Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Þekkt þöggun Þjóðkirkjunnar vegna máls Ólafs Skúlasonar: „Ég kalla þetta tilraun til nauðgunar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrri part ársins 1996 varð eitt mesta fjölmiðlafár síðari tíma þegar biskup Íslands, Ólafur Skúlason, var borinn þeim sökum að hafa áreitt nokkrar konur þegar hann var prestur í Bústaðakirkju. Í forsíðuviðtali við DV í mars 1996 sagði ein þeirra, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, sögu sína í fyrsta sinn undir nafni.

Upphaf umfjöllunarinnar má rekja til þess að Sigrún Pálína kærði séra Vigfús Þór Árnason, sóknarprest í Grafarvogi, til siðanefndar Prestafélags Íslands fyrir að hafa brugðist sér. Sigrún Pálína hafði trúað biskupi fyrir því að séra Ólafur Skúlason hefði áreitt sig. Vildi hún að Vigfús tæki málið upp við aðra presta. Það gerði hann ekki. DV komst á snoðir um kæruna. Gísli Kristjánsson blaðamaður fjallaði um hana í blaðinu. Þar með fór af stað umfjöllun sem átti eftir að standa til ársins 2010 með stuttum hléum.

 

Dóttir stígur fram
Guðrún Ebba Ólafsdóttir sendi Þjóðkirkjunni bréf og lýsti því að faðir hennar hefði misnotað hana. Þáverandi yfirstjórn sat mánuðum saman á bréfinu.

Fleiri meint fórnarlömb biskupsins sögðu svipaða sögu. Biskup Íslands þvertók fyrir að framburður Sigrúnar Pálínu og annarra vitna væri sannleikanum samkvæmt. Sannkallað fjölmiðlafár upphófst í framhaldinu. Í fyllingu tímans hrökklaðist biskupinn úr embætti.

Hjónabandserfiðleikar

Í viðtalinu við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttir kom fram að Ólafur hefði gefið hana og  fyrrverandi eiginmann hennar saman. Þegar hún lenti í hjónabandserfiðleikum leitaði hún til prestsins sem sálusorgara. „… Ég hitti hann fjórum sinnum og hann virkaði á mig sem góður maður og það var gott að tala við hann …,“ sagði Sigrún Pálína um atburðarásina 17 árum fyrr þegar hún, þá 22 ára, leitaði ásjár prestsins.

Skellti í lás

Hún segist hafa trúað honum fyrir því að hún hefði lent í kynferðislegri áreitni sem barn. Þau áttu nokkra fundi um erfiðleikana. Á fjórða fundinum, sem var að kvöldi til, lýsti Sigrún Pálína því að biskupinn hefði látið til skarar skríða. „Þá stakk hann upp á því að sýna mér skrúðhúsið þar sem hann sýndi mér messuklæðin,“ sagði Sigrún Pálína við DV. Þaðan lá leið biskups og sóknarbarns inn á skrifstofu prestsins. „… Í sömu andrá skellti hann í lás og ég sá að ég var stödd inni í læstu, gluggalausu herbergi. Að sinni ætla ég ekki að lýsa því hvað gerðist þarna,“ sagði hún og vildi ekki útskýra í smáatriðum hvað hefði gerst.  „Ég ræði málið núna fyrst og fremst til að svara þeim ósannindum sem Ólafur Skúlason kom fram með í sjónvarpinu,“ sagði Sigrún Pálína árið 1996.

- Auglýsing -

– Var þetta kynferðisleg áreitni? spurði blaðamaðurinn. „Ég kalla þetta tilraun til nauðgunar. Þegar viðkomandi neytir aflsmunar til að koma fram vilja sínum og fórnarlambið þarf að beita afli til að komast undan er farið yfir mörkin á milli kynferðislegrar áreitni og nauðgunartilraunar,“ sagði hún.

Áfall

Sigrún Pálína segist hafa orðið fyrir miklu áfalli við þennan atburð. „Ég komst út úr kirkjunni, fór heim og brotnaði alveg niður. Ég skalf og grét alla nóttina. Ég sagði minum nánustu frá þessu en það var alls staðar sama svarið: „Þú getur ekkert gert, þetta er orð á móti orði.““

Eftir að DV opnaði málið var það til umfjöllunar í öllum fjölmiðlum. En kirkjan þverskallaðist við að gera eitthvað í málinu. Málið reyndist Sigrúnu Pálínu erfitt og hún flutti til Danmerkur. Hún virtist hafa tapað fyrir biskupi.

- Auglýsing -

Eftir mikið fjölmiðlafár árið 1996 minnkaði áhugi almennings. Ólafur biskup hætti síðar án þess að viðurkenna sök og Karl Sigurbjörnsson varð biskup. Það er kaldhæðni örlaganna að Karl hafði komið að máli forvera síns á frumstigi og var sakaður um þöggun. Og málið átti eftir að reynast honum dýrkeypt.

Guðrún Ebba stígur fram

Fjórtán árum eftir að DV tók málið upp kom það upp aftur. Dóttir Ólafs Skúlasonar, Guðrún Ebba, hafði leitað á náðir kirkjunnar og lýst því að faðir hennar hefði áreitt hana.

Saga Guðrúnar Ebbu var skráð. Þar komu fram ásakanir á föður hennar.

Erindi hennar var ekki sinnt. Hún hafði ritað kirkjunni bréf sem var ósvarað mánuðum saman. Loks óskaði hún eftir fundi með Karli Sigurbjörnssyni. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður fékk þetta staðfest. DV birti forsíðufrétt árið 2010, tveimur árum eftir andlát Ólafs Skúlasonar, og annað fjölmiðlafár hófst.

Þá varð niðurstaðan sú að kirkjan setti af stað rannsóknarnefnd. Niðurstaðan nefndarinnar varð til þess að kirkjan greiddi konunum bætur áratugum eftir að meint brot áttu sér stað. Karl hætti sem biskup árið 2012.

Óhætt er að fullyrða að málið varð Þjóðkirkjunni dýrkeypt. Mikill fjöldi hafði sagt sig úr kirkjunni sem var um tíma trausti rúin og hefur enn ekki rétt úr kútnum.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst á Mannlíf þann 13. september síðastliðinn.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -