Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Magni sló ærlega í gegn í Rockstar Supernova: „Ég var fáviti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarútrás Íslendinga fór brösuglega af stað árið 2006 þegar enginn skildi brandarann að baki Silvíu Nótt í Júróvisjón keppninni sem haldin var í Grikklandi. Ágústa Eva var púuð niður af áhorfendum og komst ekki upp úr forkeppninni. Íslendingar voru svekktir.

Landinn hresstist þó mjög þegar leið á sumarið og fréttir bárust af því að ungur og dagfarsprúður Austfirðingur hefði verið valinn í fimmtán manna hóp til að taka þátt í bandarísku raunveruleikaþáttunum Rockstar:Supernova. Í keppninni börðust efnilegir söngvarar alls staðar að úr heiminum um hlutverk söngvara í hljómsveitinni nýtstofnuðu Supernova sem ekki var mönnuð minni mönnum en trommaranum Tommy Lee, úr Mötley Crue, gítarleikaranum Gilby Clarke úr Guns N’ Roses og Jason Newsted, fyrrum bassaleikari Metallica. Hér var um þungavigtarmenn að ræða.

Fjórir héldu í víking

Upphaflega höfðu fjórir Íslendingar haldið í víking vestur um haf í von um frægð og frama í þættinum. Það voru þau Hreimur Örn Heimisson úr Landi og sonum, Idolstjarnan Aðalheiður Ólafsdóttir, Kristófer Jensson úr Lights on the Highway auk ljúflingsins að austan, Magna Ásgeirssonar, sem hafði getið sér nafn sem söngvari sveitaballabandsins Á móti Sól. Magni var sá eini af fjórmenningunum sem komst áfram og komst hann í fimmtán manna lokahóp sem barðist um hið eftirsótta sæti söngvara Supernova.

Þættirnir voru sýndir á Skjá einum og ekki var mann að sjá á götum borgarinnar þegar Magni hóf upp raust sína, landi og þjóð til sóma. Nýtt óskabarn var fætt.

Dregur til tíðinda

- Auglýsing -

Magni varð fljótt gríðarlega vinsæll meðal stjórnenda keppninnar, áhorfenda svo og annarra keppenda en þeir bjuggu allir saman á veglegu setri. Hann skapaði sér fljótt orð fyrir að vera góðlyndur og skemmtilegur drengur, einlægur fjölskyldumaður með báða fætur á jörðinni. Í þáttunum var oft komið inn á söknuð Magna eftir syni sínum og sáu þáttastjórnendur sér augljóslega hag í tengingunni því þeir buðu Eyrúnu eiginkonu hans og syni óvænt í heimsókn til hans á setrið.

Eftir því sem leið á þættina varð fólki smám saman ljóst að Magni gæti unnið keppnina og orðið stórstjarna í kjölfarið. Spennan jókst og sameinaðist þjóðin sem aldrei fyrr í að tryggja að Magni félli ekki úr keppni. Farsímafyrirtækin duttu hvert um annað í tilboðum á textaskilaboðum.

Magni allra landsmanna

- Auglýsing -

Ekki fór svo að Magni ynni keppnina. Sá heiður hlotnaðist Kanadamanni nokkrum, Lukas Rossi, sem samkvæmt fljótunninni vefleit, virðist hafa gengið vel á tónlistarferlinum á þeim fimmtán árum sem liðið hafa.

Magni lenti í fjórða sæti.

Eins og þá var vaninn var efnt til veglegrar móttökuhátíðar í Smáralind þar sem átta þúsund manns öskruðu sig hása þegar söngvarinn knái gekk inn. Það var augljóst hver var sigurvegari keppninnar að mati áhorfenda.

Smám saman fór þó að halla undan fæti fyrir nýja ofurbandinu Supernova. Þeir félagar urðu að gefa eftir nafnið eftir að pönksveit frá Kalifornu sem bar saman nafn fór í mál við þá. Breyttu þeir þá nafninu í Rockstar Supernova og gáfu út breiðskífu sem var illa tekið jafnt af almenningi og gagnrýnendum. Tæplega tveimur árum síðar voru allir hljómsveitarmeðlimir farnir hver í sína áttina.

„Ég var fáviti“

Til stóð að Magni færi ásamt þremur meðkeppendum sína í stóra tónleikaferð um Bandaríkin við undirleik húshljómsveitarinnar sem spilað hafði í þættinum. Aldrei varð af því vegna kostnaðar. Í viðtali við Vísi í október 2006 sagðist Magni vera sár og svekktur en væri með önnur verkefni í burðarliðnum.

Magni hélt áfram að syngja með hljómsveit sinni, Á móti Sól, gaf út sólóplötuna „Magni” árið 2007 og hefur nokkrum sinnum þátt í undankeppnum Júrósvisjón.

Hann rifjaði upp keppnina tíu árum síðar í samtali við Austurgluggann. Þar kveðst Magni í raun muna sáralítið eftir þeim tíma þegar hann tók þátt í Rockstar Supernova en það tímabil spannaði allt í allt fjóra mánuði. Þá kvaðst hann lítið hafa orðið var við gífurlegar vinsældir þáttarins á meðan á þátttöku hans stóð. „Við áttuðum okkur ekki á því enda í einhverri lokaðri kúlu og fengum ekkert að vita.“

Hann sagðist hafa orðið snarruglaðir eftir að kúlan sprakk. „Ég var farinn að finna fyrir þessu síðustu vikurnar úti og labbaði svo algerlega á vegg þegar þessu lauk, var líklega orðinn alveg bullandi þunglyndur. Ég var alveg hálft ár að ná að fúnkera aftur, bara að fara í vinnuna og lifa eðlilegu lífi,“ sagði Magni jafnframt og bætti því við að jafnframt hafi þetta haft slæm áhrif á sambandið og slitu hann og Eyrún samvistum um tíma.

„Við skildum um stund af því ég var fáviti. Ég elti hana og sem betur fer tók hún við mér aftur enda er Eyrún yndislegasta manneskja sem ég þekki og ég hlakka til að eyða ævinni með henni.“

Magni og Eyrún búa í dag á Akureyri ásamt fjórum sonum sínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -