Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Margir minnast Svavars

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Útför Svavars Gestssonar fer fram frá Dómkirkjunni í dag en í Morgunblaðinu má lesa ótal minningargreinar um hann eftir marga þekktustu stjórnmálamenn síðustu áratuga. Svavar var áður ritstjóri Þjóðviljans, formaður Alþýðubandalagsins, þingmaður, ráðherra og sendiherra. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans aðfararnótt 18. janúar. Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, fyrrum forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Börn Svavars eru Svandís, Benedikt og Gestur og börn Guðrúnar eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og eiginmaður hennar skrifa sameiginlega minningargrein. „Stundum eiga fyrrverandi stjórnmálamenn það til að vera bitrir yfir hlutskipti sínu en því var ekki að heilsa hjá Svavari. Hann hafði vissulega skoðanir á mönnum og málefnum, og það sterkar, en var ekki einn þeirra sem telja að þeir geri allt betur en allir aðrir. Svavar var þó ávallt til taks ef annað fólk þurfti að leita til hans og þau voru ófá skiptin sem Katrín gat notið reynslu hans,“ segja þau og enn fremur:

„Við þökkum stuðninginn og vináttuna sem Svavar veitti okkur og sonum okkar á meðan hann lifði. Síðast hittum við Svavar og Guðrúnu saman í Hólaseli á ágústkvöldi, það blés hressilega og birtan sló einstökum síðsumarbjarma á Breiðafjörðinn. Við sátum langt frameftir að fara yfir stöðuna og stjórnmálastandið sem Svavar gerði alltaf með skipulögðum hætti og nálgaðist málin út frá skarpri greiningu og skýrri sýn. Minning lifir um mann sem fyrst og fremst vildi gera gagn fyrir samfélag sitt sem og heiminn allan. Við vottum Guðrúnu, Svandísi, Benedikt, Gesti og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur.“

Ólafur rifjar upp fyrstu kynnin

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, segir hann hafa verið einstakan. „Svavar Gestsson var eini leiðtogi íslenskra vinstrimanna sem gat í krafti eigin athafna, orðræðu og minninga tengt saman gönguna löngu frá tímum Einars og Brynjólfs til Samfylkingar, Vinstri-grænna og ríkisstjórnar Katrínar. Ungur sat hann við fótskör eldhugans og lét sér ætíð annt um þá arfleifð. Forystan fól honum fljótt ærinn trúnað, ritstjórn úr sæti Magnúsar, skrif þar sem penni Austra hafði mótað boðskap,“ skrifar Ólafur.

„Þingskörungur, jafnvígur í vörn og sókn. Ræðustóllinn líkt og í Róm til forna vettvangur til að safna liði, virkja fólk til góðra verka. Frá Alþingi lá leiðin á sléttur Manitoba. Að formi til sendifulltrúi ríkisins en varð fljótt í reynd héraðshöfðingi og hreppstjóri í samfélagi Vestur-Íslendinga sem lengi höfðu beðið slíks manns að heiman. Hátíðarhöldin í tilefni þúsund ára afmælis landafunda hápunktur dvalarinnar. Síðan var baráttumaðurinn frá fundum með Dagsbrúnarkörlum við höfnina, vígaglaður á vettvangi fjöldans, sendur til hirða norrænna konunga; sómdi sér vel í glæsisölum gamalla halla, bæði í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.“

Ólafur rifjar upp fyrstu kynni þeirra tveggja. „Ævintýraleg vegferð sveitastráks úr Dölunum sem fátækur leigði sér herbergi í nágrenni Tjarnarinnar til að stunda nám í Menntaskólanum við Lækjargötu. Þar hittumst við fyrst á göngunum, hófum samræðu um stjórnmál og stefnur sem entist okkur í áratugi. Saman í forystu Alþýðubandalagsins þegar því tókst að sitja lengst í ríkisstjórn; tímabil sem skipti sköpum í þróun vinstrihreyfingar. Hinn róttæki flokkur vandist því að fara með ríkisvaldið.

- Auglýsing -

Það var stundum sagt að við hefðum verið oddvitar ólíkra fylkinga og ýmsir skemmtu sér við að tína til ágreiningsefnin. Þá gleymdust jafnan stórar stundir þegar samstaða okkar og bræðralag réði úrslitum. Tengslin frá hinum gamla skóla reyndust sterk; bönd sem aldrei trosnuðu þótt oft væri öldugangur í siglingunni. Frásagnir um æviferil ná ekki að fanga geislandi sjarma baráttumanns, leiftrandi tilsvör og glampa í augum, kímnina sem oft breytti spennu í óvænta gleði. Í vitund félaganna var Svavar fyrst og fremst heillandi. Engum líkur. Einstakur“.

Samstarf fjölskyldna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, minnist hans einnig en hún heyrði fyrst af honum sem barn. „Sem barn og unglingur heyrði ég oft talað um Svavar, fyrst hjá langömmu enda voru þau Svavar miklir félagar á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðubandalagsins. Mikið rætt um pólitík á heimilinu, og var mikil virðing borin fyrir Svavari, sem líka þótti hafa gott pólitískt innsæi! Ein sagan af Svavari er skemmtileg í þessu samhengi. Þannig hélt hann því fram í tækifærisræðu í sextugsafmæli Steingríms Hermannssonar, þáverandi utanríkisráðherra í samsteypustjórn Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokks, að afmælisbarnið væri „á villigötum með íhaldi og krötum.

Í tilefni dagsins legg ég á og mæli um, að áður en langt um líður verður mynduð vinstristjórn á Íslandi undir forystu Steingríms Hermannssonar“. Í ævisögu Steingríms segir að ummælin hafi vakið almenna kátínu snemmsumars 1988, þótt alvara hafi legið að baki. Skemmst er frá því að segja, að spádómur Svavars rættist síðar sama ár, öllum að óvörum, vinstristjórnin var stofnuð og Svavar tók við embætti menntamálaráðherra. Þar átti Svavar farsælan feril og kom mörgum umbótamálum í verk,“ segir Lilja.

- Auglýsing -

Fjölskyldurnar áttu eftir að halda áfram samstarfi. „Samstarf minnar fjölskyldu við hans átti síðar eftir að verða meira. Guðrún Ágústsdóttir, eiginkona Svavars, varð samherji föður míns á vettvangi Reykjavíkurlistans og Svandís dóttir hans samherji minn við ríkisstjórnarborðið. Í gegnum þau öll kynntist ég Svavari og lærði hvaða mann hann hafði að geyma. Metnaðarfullan og drífandi, sem kom hugmyndum í verk. Síðast hitti ég Svavar vegna áforma hans og annarra um að treysta byggð í Dalasýslu með menningartengdri starfsemi á svæðinu sem fóstraði Sturlu Þórðarson, Auði djúpúðgu, feðgana Eirík rauða og Leif heppna, Guðrúnu Ósvífursdóttur og fleiri. Þar átti Svavar rætur og kaus að verja drjúgum hluta eftirlaunaáranna, í sumarhúsi fjölskyldunnar við Króksfjörð.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -