Mannlíf í sorg og gleði

Deila

- Auglýsing -

Nú er sumar og þá er gott að njóta þess að lesa. Í hröðum heimi tækni og eilífra breytinga er gott að geta gripið niður í bók því á meðan stendur tíminn í stað. Sagan grípur og flytur lesandann ýmist fram eða aftur í tíma.

Litrík æska vísindamanns

 

Ævar vísindamaður er börnum þessa lands að góðu kunnur, enda kann hann að gera áhugaverðar og fræðandi tilraunir í sjónvarpi. Bækurnar um bernskubrek hans eru ekki síður vinsælar og ef marka má það sem þar kemur fram hefur æska hans verið viðburðarrík, skemmtileg og ansi hreint skrautleg.

Óvænt endalok.

Í nýjustu bókinni um hann Óvænt endalok, hendist vísindamaðurinn upp á hálendi Íslands og tekst þar á við nýjustu tækni sem farið hefur úr böndunum. Ævar kann sannarlega að byggja upp spennu, hann er fyndinn og textinn einstaklega lipur og líflegur. Þetta er frábær bók fyrir stálpaða krakka og foreldra þeirra. Útg. Mál og menning

Ást og söknuður

Á heimsenda.

Á heimsenda eftir Dagnýju Maggjýar lýsir viðleitni dóttur til að fá  móður sína aftur eftir sú síðarnefnda sviptir sig lífi. Þetta er sönn saga og enn átakanlegri fyrir vikið. Magnea Guðný Stefánsdóttir er sextug, lífsglöð kona og langar að líta betur út. Hún fer því í aðgerð til að laga slitför á maganum en vaknar upp svo heltekin af þunglyndi að ekkert nær að létta því.

Börnin hennar og eiginmaður standa ráðalaus hjá meðan veikindin aukast og að hún nær að lokum að fremja sjálfsvíg í þriðju tilraun. Bókin er einstaklega vel skrifuð á kjarngóðu og fallegu íslensku máli þótt það sé svolítið leiðinlegt að textinn er ekki nógu vel prófarkalesinn. Lýsingar Dagnýjar á uppvexti og æsku móður sinnar eru einstaklega vel unnar og gefa innsýn í veröld sem nú er löngu horfinn. Þótt vissulega virðist að þunglyndið hafi snögglega náð tökum á Magneu er samt ljóst að hún hefur þurft að glíma við margvísleg áföll og erfiðleika allt frá fæðingu. Hér er svo margt sagt sem þörf er á að veita út í umræðuna og örlagasaga þessarar konu svo mögnuð að enginn getur lesið þessa bók ósnortinn. Útg. Dagný Maggjýar

Útlaginn ráðagóði

Engin málamiðlun eftir Lee Child.

Engin málamiðlun eftir Lee Child er nýjasta bók hans um útlagann og fyrrum herlögreglumanninn Jack Reacher. Að þessu sinni ákveður hann að fara úr lestinni í smábæ sem heitir Mother’s Rest. Nafnið vakti áhuga hans en fljótlega verður ljóst að líkt og venjulega hefur Jack stigið inn í dularfulla atburðarás.

Þessi persóna er hinn dæmigerði ameríski útlagi vestranna. Hann ferðast einn, er afburðasnjall rannsakandi og slagsmálahundur en réttlætiskenndin rekur hann ætíð til að hjálpa þeim sem um sárt eiga að binda. Michelle Chang leitar félaga síns, einkaspæjarans Keevers sem er horfinn en sást síðast í Mother’s Rest. Útg. JPV

Heima er best eða hvað?

Heima eftir Marilynne Robinson.

Þegar skáldsagan Gilead eftir Marilynne Robinson kom út hefðu flestir spáð henni slöku gengi. Sagan tekst á við ýmsar trúarlegar spurningar, efann og þær kvaðir sem trúin leggur á menn. Í forgrunni er náðin og fyrirgefningin. Geta menn breyst og ef þeir iðrast er náðin þá nóg til að bjarga þeim? Heima segir sögu sama fólks frá öðru sjónarhorni, Glory, aðalpersónan er yngri systir Jack Broughtons. Alkóhólista sem frá æsku hefur verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni, sá sem alltaf var í vandræðum og olli vonbrigðum.

Glory er snúin aftur til Gilead til að hugsa um föður þeirra, gamlan prest í ellinni þegar Jack boðar komu sína heim. Systkinin eiga sér bæði leyndarmál og berjast við sorg en þau geta ekki talað um hana. Að þessu sinni þarf lesandinn að spyrja sig hvað gerir hús að heimili og hvað er fjölskylda? Hvað bindur okkur öðrum manneskjum og hvernig getum við nýtt okkur stuðning og ást fjölskyldunnar? Kannski er það engum að kenna að einhver einn kemur aldrei til með að tengjast fullkomlega, tilheyra hinum. Þetta er mögnuð saga, skrifuð á lágstemmdan áhrifamikinn hátt. Útg. Ugla.

- Advertisement -

Athugasemdir