Mánudagur 9. september, 2024
3.3 C
Reykjavik

Mannkynið gengur sofandi inn í stórslys

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stærsta málið sem heimurinn stendur frammi fyrir eru loftslagsbreytingar. Allt annað bliknar í samanburði þegar mögulegar afleiðingar hlýnunar jarðar yfir 2°eru skoðaðar.

Myndin hér til hliðsjónar gefur ákveðnar vísbendingar, gerð af hópnum CarbonBreif byggt á gögnum frá meðal annars IPCC (International Panel on Climate Change) sem starfrækt er af Sameinuðu þjóðunum.  Sú hækkun dreifist ekki jafnt um heiminn, heldur verða heit svæði hlutfallslega mun heitari. Allt stefnir í að það verði raunin enda eru ríki heimsins ekki að taka þetta nógu föstum tökum og 1,5° viðmið Parísarsamkomulagsins að verða fjarlægari draumur. Með allar þessar upplýsingar mætti halda að við værum að draga úr losun gróðurhúslofttegunda en gögn sína fram á að svo er ekki. Kol eru þó stærsti sökudólgurinn.

Fyrir tveimur mánuðum gaf World Economic Forum út sína árlegu skýrslu um strærstu áhættur sem heimurinn stendur frammi fyrir. Hættur sem leiða af stöðu umhverfismála í heiminum tróna á toppnum. Í inngangi segir beint út að mannkynið gangi sofandi inn í stórslys. Á listanum yfir mestu áhættuna eru loftslagsbreytingar. Hér eru ótaldar áhætturnar vegna breytinga á vistkerfum. Þetta er í samræmi við það sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur kallað helstu ógn við mannkynið. Ekki hungur, ekki stríð – heldur loftslagsbreytingar.

Áhrif hlýnunar jarðar eru fjölbreytt. Mesta hættan er fólgin í ýmis konar ofsaveðri samkvæmt skýrslunni. Athygli vekur að skortur á stefnumótun við að takast á við umhverfismálin fylgir þar fast á eftir. Fæðuöryggi og framleiðsla er annar þáttur. Sérstök athygli er vakin á áhrif hækkunar sjávarmáls fyrir margar borgir heimsins. Um 70% af íbúum heimsins munu búa í borgum árið 2050. Nú þegar er talið að um 800 milljónir manns búi í strandborgum þar sem sjávarmálshækkun er áætluð um hálfur metri árið 2050 sem leiðir af sér margskonar vanda. Rétt er að taka fram að áætluð sjávarmálshækkun árið 2050 er mun meiri en hálfur metri fyrir margar borgir líkt og New York, Miami, Haag, Alexandríu og Hong Kong. Þéttbýlisþróun ýtir svo undir hættuna þar sem innviðir borgar eru mjög tengdir. Hækkun sjávar hefur því smitáhrif svo sem áhrif á mörg vatnsból og innviði sem íbúar eru háðir svo sem vegi, ræsi og skólp, raflagnir og svo framvegis.

Loftslagsbreytingar og aðgerðir sem þarf til að mæta breyttum heimi þurfa sterka pólitíska forystu. Aðgerðir kalla eftir festu, framtíðarsýn og skipulagningu langt fram í tímann. Opinber kerfi eru almennt ekki hönnuð fyrir 50 ára skipulagningu og langtímaáætlunargerð sem loftslagsbreytingar krefjast er ekki beint sá raunveruleiki sem við búum við. Vandinn sem stafar af hlýnun jarðar er af alþjóðlegum toga þar sem ekki er spurt um landamæri og afleiðingar dreifast ójafnt um jörðina. Þær þjóðir sem losa nú mest og sögulega af gróðurhúsalofttegundum eru t.d. ekki að fara upplifa verstu afleiðingarnar.  Lausnirnar – þær þarf hins vegar að inna af hendi á heimavelli. Áherslan á Íslandi er einna helst endurheimt votlendis og orkuskipti í vegasamgöngum, samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þá er talsvert um tal á sviði umhverfismála en einfaldir hluti – líkt og að banna einnota plastpoka hefur ekki verið klárað. Það mál tengist ekki loftslagsbreytingum en er dæmi um tiltölulega einfalt mál í framkvæmd sem hefur ekki hlotið framgöngu. Vitaskuld á það að vera mun yfirgripsmeira mál en bara að ná til poka, enda erum við að horfa of einangrað á málið með fókusinn þar.  Löggjafinn á að banna allt einnota plast. Styðja við nýsköpun í umbúðum sem brotna niður í umhverfinu í leiðinni og að lokum minnka allar þessar endalausu umbúðir almennt. Plast eður ei.

Forsendur til þess að fara úr jarðefnaeldsneyti á Íslandi eru góðar vegna þess hvað aðgengi að endurnýjanlegri orku er gott. Það eru líka teikn á lofti um að almenningur vilji í auknu mæli kaupa rafbíla, þó þeir séu dýrari í upphafi þá geta þeir verið ódýrari til lengri tíma vegna orkureksturs. Því á að keyra á orkuskipti í vegasamgöngum með mun afgerandi hætti en áætlanir gera ráð fyrir og banna nýskráningar dísel og bensínbíla sem fyrst. Sumir hafa nefnt við mig að það sé róttækt. Það finnst mér ekki. Það er róttækni að taka þetta ekki föstum tökum, sem og mögulega mannréttindabrot gagnvart komandi kynslóðum. Hæstiréttur Hollands komst að þeirri niðurstöðu um daginn að markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun væri ekki nægilega hátt miðað við þau vísindi sem liggja fyrir. Samkvæmt niðurstöðu dómsins þarf ríkið einfaldlega að gera betur. Rétt er að geta þess að fyrirliggjandi markmið voru þó hærri í Hollandi en hér á landi.

- Auglýsing -

Áhrif loftslagsbreytinga verða ekki eins alvarleg og afdrifarík á Íslandi líkt og víða annars staðar samkvæmt sérfræðingum. Þó að Ísland sé eyland, erum við ekki eyland í þeim skilningi að okkar lifnaðarhættir eru háðir ytri aðstæðum, alþjóðasamfélaginu. Í dag byggir okkar lifibrauð að stærstum hluta á auðlindanotkun – komu ferðamanna og sjávarútvegi. Loftslagsbreytingar geta haft skaðleg áhrif á þessa tvo iðnaði.

Það er varla hægt að segja að mannkynið ætli að fara sofandi inn í stórslys, þó að World Economic Forum setji það þannig fram. Ef þetta heldur áfram svona ætlar maðurinn að láta sér í léttu rúmi liggja, eins og við segjum í lögfræðinni, að sigla sofandi inn í stórslys af því hann er ekki að gera nauðsynlegar breytingar á sínum lífshögum, markaðs- og neysluhyggju sem þörf er á í ljósi vísinda. Einkum er það ákvörðunin að fara úr notkun á jarðefnaeldsneyti og undirbúa okkur fyrir kolefnislausa veröld sem þarf sterka forystu og að draga úr neyslu. Ég get persónulega vottað að það er áskorun að breyta lifnaðarháttum sínum í átt að aukinni sjálfbærni á öllum vígstöðvum. Það er hins vegar nokkuð skemmtileg áskorun, þó samviskubitið sé algengara. Það væri þó mun auðveldara ef samfélagið, bæði hið opinbera og einkaaðilar ynnu með markvissum hætti að því markmiði og gerði borgurum auðveldara fyrir með margskonar hætti eins og öflugum samgöngum, frekari uppbyggingu deilihagkerfis, fjárfestingu í tækni sem einblínir á sjálfbærar lausnir, jafnvel með beinum ívilandi hætti svo sem fjármunum til að aðstoða okkur við breytta lifnaðarhætti og öðrum stýringartækjum sem löggjafinn einn hefur yfir að ráða.

Að vera græna landið er líka sjálfstætt, gott og fallegt markmið að stefna að. Gefandi fyrir hjartað. Sjálfbærni á að vera rauði þráðurinn í öllum aðgerðum nú. Hjá hinu opinbera og einkaaðilum. Að minnsta kosti eru það slæm örlög að vera kynslóðin sem sigldi með opin augun inn í stórslys. Ég fyllist stolti að horfa á ungu kynslóðina sem ætlar að gera sitt til að stoppa það.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -