Sunnudagur 29. maí, 2022
12.1 C
Reykjavik

Mannlíf tilnefnir: „Hástökkvari atvinnulífsins“ 

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hlutabréfamarkaðir eru í hæstu hæðum á heimsvísu um þessar mundir og íslensk fyrirtæki hafa flest vaxið og dafnað á árinu. Mannlíf hefur tilnefnt fimm forstjóra á Íslandi sem „Hástökkvara atvinnulífsins“ og er þá horft til verðmæta sem þeir hafa skapað fyrir sína hluthafa, starfsmenn og viðskiptavini. 

Álitsgjafar Mannlífs telja „veðurspá“ íslenska hagkerfisins góða um þessar mundir og að þess megi vænta að áhrif kórónuveirunnar fari ört minnkandi. Að mati álitsgjafa Mannlífs hafa Arion banki, Kvika banki, Síldarvinnslan, Eimskip og Alvotech skarað fram úr á árinu sem er að líða. Ekkert fyrirtæki virðist hafa náð eins góðum árangri undanfarið og líftæknifyrirtækið Alvotech sem tilkynnti í vikunni um fyrirhugaða skráningu á hlutabréfamarkað. Jafnframt hefur endurfjármögnun fyrirtækisins verið tryggð og því gert kleift að halda áfram þróun líftæknilyfja. Ekkert íslenskt fyrirtæki virðist hafa skilað eins miklum verðmætum til hluthafa og líftæknifyrirtækið Alvotech sem er líklegt til að halda áfram að skapa störf hér á landi. Mark Levick er forstjóri Alvotech og leiðir öflugan stjórnendahóp fyrirtækisins. Róbert Wessman er stjórnarformaður og hefur tekið virkan þátt í stefnumótun fyrirtækisins.

|
Eigendur Arion banka geta glaðst.

Benedikt Gíslason – Arion banki: 285 milljarðar króna (+102%)

Benedikt á langa sögu í bankaheiminum og hefur starfað fyrir flest stærstu fjármálafyrirtækin hér á landi. Hann hefur verið bankastjóri Arion banka í rúm tvö ár og tók við af hinum umdeilda Höskuldi Ólafssyni. Undir stjórn Benedikts hafa umsvif bankans minnkað frá því sem áður var og erfiðar ákvarðanir verið teknar um fækkun starfsfólks, lokun útibúa og „óarðbærum viðskiptavinum“ vísað frá. Mannlíf greindi fyrst fjölmiðla frá því þegar Arion banki sagði upp 10% starfsfólks bankans á einu bretti. Á sama tíma hefur bankinn greitt tugi milljarða króna í arð til hluthafa og í raun umturnað rekstri bankans. Hluthafar Arion banka fara væntanlega glaðir inn í hátíðarnar en virði
hlutabréfa bankans hefur ríflega tvöfaldast á árinu og stendur nú í um 285 milljörðum króna. Ekkert fyrirtæki á hlutabréfamarkaði hér á landi hefur hækkað eins mikið og Arion banki á árinu.

Gunnþór Ingvarsson – Síldarvinnslan: 170 milljarðar króna (+54%)

Gunnþór leiddi Síldarvinnsluna inn á hlutabréfamarkað í apríl á þessu ári. Ljóst er að mikil eftirspurn var eftir öðru sjávarútvegsfyrirtæki og hluthafar hafa tekið fyrirtækinu fagnandi. Síldarvinnslan er nú í hópi verðmætustu fyrirtækja á hlutabréfamarkaði og kemur inn í Úrvalsvísitöluna um áramót. Fyrirtækið er í dag 170 milljarða króna virði og hefur hækkað um 54% á árinu. Stærsta eign fyrirtækisins eru aflaheimildir, en ætla má að raunvirði þeirra sé nálægt helmingur af markaðsvirði Síldarvinnslunnar. Nýlega var úthlutað nýjum loðnukvóta sem styrkir rekstur fyrirtækisins enn frekar og hagkerfið í heild sinni. Gunnþór er einn af hástökkvurum ársins að mati álitsgjafa Mannlífs og áhugavert verður að fylgjast með fyrirtækinu vaxa og dafna.

 

- Auglýsing -

Marinó Örn Tryggvason – Kvika banki: 127 milljarðar króna (+54%)

Bankastjórinn þykir hafa staðið sig einstaklega vel á þeim ríflega tveimur árum sem hann hefur sinnt starfinu. Forveri hans, Ármann Þorvaldsson, þótti ekki heppilegur í „frontinn“ enda var hann í lykilhlutverki Kaupþings fyrir hrun. Kvika banki hefur hækkað um 54% á árinu og er markaðsvirði hans nú að nálgast 127 milljarða króna.  Stjórnendur Kviku banka hafa einnig notið góðs af hækkandi hlutabréfaverði í gegnum umfangsmikið og umdeilt kaupréttarkerfi. Sérstaklega hefur borið á sölu bréfa og hagnaðartöku framkvæmdastjóranna, Baldurs Stefánssonar og Hannesar Frímanns Hrólfssonar. Þeir hafa selt kauprétt sinn í bankanum nær undantekningarlaust þegar færi skapast. Hagnaður æðstu stjórnenda bankans á þessu ári nemur nemur hundruðum milljóna króna en hluthafar bankans hafa einnig hagnast myndarlega og stjórnendur hafa háleit markmið. Hluthafar íslensku bankanna ætti allir að geta fagnað áramótum með bros á vör enda hafa Kvika banki, Arion og Íslandsbanki allir skilað myndarlegri ávöxtun á árinu sem er að líða.

- Auglýsing -

Mark Levick – Alvotech: 295 milljarðar króna (+50%)

Mark er forstjóri íslenska líftæknifyrirtækisins Alvotech og er fæddur á Nýja-Sjálandi. Hann er fimmti forstjóri Alvotech og hóf störf í ágúst 2019. Hann er eini „hástökkvarinn“ að þessu sinni sem er ekki í forsvari fyrir fyrirtæki á hlutabréfamarkaði. Alvotech hefur gert stóra samstarfssamninga við erlend lyfjafyrirtæki og starfsmannafjöldi hefur tvöfaldast frá því hann hóf störf. Mark er ekki á flæðiskeri staddur þar sem stofnandi Alvotech, Róbert Wessman, hefur ásamt öðrum hluthöfum veitt honum traust bakland. Vonast er til þess að Alvotech verði skráð á hlutabréfamarkað hér á landi á nýju ári og geti þar með orðið annað verðmætasta fyrirtæki landsins, á eftir Marel, með vænt markaðsvirði um 295 milljarða króna. Útlit var fyrir að markaðsvirði Alvotech yrði enn hærra miðað við yfirlýsingar stjórnenda sem töldu það 370 milljarða króna virði fyrir stuttu. Svo var þó ekki og nýir fjárfestar mátu það um 235 milljarða króna virði fyrir væntanlega hlutafjáraukningu sem tilkynnt var í vikunni. Verðmætaaukning Alvotech byggist á fjölmörgum þáttum og telja álitsgjafar Mannlífs fyrirtækið geta skapað margvísleg verðmæti og tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir. Mark Levick hlýtur því nafnbótina „Hástökkvari ársins 2021“ fyrir hönd starfsmanna Alvotech og fær sérstaka viðurkenningu
Mannlífs í tilefni þess.

Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskipa.

Vilhelm Már Þorsteinsson – Eimskip: 87 milljarðar króna (+92%)

Vilhelm tók við starfi forstjóra í janúar 2019 en hann hafði áður starfað hjá Glitni og Íslandsbanka í tuttugu ár. Stjórnarformaður Eimskipa, Baldvin Þorsteinsson, er náfrændi forstjórans en Samherji hefur malað gull á fjárfestingu sinni í fyrirtækinu, sem og aðrir hluthafar. Rekstur Eimskipa hefur tekið miklum stakkaskiptum eftir stormasöm ár Gylfa Sigfússonar í stóli forstjóra, sem litaðist af sektum og skærum við Samkeppniseftirlitið. Markaðsskilyrði fyrir skipafélag í dag er einstaklega gott en verð á flutningum er í hæstu hæðum sem endurspeglast í methagnaði. Útlit er fyrir að rekstur Eimskipa verði áfram sterkur og fyrirtækið kemur inn í Úrvalsvísitöluna um áramót. 

Forsvarsmenn ýmissa annarra fyrirtækja rötuðu á lista álitsgjafa Mannlífs og má þar nefna Heiðar Má Guðjónsson, forstjóra Sýnar, Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Jón Björnsson, forstjóra Origo.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -