Margrét Friðriksdóttir, stjórnandi Stjórnmálaspjallsins og áhugakona um trúmál, boðar til mótmæla fyrir utan Biskupsstofu á laugardag. Hún segist hafa fengið nóg af guðlasti biskups, Agnesar M. Sigurðardóttir. Margrét greinir frá þessu innan fyrrnefnds hóps.
Í þeim sömu færslu lekur Margrét skilaboðum sem Hildur Björk Hörpudóttir skrifaði innan lokaðs hóps hinsegin fólks á Íslandi, Hinseginspjallsins. Meðlimir þess hóps eru tæplega þrjú þúsund og er ekki hverjum sem er hleypt inn. Margrét telur sig hafa fundið staðfestingu á guðlasti þar. Málið allt snýst nú fræg brjóst Jesús í kynningarmynd sunnudagaskóla Þjóðkirkjunnar.
Margrét deilir skilaboðum sem Hildur Björk virðist hafa skrifað innan Hinseginspjallsins. Þar skrifar hún: „Heil og sæl dásamlega hinseginspjall. Ég viðurkenni fúslega að ég er ein af þeim sem ber ábyrgð á þessu sem prestur og sviðsstjóri fræðslusviðs þjóðkirkjunnar. Grunnurinn er að birta mynd af samfélaginu eins og það er – sleppa staðalmyndum sem kirkjan hefur mikið keyrt á og hafa verið í forgrunni í efni kirkjunnar. Kristur er allra – ekki bara hvítra gagnkynhneigðra karlmanna. Í þessu ljósi er kristur allt í einu – getur verið karl með brjóst – kona með skeggrót. Jesú gæti líka verið non–binary og trans,“ skrifar Hildur Björk.
Hildur Björk virðist vera að biðjast afsökunar innan lokað hópsins. „Ég vona svo sannarlega að þetta útskýri málið. Þetta er mikið skref innan kirkjunnar og ekki auðvelt. Ég vona að þið takið frekar undir þá veröld sem við viljum leiða fram í stað þess að finna okkur í andstæðingum. Sem við erum svo sannarlega ekki. Það hefur verið mesta blessun kirkjunnar í lengri tíma að fá að eiga ykkur sem tilheyrið hinsegin samfélaginu sem fyrirmynd að samfélagi þar sem kærleikur, mannvirðing, mannréttindi og ástin lifir,“ skrifar hún.
Margrét er afdráttarlaus, þetta er guðlast. „Hér viðurkennir sviðsstjóri fræðslusviðs þjóðkirkjunnar Hildur Björk Hörpudóttir að hafa staðið að guðlasti og afskræmingunni á Jesú Krist Frelsara mannkynsins, hún er prestur í ofanálag og þekkir ekki orð Guðs og einkason hans Jesú Krist að virðist. Þá segir Pétur G. Markan, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, að eftir allt saman að þá var Jesú kannski trans eða kona, það skipti ekki máli. Og séra Sigríður Guðmarsdóttir segir Jesú hafa verið homma, lesbíu og hán,“ segir Margrét.
Hún segir fyrrnefnt fólk hrækja á allt heilagt. „Það mætti halda að þetta fólk væri á sterkum eiturlyfjum og ef ekki þá tel ég þetta fólk ekki starfi sínu vaxið og er til háborinnar skammar fyrir kirkjuna og framtíð hennar. Biskup leggur svo blessun sína í ofanálag við þessa úrkynjun og siðblindu af hálfu þessara starfsmanna. Þarf ekki einhver að taka ábyrgð, þarna er verið að lítilsvirða og særa stóran hóp fólks í samfélaginu sem og hrækja á allt það sem mörgum er heilagt,“ segir Margrét.
Hún segist ætla mótmæla fyrir utan Biskupsstofu á laugardaginn: „Svo er ekki nóg með þessa myndbirtingu á netinu heldur ætlar Kirkjan að ganga lengra og setja þessa afskræmingu af Frelsaranum á strætisvagna borgarinnar með svokallaðri auglýsingaherferð. Fyrirhuguð mótmæli verða næstkomandi laugardag fyrir utan Biskupsstofu, nánari upplýsingar koma í vikunni.“