Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Magapína, bros og takkaskór

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

HM í knattspyrnu er alvarlegt mál, upp á líf og dauða, segja sumir, og uppákomur og úrslit þessarar risavöxnu íþróttaveislu skipta fjölda fólks miklu máli á fjögurra ára fresti. En í miðjum ákafanum gerast stundum sniðugir eða jafnvel grátbroslegir hlutir. Mannlíf rifjaði upp nokkur skondin atvik úr sögu HM.

Gary Lineker.

1. Jimmy Greaves, HM í Chile 1962
Hundahvíslarinn
Tapleiks Englendinga gegn Brasilíumönnum í átta liða-úrslitum á HM 1962 er einna helst minnst fyrir það þegar flækingshundur hljóp inn á völlinn og hóf mikinn skopleik þar sem dómari og leikmenn beggja liða reyndu árangurslaust að klófesta hvutta. Það var ekki fyrr en Jimmy Greaves, ungur framherji Englands, fór á fjóra fætur, horfði í augu voffans og talaði hann til sín að leikurinn gat hafist að nýju, en þó ekki fyrr en hundurinn hafði launað Greaves greiðann með því að míga á treyjuna hans. Sagan segir að brasilíski snillingurinn Garrincha hafi verið svo hrifinn af hundinum að hann tók hann með sér eftir leik og hélt sem gæludýr.

2. Gary Lineker, HM á Ítalíu 1990
Upp á bak
Það kom ekki í ljós hversu skondið atvik átti sér stað í fyrsta leik Englendinga á HM 1990 gegn Írum fyrr en tuttugu árum síðar þegar aðalleikarinn, markahrókurinn Gary Lineker, sagði sjálfur frá því í viðtali. Lineker leið illa í maganum fyrir leik og var ennþá slappari í hálfleik, en ákvað að harka af sér með ófyrirséðum afleiðingum. Snemma í síðari hálfleik gerði hann tilraun til að tækla boltann, teygði fram löppina og slakaði svo á líkamanum … en örlítið of mikið. Þegar framherjinn gerði sér grein fyrir því að hann hafði í raun og veru kúkað á sig í miðjum leik á HM reyndi hann eftir fremsta megni að gera sem minnst úr málinu, greip megnið af leðjunni úr dimmbláum stuttbuxunum með lófanum svo lítið bar á og þurrkaði svo höndunum og afturendanum í grasið af og til næstu mínútur. Viðureigninni lauk með 1-1 jafntefli en Lineker sagði enga varnarmenn, hvorki fyrr né síðar, hafa veitt sér jafnmikið pláss til að athafna sig og þá írsku eftir þessa óheppilegu uppákomu í leiknum.

Diana Ross.

3. Diana Ross, HM í Bandaríkjunum 1994
Beint á ská
Hápunktur opnunarhátíðar HM í Bandaríkjunum 1994 var frammistaða tónlistargoðsagnarinnar Díönu Ross, eða sú var í það minnsta ætlunin. Að amerískum sið átti fyrir fram ákveðnum gjörningi söngkonunnar að ljúka með því að hún negldi knettinum af öllu afli í markið af vítapunktinum og við það átti markið að springa í loft upp og markstangirnar að hrynja saman, allt eftir Hollywood-bókinni. En skot Díönu var ekki hnitmiðaðra en svo að hún dúndraði lengst fram hjá. Markið féll engu að síður saman eins og ráðlagt hafði verið og úr varð hin vandræðalegasta uppákoma sem verður lengi í minnum höfð. Engum sögum fer af frekari afrekum Ross á knattspyrnuvellinum eftir HM 1994

4. Graham Poll, HM í Þýskalandi 2006
Gula hættan

Graham Poll.

Lokaviðureign F-riðils milli Króatíu og Ástralíu á HM 2006 var æsileg og mikill hiti í leikmönnum beggja liða, enda sæti í 16-liða úrslitum í húfi. Ringulreiðin var svo mikil að enski dómarinn Graham Poll þurfti að draga gula spjaldið alls átta sinnum úr vasa sínum og það rauða þrisvar, sem gerist á bestu bæjum. Verra var að Poll gerði þau sjaldséðu mistök að sýna sama leikmanninum, Króatanum Josip Simunic, gula spjaldið þrisvar sinnum í sama leiknum, fyrst á 38. mínútu, svo á 92. mínútu þegar Simunic hefði átt að fjúka út af, og loks fyrir kjaftbrúk þremur mínútum eftir lokaflautið, þegar rauða spjaldið fylgdi loks í kjölfarið. Vakti þetta mikla kátínu margra, en skömm hjá öðrum. Poll megnaði ekki að galdra fram neinar haldbærar skýringar á þessum alvarlegu mistökum aðrar en þær að Simunic, sem fæddist og ólst upp í Ástralíu, talaði með svo hnausþykkum áströlskum hreim að kannski hefði það ruglað hann í ríminu. Dómarinn dæmdi ekki fleiri leiki á mótinu og lagði stórmótaflautuna á hilluna skömmu síðar.

James Rodriguez.

6. James Rodriguez, HM í Brasilíu 2014
Skordýr á skor-dýri
Sjónvarpsáhorfendur um allan heim ráku upp stór augu þegar James Rodriguez skoraði eina mark Kólumbíu úr vítaspyrnu í 2-1 tapi gegn Brasilíu í átta liða úrslitum HM 2014. Þó ekki vegna spyrnutækni framherjans, heldur vegna þess að þegar hann stillti sér upp til að taka vítið tyllti óvenjurisavaxin engispretta sér á öxlina á honum og dvaldi þar í mestu makindum næstu mínútur með augu heimsbyggðarinnar á sér. Um fátt var meira rætt en engsiprettuna í kjölfar leiksins og er talið að vinsældir hennar hafi, í að minnsta um hríð, verið meiri en sjálfrar engisprettunnar Tuma úr ævintýrinu um Gosa.

- Auglýsing -

___________________________________________________________

Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas pistlahöfundur.

Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas pistlahöfundur
„Mér fannst brjálæðislega fyndið þegar dómarinn spreyjaði aukaspyrnufroðunni á skóna hans Bruno Martins Indi þegar Hollendingar rústuðu Spánverja 5-1 á HM 2014. Þetta var einn af fyrstu leikjunum í keppninni og enginn hafði séð þessa aukaspyrnufroðu fyrr.

Þegar Martins Indi stillti sér upp í varnarvegg spreyjaði dómarinn beint á nýju, fínu fótboltaskóna hans og hann varð svo innilega og yndislega reiður. Mjög sniðugt og frábær leið til að kynnast froðunni.“

- Auglýsing -
Hannes Þór Friðbjarnarson trommari.

Hannes Þór Friðbjarnarson trommari
„Kamerún komst í átta liða úrslit á HM 1990 og sýndi manni að ef leikgleði er fyrir hendi er allt hægt. Enginn skemmti sér betur á Ítalíu en Roger gamli Milla, sem var þá 38 ára gamall en leit út fyrir að vera fimmtugur. Það sem heillaði við mörkin fjögur hjá Milla voru fagnaðarlæti hans. Í hvert sinn sem boltinn söng í netinu hljóp okkar maður út að hornfána og tók laufléttan dans við fánastöngina, sem maður hafði ekki séð áður. Ungir knattspyrnumenn um allan heim fóru að leika þetta eftir og meira að segja okkar eigin Alfreð Finnbogason hefur tekið upp á þessu nokkrum sinnum, þrátt fyrir að hafa aðeins verið tveggja ára þegar Milla steig á stokk á Ítalíu. Góð spor lifa að eilífu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -