Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

María gerir stuttmynd um glímu aðstandanda við geðhvörf: „Fólk fjarlægist þessa einstaklinga“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Módel; Vala Ómarsdóttir. Ljósmyndari: María Kjartans

„Ástæðan fyrir því að ég fór að fjalla um þessi mál var að ég lenti sjálf í því að vera aðstandandi manneskju sem að skyndilega veiktist af geðhvörfum fyrir fjórum árum síðan,“ segir María Kjartans ljósmyndari og kvikmyndargerðarkona um tilurð stuttmyndarinnar Sprungur eftir Maríu og Völu Ómarsdóttur sem verður forsýnd í Bíó Paradís 11. nóvember næstkomandi. Þetta er mynd sem fjallar um einangrunina og einmannaleikann sem einstaklingur með geðrænan vanda þarf að kljást við eftir veikindi og hversu erfitt það getur verið að komast aftur út í lífið þegar sjálfsmyndin er brotin og vonin um eðlilegt líf er lítil.

Ljósmyndasería með sama nafni var einnig skotin samhliða tökum og var hún til sýnis í SÍM salnum í Hafnarstræti í ágúst síðastliðinn.

Mannlíf fékk að heyra í Maríu Kjartans og fræðast um stuttmyndina hennar og mikilvægan boðskap myndarinnar.

María Kjartans er myndlistarkona sem hefur aðallega starfað við listræna ljósmyndun og nú nýlega stuttmyndagerð.

Víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað nýtt
„Ég byrjaði fyrst að fikta við ljósmyndun 14 ára gömul hjá Kristjáni Sigurðssyni ljósmyndara hjá Hugskot stúdíó, þar sem hann kenndi mér allt sem ég þurfti að læra í sambandi við myndatökur, stúdíó, lýsingu og annað. Þegar kom svo að því að velja háskólanám til að víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað nýtt ákvað ég að læra myndlist við Listaháskóla Íslands.“

Módel; Vala Ómarsdóttir. Ljósmyndari: María Kjartansl

Eftir BA námið lá leið hennar í Listaháskólann í Glasgow þar sem hún nam Meistaranám í myndlist og hélt áfram að einbeita sér að listrænni ljósmyndun.

- Auglýsing -

„Við Birgir maðurinn minn og Hera Lind dóttir okkar bjuggum  í London í 6 ár og síðar í París þar til leið okkar lá aftur til Íslands þar sem við höfum nú verið að koma okkur vel fyrir síðastliðin 9 ár. “

Þegar María er aðspurð hvers vegna málefni um glímuna við geðhvörf hafi verið valinn fyrir myndina segir hún:

„Að fylgjast með þessum flotta einstakling lenda átta  sinnum inn á geðdeild á svona stuttum tíma var óbærilegt. Fólk kemur oftast mjög brotið út úr svona syrpum, en að vita ekkert hvað maður getur gert til að hjálpa og upplifa hvernig allir hurfu þegar hann þurfti sem mest á þeim að halda var mjög sárt. “

- Auglýsing -

Skynja ótta hjá fólki
María segir að hún skynji vel ótta hjá fólki þegar kemur að geðsjúkdómum og fólki með geðrænar áskoranir.

„Í daglegu tali má oft heyra fólk segja: hann er „geðveikur“ en ekki hann/hún hefur verið að kljást við geðræn vandamál og nú er hann/hún í bata. Fólk fjarlægist þessa einstaklinga í þeirra veikindunum og láta sig jafnvel hverfa vegna þess hversu mikil skömm og vanþekking getur fylgt þessum sjúkdómum.“

Módel; Vala Ómarsdóttir. Ljósmyndari: María Kjartans

Hún segir að það geti verið virkilega erfitt fyrir suma þessara einstaklinga að komast aftur út í samfélagið og tengjast vinum sínum, hvað þá að fá vinnu eða eignast maka. Einangrunin, einmanaleikinn og vonleysið verður oft til þess að sagan endurtekur sig.

Það kom Maríu á óvart hversu lítill skilningur er almennt í samfélaginu á þessum sjúkdómum og hvað fólk þarf að ganga í gegnum. Hún upplifir höfnum frá samfélaginu í garð þessara einstaklinga í stað þess að verið sé að taka þeim með opnum örmum í bataferlinu. Þetta er sjúkdómur sem fólk er að kljást við kannski alla ævi og það er manneskja á bak við sjúkdóminn. Manneskjan er ekki sjúkdómurinn, það er stóri miskilningurinn.

Það gerist líka eitthvað þegar margir snillingar leggjast á eitt
Hún segir okkur stolt frá myndinni sinni Sprungur og hugmyndafræðinni í sinni listsköpun, sem hún hefur verið að þróa með sér síðustu ár. Hún upplifir sig loksins vera komna með ágætis þekkingu og reynslu í bakpokann til að hugsa og vinna stærra.

„Það gerist líka eitthvað þegar margir snillingar leggjast á eitt og skapa frá hjartanu það er ótrúlega falleg og góð orka sem fylgir svoleiðis verkefnum. Leikstjórinn Vala Ómarsdóttir og ég sömdum verkið saman og fengum Bigga Hilmars manninn minn og tónlistarmann til að gera tónlistina, ásamt frábæru teymi af hæfileikaríku fólki úr kvikmyndageiranum. Það má líka alveg minna sig á það stundum hversu gott er að deila verkefnum. Við listafólkið eigum það til að vinna mikið ein og ætla að gera allt sjálf. Þetta var virkilega góð upplifun að vinna með svona flottum hóp þar sem allir komu með sína styrkleika á borðið.“

Ljósmyndari: María Kjartans

Talið berst að þeim sterku tilfinningum sem María upplifði þegar hún kemst að því að nákomin manneskja sem henni þykir ofboðslega vænt um greinist með alvarlegan geðsjúkdóm.

„Ég upplifði fyrst mikinn ótta og reiði gagnvart einstaklingnum og síðar vanmáttarkennd. En erfiðast þótti mér sorgarferlið sem kom á eftir, því ég trúði því ekki að manneskjan gæti nokkurn tímann komið aftur til baka og orðið aftur hún sjálf. Það að syrgja manneskju sem er enn á lífi var örugglega erfiðasti hjallinn í þessu ferli. Það sem hjálpaði mér að komast í gegnum þetta tímabil var sambandið og styrkurinn frá fjölskyldunni og vinum, en listin hjálpaði líka mikið. Því það er ákveðið heilunarferli sem fer af stað í listsköpun.“

Stuttmyndin Sprungur er hluti af heilunarferli Maríu. Í gegnum verkefnið hefur hún fundið rödd til að tjá það sem hún hefur lært á þessari vegferð og opnað á umræðuna um þessi mál eða reynt að minnsta kosti að brúa bilið á milli samfélagsins og fólksins sem glímir við geðrænar áskoranir.

María telur það mjög mikilvægt að snúa ekki baki við fólki sem hefur verið að kljást við geðræn veikindi og ekki hverfa þegar þau þurfa mest á okkur að halda.

Því ef að þau fá ekki tækifæri til að tengjast aftur fólkinu sínu og að komast aftur út í samfélagið eftir veikindin, hvað þá?

„Þetta fór allt af stað á alveg ótrúlega eðlilegan hátt. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það gerðist, en við Vala vorum eitthvað að tala saman um að vinna saman lítið vídeó verkefni, þegar við fórum að vinna að tónlistarvídeói fyrir Bigga Hilmars þar sem hann var með tökumann, ljósahönnuð og fleiri, að við áttuðum okkur á hversu borðliggjandi það væri að vinna að sama skapi að okkar verkefni, þ.e að gera ekki allt sjálfar. Við töluðum þá við Hákon Pálsson DOP og Andra Enoksson aðstoðarleikstjóra hvort þeir væru tilbúnir að koma að verkefninu og þegar handritið þróaðist og sagan fór að myndast voru einhvernvegin allir sem við óskuðum eftir að fá inn í sköpunarferlið tilbúnir að koma að þessu. Ég tók að mér að framleiða verkefnið og þetta small allt einhvern vegin. Fólk var mjög tilbúið að styrkja þetta málefni þannig að það var greinilegt að þörfin var mikil og margir sem tengja við þennan heim. Það var eins og lífið væri að stjórna verkefninu en ekki öfugt.“

Heyra þeirra sögur var átakanlegt
Það sem henni fannst eftirminnilegast og taka mest á voru viðtölin við einstaklingana sem myndin er byggð á, að heyra þeirra sögur var átakanlegt.

„En svo er líka alltaf svo eftirminnilegt að komast í tengingu við náttúruna, það er svo magnað að finna hvernig einhverskonar yfirnáttúrleg orka tekur yfir þegar maður slítur sig frá borginni og dettur í sónið, algjörlega í núinu inn í gjá að klifra fossa.“

Næst á döfinni hjá þessari flottu listakonu er að forsýna Sprungur 11. nóvember, senda myndina á hátíðir og fara í samræður við gallerý í London sem hefur kynnt verkin hennar frá 2009. Þá verður bæði ljósmyndaserían og stuttmyndina sýnd þar sem heildstæð innsetning.

Mánuður myndlistar er í október og bað Samband íslenskra myndlistarmanna Maríu um að vera með flott verkefni til að kynna verkefnið í Menntaskólum í Reykjavík og nágrennis.

„En svo er að sjálfsögðu eins og gerist oft að maður er komin með hugmynd að næstu stuttmynd sem að verður í svipuðum stíl og líklega mynd nr. ⅔ í seríu þar sem við munum taka annann pól á þessu sama viðfangsefni. Það er allt saman mjög spennandi og mér finnst rosalega gaman að hafa loksins fundið mína leið í listsköpuninni þar sem ég blanda saman þessum tveimur miðlum sem hafa ólíkar raddir, því fólk tengir mismunandi við listgreinarnar og það þykir mér mjög áhugavert og gaman að skoða. “

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -