Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Mannlífsárið 2020 – Bakvörður, gjaldþrot, morð, innherjar, harmleikir og dauðagildrur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf óskar öllum gleðilegrar hátíðar. Ritstjórn Mannlífs þakkar lesendum sínum góða samleið og stóraukinn lestur á árinu.

Fjölmargar fréttir og viðtöl Mannlífs vöktu mikla athygli og var miðillinn leiðandi í stórum fréttamálum á árinu. Það er því við hæfi að taka saman árið með augum Mannlífs með áherslu á þær fréttir og viðtöl þar sem Mannlíf ýmist sagði fyrst frá eða var leiðandi í fréttaflutningi mála. Hér koma nokkur dæmi.

Farvel fór í þrot

Viktor Sveinsson, eigandi Farvel var ákærður fyrir skattsvik.

Mannlíf greindi fyrst frá því þegar ferðaskrifstofan Farvel varð gjaldþrota og bjarga þurfti fjölda íslenskra strandaglópa heim til Íslands. Þá sögðum við fréttir af því þegar lögregla hóf rannsókn á gjaldþrotinu, ræddum við óttalausan eiganda ferðaskrifstofunnar og þegar eigandinn var ákærður fyrir skattsvik.

Arion banki sektaður vegna fréttar Mannlífs

|
Arion banki fékk á baukinn vegna frétta Mannlífs.

Fjármálaeftirlitið sektaði Arion banka um 87,7 milljónir króna á grundvelli þess að bankinn hafi ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímanlega. Mannlíf hafði þá nokkrum dögum áður birt frétt um fyrirhugaðar uppsagnir bankans og hafði fyrir því áreiðanlega heimildarmenn. Arion banki taldi að sér væri heimilt að nýta heimild í lögum til að fresta birtingu umræddra upplýsinga er varðaði skipulagsbreytingar og hópuppsagnir. FME féllst ekki á sjónarmið bankans og bauð 87,7 milljóna sekt sem sátt í málinu. Á það féllst Arion banki ekki og mun freista þess að áfrýja sektinni.

- Auglýsing -

Bakvörðurinn frægi

|
Anna Aurora Waage. Mynd / Skjáskot af Twitter|Anna Aurora Waage. Mynd / Skjáskot af Twitter

Mannlíf var leiðandi í umfjöllun um bakvörðinn fræga, Önnu Auroru Waage Óskarsdóttur sem sökuð var um að villa á sér heimildir í Covid-bakvarðarsveit sem send var til Vestfjarða í fyrstu bylgju faraldursins. Við ræddum meðal annars við Önnu eftir handtökuna en hún hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Þá greindum við frá niðurstöðu máls þar sem bakvörðurinn slapp við ákæru og boðar skaðabótamál.

Séra Skírnir gegn Agnesi

- Auglýsing -
Skírnir Garðarson. Myndin / Kristinn Magnússon Stundin

Mannlíf hefur leitt umfjöllun um málefni Séra Skírnis Garðarssonar, fyrrverandi héraðsprests á Suðurlandi, gegn Agnesi Sigurðardóttur, biskupi Íslands, og Þjóðkirkjunni sem hún stýrir. Skírnir hefur höfðað mál vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir vegna færslu í embætti árið 2015, í kjölfar þess að hann kvartaði undan því að hafa verið beittur einelti og svo ólögmætum brottrekstri fyrr á árinu. Hann fer fram á nærri tíu milljónir í miska- og skaðabætur.

Play tekur flugið

|
Play bíður enn átekta vegna Covid-19 en líkur á því að það fari af stað með vorinu.

Mannlíf greindi fyrst frá því að hið væntanlega flugfélag Play væri búið að tryggja sér langtímafjármögnun og stefndi á að hefja flug með haustinu. Þá greindum við frá breyttu eignarhaldi félagsins með innkomu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns og einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates. Hann varð aðaleigandi Play-flugfélagsins eftir að brúarlánum hans til félagsins var breytt í hlutafé.

Mistökin mannskæðu hjá Krabbameinsfélaginu

Umræðan um mistökin hræðilegu hjá Krabbameinsfélaginu fór af stað eftir að Mannlíf greindi frá andláti Reynheiðar Þóru sem lést úr krabbameini eftir að hafa verið vitlaust greind í skimun hjá félaginu.

Reynheiður greindist með krabbamein rúmum tveimur mánuðum eftir að faðir hennar lést úr sjúkdómnum. Hún lét eftir sig eiginmann og tvö börn.

Grunur leikur á að mistök við greiningu krabbameinssýna hjá Krabbameinsfélaginu nái aftur til ársins 2013. Krabbameinsfélagið hefur viðurkennt bótaskyldu í máli konu sem fékk ranga greiningu í skimun við leghálskrabbameini hjá félaginu árið 2018. Mál 11 kvenna sem fengu ranga greiningu í skimun hjá félaginu eru nú á borði Embættis landlæknis. Af þeim eru nú þrjár látnar og var ein þeirra Reynheiður heitin.

„Ég margvaraði við þessu og það er hrikalega sorglegt að þetta kosti alvarleg veikindi og mannslíf,“ sagði Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir og fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í viðtali við Mannlífs og taldi hann sig hafa verið rekinn fyrir að vara við þeim alvarlegu afleiðingum sem fyrirkomulag krabbameinsskimunar kvenna gæti haft í för með sér.

Þá ræddi Mannlíf við fyrrverandi starfsmann Krabbameinsfélags Íslands, sem gekkst við því að hafa gert mannleg mistök í starfi sínu en sárnaði varnaraðferð Krabbameinsfélagsins.

Dauðagildrur Rauða krossins

Blessuð sé minning Tomasar.

Manníf greindi fyrst frá því að það var Tomas Mančiauskas, tæplega þrítugur Lithái, sem fannst látinn í söfnunargámi Rauða krossins í Kópavogi í október. Hann lét eftir sig fjögurra ára gamla dóttur sem býr í Litháen.

Í samtali við Mannlíf hafnaði Rauði krossinn því að söfnunargámar þeirra væru dauðagildrur en lofuðu því að merkja gámana betur til að koma í veg fyrir að slík dauðaslys endurtaki sig.

Þreifingar Reita rannsakaðar
Guðjón Auðunsson, forstjori Reita.

Mannlíf greindi fyrst frá því að Kauphöll Íslands rannsókar meðferð innherjaupplýsinga fasteignafélagsins Reita. Félagið tilkynnti um boðun hluthafafundar þar sem auka átti hlutafé félagsins um allt að 200.000.000 hluta eða um 9 milljarða króna. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, sagði í viðtali að stjórnendur fyrirtækisins hafi þreifað fyrir áhuga hluthafa á mögulegri þátttöku í útboðinu. Stjórnendurnir könnuðu því hvort áhugi væri á þátttöku í fyrirhuguðu hlutafjárútboði í hluthafahópi félagsins áður en tilkynnt var um það opinberlega. Í samtali við Mannlíf vísaði Guðjón því á bug að meðferð innherjaupplýsinga hafi verið ábótavant. En hlutahafar félagsins voru ekki sáttir.

Covid-túr Júllans frá Ísafirði

Júlíus Geirmundsson ÍS var kallaður í land eftir alvarlegt hópsmit um borð.

Mannlíf greindi fyrst frá frægum Covid-túr frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS og þeirri staðreynd að útgerðin hafi ítrekað hundsað fyrirmæli sóttvarnarlæknis umdæmisins. Þá höfum við leitt umfjöllun um viðbrögð stéttarfélaga, skipverja og forsvarsmanna útgerðarinnar sem leitt hafa til lögreglukæru, sjóprófa og ákæru á hendur skipstjóra togarans sem stýrði skipinu í túrnum fræga.

Harmleikur & einelti skekur Garðabæ

Í fjölda viðtala sem Mannlíf birti á þessu ári hafa einstaklingar opnað sig um veikindi, áföll, kynlíf, fíkn, kynferðisofbeldi, starfslok, foreldrahlutverkið, gjaldþrot, missi, skilnað og svona mætti lengi telja. Hér má finna nokkur dæmi um viðtöl sem vöktu mikla athygli á árinu.

Anna Aurora lýsti ávallt yfir sakleysi sínu.

„Ég lýsi algjörlega yfir sakleysi mínu. Það er bara verið að reyna koma á mig einhverri sök og drulla yfir mig,“ sagði Anna Aurora Waage Óskarsdóttir í viðtali við Mannlíf vegna ásakana um að hafa villt á sér heimildir og þjófnað sem bakvörður á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Anna Aurora fullyrðir að hún hafi ekkert að fela og að hún hafi frá upphafi sýnt fulla samvinnu.

Einkaviðtal við Þórdísi hjá Krabbameinsfélaginu: „Enn með kökkinn í hálsinum“

Þórdís Björg Kristinsdóttir, lífeindafræðingur og fyrrverandi starfsmaður Krabbameinsfélags Íslands, ferðaðist um dimman dal eftir að upp komst um mistök hennar við frumugreiningar hjá félaginu. Hún gekkst við því í samtali við Mannlíf að hafa gert mannleg mistök en sárnaði mjög sá varnarleikur félagsins að benda á hana eina til saka. Stjórnendur Krabbameinsfélagsins sögðu frá mistökum hennar í yfirlýsingu og virtust kenna henni einni um. Þórdís var ekki nafngreind en yfirlæknir Krabbaneinsfélagsins vísaði til starfsmannsins sem konu í sjónvarpsviðtali.

„Pabbi minn drap mann“

Erla Rós Bjarkadóttir var aðeins níu ára þegar pabbi hennar gerðist sekur um manndráp. Í helgarviðtali Mannlífs opnaði hún sig um uppvöxtinn í skugga morðsins.

Erla steig fram í einlægu helgarviðtal Mannlífs.

„Barinn með búsáhaldi“ og „Eins og að ganga inn í sláturhús“ eru meðal fyrirsagna sem birtust í fjölmiðlum daginn eftir að Bjarki Freyr Sigurgeirsson varð Braga Friðþjófssyni að bana við Dalshraun í Hafnarfirði þann 17. ágúst 2009.

Már Gunnarsson tónlistarmaður: „Það sem mér hefur alltaf fundist mikilvægast er jákvæðni, sanngirni og framkvæmdagleði“

Már Gunnarsson er ekki nema tvítugur en afrekalisti hans er þegar orðinn ansi langur. Hann lauk árinu 2019 með glæsibrag og raðaði inn verðlaunum og útnefningum. Þrátt fyrir meðfæddan augnsjúkdóm sem veldur blindu sér Már ekkert því til fyrirstöðu að sinna því sem skiptir hann máli og ná góðum árangri.

 

 

 

Jökull Júlíusson söngvari: „Líf rokkarans getur verið einmanalegt“

Jökull, söngvari hljómsveitarinnar Kaleo, hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin ár á milli þess sem hljómsveitin þeytist um allan heim á tónleikaferðalögum. Hann viðurkennir að rokkaralífið geti verið mjög einangrandi og að hann sakni Íslands. Vinsældir hljómsveitarinnar og verkefnin erlendis geri þó ekki líklegt að hann komist heim á næstunni.

 

 

 

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar „Þetta hefur verið gríðarlegt álag“

Björgunarsveitirnar hafa leyst meira en 2.100 verkefni í íslensku samfélagi frá 9. desember, þegar sprengilægð gekk yfir landið með tilheyrandi hörmungum. Vinnustundirnar í þessum útköllum eru 35 þúsund. Það jafngildir 20 ársverkum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa á sama tíma hjálpað ríflega 1.500 manns, í formi áfallahjálpar og með opnun fjöldahjálparstöðva.

 

 

 

Skimunin úr Skógarhlíðinni

Frá áramótum mun hópleit krabbameina flytjast frá Krabbameinsfélaginu; brjóstaskimunin á Eiríksgötuna undir Landspítalann og leghálsskimunin á heilsugæsluna. Um er að ræða stórt verkefni og mikið hagsmunamál fyrir konur en fátt liggur fyrir um utanumhald og fjármögnun.

 

 

 

Trans börn sett í hættu

Tilvist sérstaks teymis fyrir trans börn á BUGL er í uppnámi, m.a. vegna skorts á fjármunum, þrátt fyrir að lög um kynrænt sjálfræði kveði á um starfsemi teymisins. Þessu fylgir nagandi óvissa fyrir trans ungmenni sem þurfa að reiða sig á þjónustu BUGL til að geta fengið nauðsynleg lyf. Þrjár mæður trans stúlkna, sem Mannlíf ræðir við í dag, þekkja dæmi þess að foreldrar hafi þurft að sitja yfir börnum sínum vegna hættu á sjálfsskaða eftir að tilkynnt var um stöðu teymisins.

