. Myndin var tekin þegar hann hlaut viðurkenningu fyrir tamningu þegar hann var við nám við bændaskólann.

„Maður verður bara að spýta í lófana“
Jón segist þó ekki sjá eftir því að hafa keypt jörðina og farið út í búskap. „Mér líður svo sem ágætlega með ákvörðunina, mér hefur gengið ágætlega. Afurðirnar eru að aukast, frjósemin hækkað og slíkt. Það sem ég get gert í þessu er að skila sér og hefur gengið vel það sem ég hef vald yfir,“ segir hann og bætir við að þótt hann vildi, væri það engin lausn að hætta búskapnum. „Maður getur eiginlega ekki hætt. Það er enginn til að kaupa ef maður skyldi vilja selja. Maður verður bara að spýta í lófana og halda áfram, eða það er það sem ég sé í þessu.
Það hlýtur að hækka verðið aftur, einhvern tíma. Vonandi.“

- Auglýsing -

Þau skötuhjúin sjá því fyrir sér að búa að Hrútatungu næstu fimmtíu árin eða svo. „Ja, allavega eitthvað svoleiðis,“ segir Jón og hlær. Honum þykir hann ekkert tiltölulega ungur til að vera orðinn bóndi, margir vinir hans frá Hvanneyri séu í svipuðum sporum. „Einn skólafélagi minn þaðan, yngri en ég, er nú að fara að taka við kúabúi foreldra sinna á Suðurlandi. Og ein skólasystir mín keypti kúabú rétt hjá Hólmavík nýlega, og það eftir að nýju búvörusamningarnir tóku gildi svo hún hlýtur að vita út í hvað hún er að fara,“ segir Jón og hlær aftur.

Ungir bændur hafa ef til vill ekki eins mikinn tíma eða tækifæri til að fara út á lífið eins og margir jafnaldrar þeirra í þéttbýlinu, saknar Jón þess ekkert? „Nei, það hefur ekkert háð mér. Ég djammaði mikið þegar ég var yngri en maður er bara búinn með mestan partinn af því.“

Hann segir eitt annað ungt par stunda búskap í Miðfirði en að öðru leyti eru ekki margir af nágrönnunum á svipuðum aldri og Jón. Hann segist finna fyrir stuðningi frá samfélaginu í kringum sig og síst af öllu sé reynt að gera lítið úr honum eða þekkingu hans á bústörfum þótt nýgræðingur sé. „Nei, ég hef ekki orðið var við það, frekar að þeir séu bara hjálpsamir. Ég myndi segja að ég væri nokkuð heppinn með nágranna og það er alveg nauðsynlegt í sveit.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -