Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Margrét lýsir ótrúlegu atviki á bar: „Byrjar að pota í hana og vinur hans að káfa á henni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reiðin hefur ólgað inn í Margréti Bjarnadóttur síðan hún sá fréttirnar af máli Vítalíu Lazarevu í síðustu viku. Hún lýsir eigin reynslu af miðaldra karlmönnum.

Sjá einnig: Þetta eru mennirnir sem Vítalía ásakar – Ari í leyfi vegna ásakana

Margrét Bjarnadóttir listakona skrifar grein á Vísi í gær þar sem hún skrifar um reynslu sína og vinkvenna sinna af miðaldra karlmönnum á skemmtistöðum. Fór hún ásamt vinkonum sínum á bar rétt fyrir jól þar sem nokkrir miðaldra karlmenn voru staddir.

„Klukkan var átta þegar við gengum inn á staðinn, allar með grímur. Við vorum rétt komnar inn úr dyrunum þegar ókunnugur karlmaður gengur upp að vinkonu minni, dregur niður grímuna hennar og strýkur henni í framan. Hún bandar honum frá sér og okkur er vísað til borðs sem við áttum frátekið, á góðum stað, út af fyrir okkur, með útsýni yfir Austurvöll. Vinkona mín fer á barinn til að panta sér drykk og þar sem hún bíður eftir afgreiðslu kemur maður upp að henni og byrjar að pota í hana og vinur hans að káfa á henni. Hún gengur í burtu án þess að ná að panta sér drykk. Við fáum þá að panta drykki frá borðinu okkar þannig að við þurfum ekki að standa við barinn. Við vorum búnar að vera inni á staðnum í þrjár mínútur og þremur karlmönnum hafði tekist að sýna þessa hegðun á þeim mettíma. Og einmitt, þetta voru bara svona efnaðir, „flottir“ karlar um fimmtugt. Og klukkan var átta.“

Þá segir Margrét að þetta sé ekkert nýtt af nálinni, þessi hegðun en ástæðan fyrir skorti á þolinmæði gagnvart henni gæti verið sú að hún var edrú þetta kvöld og hún hafði ekki farið lengi út á bar og að ný Metoo bylgja var hafin. „Og allar þessar bar-senur í gegnum tíðina fóru að rifjast upp, allt óumbeðna káfið, óumbeðnu samtölin og óumbeðnu „af hverju brosirðu ekki? þú ert fallegri þannig“-kommentin og hvað þetta var allt fullkomlega glatað – og er. Og hvað það er ótrúlega skrítið að þetta hafi ekkert breyst eftir alla umræðuna síðustu ár og mánuði. Breytingin virðist allavega ekki hafa ratað á barina. Að minnsta kosti ekki á barina sem miðaldra karlarnir sækja.“

Því næst veltir Margrét því fyrir sér hvort miðaldra karlmenn eigi ekki erfitt með umræðuna sem er í gangi í samfélaginu.

- Auglýsing -

„Ég velti því fyrir mér hvort þessi kynslóð karlmanna eigi sérstaklega erfitt með umræðuna og breytingarnar sem nú er kallað eftir? Þeir eru ekki ungir – en heldur ekki orðnir gamlir. Þeir eru í hringiðunni, í áhrifastöðum, yfirmenn, stjórnendur fyrirtækja … Þetta er einmitt sú kynslóð karlmanna sem þyrfti að vera sérstaklega meðvituð um kúltúrinn sem hefur fengið að viðgangast og hegðunar- og viðhorfsbreytingarnar sem þurfa að eiga sér stað. Annars munu þeir úreldast mjög fljótt. En ég hef á tilfinningunni að margir nenni lítið að setja sig inn í þetta. Finnst þeir kannski vera þokkalega menntaðir og civiliseraðir og að þetta snerti þá ekkert sérstaklega. Finnst þetta bara vesen, óþægilegt og þreytandi. Þeir eru kannski meðvitaðir um umræðuna en ég hef á tilfinningunni að upplýsinga-upptakan hjá sumum sé mjög grunn og stutt í óþolið – en ef maður hlustar bara með egóinu sínu eða í vörn, þá meðtekur maður ekki neitt. Sumir geta því aldrei fyllilega skilið hvað þarf að breytast. Taka það ekki raunverulega til sín. Þeir geta jafnvel virst meðvitaðir og upplýstir í orði en eru fljótir að missa tökin á borði. Þeim finnst kannski eins og verið sé að taka eitthvað frá þeim. Nú sé þeirra tími. En hvað er raunverulega verið að taka frá þeim?“

Tekur hún það fram í grein sinni að þegar hún sé að tala um miðaldra karlmenn sé hún í raun að tala um nokkra einstaklinga, ekki heilu kynslóðirnar.

Segir hún að það sé eins og þessir menn skilji ekki þegar talað er um það tilkall sem þeir telji sig sjálfkrafa hafa í lífinu.

- Auglýsing -

„Tilkall til líkama annarra, tilkall til samtals, tilkall til athygli, tilkall til aðeins meiri virðingar en konan – bara pínu meiri virðingar. Eins og það sé sjálfsagt og eðlilegt. Þetta tilkall getur verið ótrúlega lúmskt og sumir gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að þeim finnist þeir innst inni hafa þetta tilkall. Og svo virðast hlutirnir geta brenglast rækilega í krafti aldurs, stöðu, peninga og valds. Eins og afhjúpaðist svo skýrt nú í lok vikunnar. Áður en þeir vita af eru þeir allsberir í heitum potti með þremur félögum sínum að setja fingur upp í endaþarm ungrar konu sem er jafngömul börnunum þeirra. Þið megið lesa síðustu setningu aftur.“

Lýkur hún pistlinum á afar sterkum nótum.

„Ég hef tekið eftir því að sumir afgreiða fréttir síðustu daga með því að segja að þetta sé „fyrst og fremst sorglegt“. Eins og það sé niðurstaðan. Nei, þetta er fyrst og fremst viðbjóðslegt og ömurlegt og það þarf að ræða þetta – meira og lengur. Fletta lögunum af, einu af öðru – því þetta er í mörgum, hárfínum lögum og þetta snýst ekki bara um fimm spillta og dómgreindarlausa karla úti í bæ.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -