Hinn frábæri fjölmiðlamaður, Þorkell Máni Pétursson – Máni – segir frá því á Facebook-síðu sinni að hann sé að kveðja SÝN.
„Kæru vinir og vandamenn. Um síðustu mánaðarmót lauk ég formlega störfum hjá SÝN (áður (Aflvakinn, Fínn miðill, íslenska útvarpsfélagið, 365 ofl skemmtilegt).“
Bætir við:
„Þetta hefur verið áhugavert ferðalag í rúm 25 ár. Oftast skemmtilegt. Ég kveð alla í mikilli vinsemd og kærleik.“
Segir um framtíðina:
„Framtíðarplönin eru að sinna þessu litla Paxal fyrirtæki mínu og þeim frábæru artistum sem þar eru. Vera aðeins duglegri að markþjálfa og taka ekki 10 ár í að skrifa næstu bók.
Til að svala fjölmiðlaþörfinni og þeirri bakteríu sem hún er ætla ég að sjálfsögðu að halda úti hlaðvarpinu mínu sem heitir einfaldlega Máni og er hægt að finna á tal.is og gerast áskrifandi. Þar kemur hann Gunnar Sigurðarson og stjórnar einum þætti með mér og stundum ræði ég fótbolta og almennt bara eitthvað bull. Þetta er algerlega twitter frír þáttur. Þannig að leiðindi eru í lágmarki. Ég vil þakka fyrrum starfsfélögum fyrir samstarfið. Þið eruð öll frábær.“