 

 

„Ég hætti að tala, það var til einskis“

Erna Marín Baldursdóttir hefur staðið í baráttu frá því hún man fyrst eftir sér en stjúpfaðir hennar hóf að misnota hana þegar hún var fimm ára gömul. En það er ekki ofbeldið sjálft sem svíður mest í dag, heldur fálætið af hálfu þeirra sem áttu að vera til staðar og viðmót fagaðila sem sífellt leita afsakana fyrir konuna sem einnig braut gegn henni.

Er nútímafjölskyldan að kikna undan álaginu?

Ég veit ekki hvort ég elska hann * Ég vil ekki fara í skólann * Hvað ef við náum ekki að borga leiguna? * Ég held að sonur minn sé í vandræðum en ég næ ekki til hans * Við erum búin að vera að reyna í þrjú ár en það tekst ekki að ég verði ólétt * Hvað ef ég næ ekki prófunum? * Stjúpdóttir mín hatar mig * Ég er alltaf að drepast úr kvíða * Hvað ef ég missi vinnuna? * Ég er alltaf einn eftir skóla * Við stundum aldrei kynlíf * Þegar ég horfi í spegilinn þá hata ég það sem ég sé*

„Það var verið að leita að strengjabrúðu“

Fljótlega eftir að Guðmundur Gunnarsson tók til starfa sem ópólitískur bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar varð hann þess áskynja að það voru ekki allir sáttir við ráðninguna. Samstarfið við meirihlutann einkenndist af tortryggni og óeiningu og lauk skyndilega eftir að honum voru settir afarkostir.

 

 

 

„Var alltaf hræddur, reiður og í vörn“

Bubbi Morthens er ekki óvanur því að fólk rýni í líf hans og hafi á því mismunandi skoðanir en viðurkennir þó að það sé bæði óþægileg og spennandi tilfinning að birtast sem persóna í söngleik sem byggir á ævi hans. Honum sé þó slétt sama hvað fólki finnist um þá mynd sem þar birtist af sér, það sem skipti máli sé hvað honum finnist um sjálfan sig.

 

 

 

„Við megum ekki gleyma gleðinni“

Daði Freyr Pétursson kom, sá og sigraði í annað sinn sem hann og Gagnamagnið tóku þátt í Söngvakeppninni, með lagið Think About Things. Það er samið til 10 mánaða gamallar dóttur hans og eiginkonu hans, Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur. Lagið hefur fengið mikla athygli erlendis og segir Daði hana velkomna, þótt áreitið sé gríðarlega mikið nú í aðdraganda Eurovision-keppninnar í Rotterdam í Hollandi. Hann segist ætla að nýta tækifærið til fullnustu, enda ekki sjálfgefið að fá slíkt tækifæri.

 

 

„Ég átti ekki að fæðast“

Gunnar Smári Egilsson gerir upp feril sem ritstjóri, útgefandi, stórforstjóri og loks stjórnmálaforingi öreiganna. Barnæskan hans mótaðist af alkóhólisma föður hans og sjálfur glímdi hann við áfengisfíkn. Stofnaði Fréttablaðið sem græddi á óbeit Davíðs Oddssonar. Úthrópaður vegna Fréttatímans. Fékk hvergi vinnu. Þóttist hafa dreymt föður Sólveigar Önnu til að fá hana í framboð í Eflingu. Sósíalistaflokkurinn á sigurbraut. Þingmennskan heillar ekki. Uppgjör Gunnars Smára.

 

 

Dagbók úr sóttkví

Óttar M. Norðfjörð og fjölskylda eru í útgöngubanni á Spáni. Í Mannlífi lýsir hann reynslunni af því, heim í sóttkví og ástandi sem hann kallar sunnudaginn langa.

 

 

Skömmuð fyrir að brosa of mikið

„Þetta verður tímabundið ástand,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Í samtali við Mannlíf ræðir hún stjórnmálin, einkalífið og COVID-19 faraldurinn sem herjar á þjóðina.

 

 

 

 

 

Hrakin úr slökkviliðinu

Andrea Björk Sigurvinsdóttir var eina konan í Slökkviliði Fjarðabyggðar á árunum 2017-2018. Hún lýsir endalausu áreiti og lítilsvirðingu frá samstarfsmönnum sínum. Að lokum bugaðist hún, var send í veikindaleyfi og hefur verið óvinnufær síðan. Hún krefur nú sveitarfélagið um miskabætur eftir að rannsókn óháðra aðila leiddi í ljós að stjórnendur slökkviliðsins og sveitarfélagsins hefðu brugðist henni.

 

 

 

Röð kraftaverka bjargaði lífi Jónu

Jóna Elísabet Ottesen lenti í alvarlegu bílslysi í byrjun júní í fyrra og mátti engu muna að það kostaði hana lífið. Hún er nú lömuð fyrir neðan brjóst og hefur dvalið á Grensás í níu mánuði í endurhæfingu. Hún segir þennan tíma hafa tekið mikið á, oft hafi hún grátið og harmað hlutskipti sitt, en hún sé nagli og stefni nú út í lífið á nýjum forsendum.

Jóna Elísabet hefur verið lömuð eftir bílslys í tæpa tíu mánuði og allan tímann dvalið á heilbrigðisstofnunum. Hún bíður nú eftir því að komast heim þegar aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins lýkur, segist vera að læra að sætta sig við aðstæðurnar en vissulega hafi hún farið í gegnum dimma dali og erfið tímabil á leiðinni að þeirri sátt.

„Langar að deyja án deyfilyfja“

|||
Blessuð sé minning Péturs.

Pétur Einarsson glímir við ólæknandi sjúkdóm. Reiknar ekki með að lifa til haustsins. Óhræddur við dauðann. Dagbók krabbameinssjúklings.

„Amma heldur verndarhendi yfir mér“

Helgi Björns stendur á hátindi frægðar sinnar. Bakarasveinninn sem varð rokkstjarna nýtur þess að eldast. Hann vill enda á indíánabrennu. Lítur aldrei um öxl. Á ekki einu sinni plöturnar sínar. „Ég bjóst svo sem aldrei við að ná þessum aldri.“

 

 

 

 

 

Á frystitogara í hælaháum skóm

Inga Sæland réði barnapíu og skellti sér í Smuguna. Í viðtali við Mannlíf segir hún frá bróðurmissinum, sárri fátækt og því þegar hún missti sjónina vegna læknamistaka fimm ára gömul. „Það má alveg kalla mig grenjuskjóðu,“ segir Inga, sem er sögð hafa grátið sig á þing. Formanni Flokks fólksins finnst óþægilegt að vera í návígi við fólkið af Klausturbarnum.

 

 

Uppgjör Bjarna

Bjarni Benediksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stefnir að áframhaldandi formennsku. Í viðtali við Mannlíf segir hann hvernig hann öðlaðist aukna vigt við að verða afi. Hann kveðst vera í litlu samstarfi við Davíð Oddsson og er ánægður með samstarfið við Katrínu Jakobsdóttur. Hallast frekar að Duran Duran en Wham. Er bjartsýnn fyrir hönd Íslands eftir COVD-19 faraldurinn og telur að við munum koma hratt tilbaka.

 

 

Verðbréfasalinn sem vill verða forseti

Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður segir spillingu ríkja á Íslandi og boðar breytingar verði hann forseti. Í viðtali við Mannlíf segir hann frá pöddusöfnun í æsku, skemmtilegum samskiptum við Björgólf Thor og erfiðu gjaldþroti. Hann viðurkennir að honum hætti til að taka „örlítið sterkt til orða“.

 

 

Ég er alla vega ekki á Tinder

Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson segir frá lífi sínu og æskuárum. „Ég var yngstur og vitlausastur“. Opnar tvo nýja veitingastaði og ræður 130 manns í vinnu í miðjum heimsfaraldri. Stríðið við Skúla í Subway. Grínast með kærustu í hlutastarfi. Glímir við minnimáttarkennd.

 

 

 

 

„Hún hélt ég væri dáinn“

Gísli Már Helgason lýsir kynferðislegri misnotkun sem hann varð fyrir 17 ára. Sagði Ingu Sæland frá málinu. Reyndi að fyrirfara sér árið 2010. Kærði Þórhall miðil árið 2013. Málið rannsakað en talið fyrnt. Miðillinn játaði hvorki né neitaði við yfirheyrslu.

 

 

 

 

Svala Björgvins talar hreint út.

Ný EP-plata og skilnaðurinn við æskuástina. Þriggja ára málaferli við Capitol Records. „Þeir lugu til um aldur minn.“

 

Feimnin var sligandi

Guðni Th Jóhannesson
Mynd / Hallur Karlsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, missti kjarkinn á ræðunámskeiði og faldi sig fyrir mömmu. Brostnir draumar um að verða landsliðsmaður í handbolta. Jafnræði í hjónabandinu. Dreymir um að eignast hund. Forsetinn í fjallgöngu með Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -